Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Áfram hjaðnar verðbólgan

Verðbólga hefur hjaðnað um 0,8% það sem af er ári. Áhrif af veikingu krónu í fyrrahaust virðast vera mildari en vænta mátti.


Verðbólga hefur hjaðnað um 0,8% það sem af er ári. Áhrif af veikingu krónu í fyrrahaust virðast vera mildari en vænta mátti. Einnig hefur dregið jafnt og þétt úr áhrifum íbúðaverðs á verðbólguna. Verðbólguhorfur virðast þokkalegar á komandi fjórðungum að því tilskyldu að ekki verði óhófleg almenn hækkun á launum á vordögum.

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,52% í mars skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 2,9% en var 3,0% í febrúar. Verðbólga hefur því hjaðnað um 0,8% frá lokum síðasta árs, en í desember sl. mældist verðbólgan 3,7%. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,66% í mars og m.v. þá vísitölu mælist 2,4% verðbólga undanfarna 12 mánuði. Hefur munurinn á þessum tveimur mælikvörðum ekki verið minni frá haustdögum 2013, sem endurspeglar minnkandi hækkunarþrýsting frá íbúðaverði á fyrrnefnda mælikvarðann.

Mæling marsmánaðar er í neðri kantinum miðað við birtar spár  Við spáðum 0,6% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,5% – 0,7% hækkun milli mánaða.  Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur m.a. í minni hækkun húsnæðisliðar en við væntum og lítilsháttar lækkun á tómstunda- og menningarlið VNV sem og heimilisbúnaði.

Áhrif íbúðaverðs og krónu að minnka

Undanfarið hefur dregið jafnt og þétt úr hækkunartakti íbúðaverðs eftir því sem framboð íbúða hefur aukist og eftirspurnarspenna á markaðinum farið minnkandi. Að sama skapi hefur hlutdeild húsnæðisverðs í heildarverðbólgu minnkað. Áframhald er á þessari þróun í marsmælingu VNV.

Á heildina litið hækkaði íbúðaverð á landinu um 0,3% milli mánaða samkvæmt mælingu Hagstofunnar, en hún styðst við kaupsamninga frá tímabilinu desember 2018 – febrúar 2019. Árstakturinn fór þar með í 4,4% og hefur ekki verið hægari í sex ár. Líkt og undanfarið hækkar verð á landsbyggðinni hraðar en á höfuðborgarsvæðinu. 12 mánaðahækkunartakturinn utan höfuðborgarsvæðis er nú tæp 9% á meðan sérbýli á höfuðborgarsvæði hefur hækkað um 5% og fjölbýli um tæp 3% á sama tímabili.

Áhrif útsöluloka voru talsverð í marsmælingu VNV. Sér í lagi hækkaði verð á fötum og skóm um nærri 10% milli mánaða (0,31% áhrif í VNV). Þar verður þó að hafa í huga að í febrúar gætti útsöluloka nánast ekkert í fataverði. Eftir hækkunina nú er fataverð því aftur komið á svipaðar slóðir og það var fyrir janúarútsölurnar.

Almennt teljum við að áhrif gengisveikingarinnar á seinni hluta síðasta árs á verðbólgu séu hóflegri enn sem komið er en við væntum. Innfluttar mat- og drykkjarvörur hafa til að mynda hækkað um 2,8% í verði undanfarna 12 mánuði, fatnaður hefur hækkað um 1,2% og húsgögn og heimilisbúnaður um 3,0%. Á sama tíma hefur gengi helstu gjaldmiðla hækkað um 11% gagnvart krónu. Virðist sem innflytjendur og söluaðilar innfluttra vara hafi tekið á sig talsverðan hluta af þeirri kostnaðarhækkun sem óhjákvæmilega hlaut að fylgja gengisveikingunni.

Virkara samkeppnisumhverfi og blikur á lofti varðandi eftirspurn eiga vafalítið sinn þátt í þeirri þróun, en fyrir heimilin hlýtur hún að teljast fagnaðarefni þar sem kaupmáttur hefur haldið betur velli fyrir vikið en oftast hefur verið raunin þegar krónan hefur veikst við lok hagsveiflu.

Þokkalegar verðbólguhorfur en óvissa um launaþrýsting

Horfur eru að að verðbólga verði áfram á svipuðum slóðum næsta kastið. Við spáum 0,2% hækkun VNV í apríl, 0,2% hækkun VNV í maí og 0,3% hækkun VNV í júní. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 3,1% í júní 2019.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband