Verðbólga eykst úr 6,0% í 6,2%

Ársverðbólga jókst lítillega úr 6,0% í 6,2% í maí ólíkt okkar spá sem gerði ráð fyrir óbreyttri verðbólgu. Við spáum þó hjöðnun á næstu fjórðungum þó árstakturinn breytist lítið á allra næstu mánuðum. Það sem kom helst á óvart í þessari mælingu var hve lítið reiknuð húsaleiga hækkaði og að viðlíka lækkun flugfargjalda og tíðkast venjulega í maí var ekki að sjá.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,58% í maí samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hækkar því lítillega úr 6,0% í 6,2%. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist hins vegar 4,2%. Birtar spár greiningaraðila gerðu ráð fyrir því að verðbólga héldist óbreytt. Við spáðum því að VNV myndi hækka um 0,4% og að ársverðbólga væri því óbreytt í 6,0%.

Að þessu sinni hækkaði reiknuð húsaleiga talsvert minna en við spáðum, en sá liður hefur hækkað töluvert undanfarna mánuði. Húsnæðisliðurinn hækkaði um 0,64% (0,19% áhrif á VNV) og þar af  hækkaði reiknuð húsaleiga , sem byggir á þróun íbúðaverðs og verðtryggðra vaxta, um 0,71% (0,14% áhrif á VNV). Aðrir liðir á borð við mat og drykk, aðrar vörur og þjónustu, húsgögn, heimilisbúnað o.fl. höfðu 0,06% áhrif til hækkunar hver. Það má því segja að hækkunin sé á nokkuð breiðum grunni og ekki síst séu innfluttar vörur að hækka heldur meira en vænst var.  

Flugfargjöld standa í stað þvert á spár

Óvæntasta frávikið frá verðbólguspá okkar voru flugfargjöld en þau stóðu nánast í stað milli mánaða. Við höfðum spáð því að liðurinn Ferðir og flutningar myndi lækka um 0,8% (-0,13% áhrif á VNV). Liðurinn flutningar í lofti lækkaði um 0,20% (0% áhrif á VNV) en spáin hljóðaði upp á 6% lækkun (-0,13% áhrif á VNV). Þá hækkuðu bílar í verði um 0,54% (0,03% áhrif á VNV) en við spáðum lækkun. Við teljum þó að þessi hækkun bíla hafi verið tímabundin og gæti því að hluta til gengið til baka.

Verðbólguhorfur á næstunni

Verðmæling maímánaðar var sú síðasta áður en ný aðferð við mælingu á reiknuðu húsaleigunni verður tekin upp í júní. Áhrif breytingarinnar á verðbólgu allra næstu misseri eru óljós en við teljum að hún komi trúlega til með að minnka sveiflur í mælingum. Þar sem flugfargjöld lækkuðu ekki í maí eins og spáð var gæti það leitt til þess að hækkun í júní verði minni en við gerum ráð fyrir og verðbólga þ.a.l. lægri að öðru óbreyttu. Það sama á við um bíla sem hafa farið lækkandi í verði á árinu og við teljum því hækkun bíla í þessum mánuði tímabundna. Þá hafa útsölur á árinu einnig verið kröftugar og samdráttur í kortaveltu bendir til þess að svipaður taktur verði í sumarútsölum sem framundan eru. Helsti óvissuþátturinn eru áhrif breyttrar aðferðafræði við útreikning á reiknuðu húsaleigunni á verðbólguna næsta kastið.

Í uppfærðri bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir

  • Júní - 0,5% hækkun VNV (ársverðbólga 5,8%)
  • Júlí - 0,3% hækkun VNV (ársverðbólga 6,1%)
  • Ágúst - 0,4% hækkun VNV (ársverðbólga 6,2%)

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband