Verðbólga eykst lítillega í mars

Vísitala neysluverðs hækkaði meira en spár gerðu ráð fyrir í mars. Ársverðbólga jókst lítillega úr 6,6% í 6,8%. Hækkun reiknaðrar húsaleigu og flugfargjalda vógu þyngst til hækkunar vísitölunnar í mars. Samkvæmt okkar spá mun verðbólga þó hjaðna næstu mánuði.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,8% í mars samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hækkar úr 6,6% í 6,8%. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 4,7% undanfarna 12 mánuði. Hækkun reiknaðrar húsaleigu vegur þungt sem og árstíðabundin hækkun flugfargjalda.

Hækkun reiknaðrar húsaleigu vegur þungt

Mæling marsmánaðar er yfir öllum birtum spám. Spár voru á bilinu 0,5 – 0,7% hækkun vísitölunnar og við spáðum 0,5%. Reiknaða húsaleigan hækkaði meira en við höfðum spáð en hún hækkaði um 2,1% (0,40% áhrif á VNV), við spáðum 0,8% (0,15% áhrif á VNV). Greidd húsaleiga hækkaði um 0,8% (0,03% áhrif á VNV). Þróun húsnæðismarkaðar næstu mánuði kemur til með að litast af uppkaupum ríkisins á eignum í Grindavík en húsnæðisverð á Suðurnesjum hefur hækkað meira en annarsstaðar síðustu vikur. Endurspeglast það í því að íbúðaverð utan höfuðborgarsvæðisins hækkaði um 3,8% milli mánaða samkvæmt Hagstofunni en á sama tíma hækkaði verð á sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu um 1,2% og verð á íbúðum í fjölbýli einungis um 0,6% á sama mælikvarða.

Í þessu sambandi er vert að nefna að Hagstofan birti í morgun greinargerð um breytingar á aðferðafræði við útreikning á reiknuðu húsaleigunni. Í stað núverandi aðferðar, sem byggir á markaðsverði íbúða og raunvöxtum á íbúðalánum, kemur aðferð þar sem notast er við gögn frá leigumarkaði. Nýja aðferðin verður innleidd í júní næstkomandi. Við teljum góðar líkur á að bæði muni sveiflur í reiknuðu húsaleigunni minnka með hinni nýju aðferð sem og að verðbólga muni mælast heldur minni á seinni helmingi ársins fyrir vikið.

Flugfargjöld til útlanda hækka um páska

Í línu við verðbólguspá okkar fyrir marsmánuð vógu flugfargjöld þyngst til hækkunar að húsnæðisliðnum undanskildum. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 9,9% (0,16% áhrif á VNV). Um er að ræða árvissa hækkun flugfargjalda sem tíðkast yfir páska. Alla jafna á sú hækkun sér stað í apríl en þar sem páskarnir eru snemma í ár kemur hluti hækkunarinnar fram í mars og teygir sig fram í apríl.

Áhrifa útsöluloka gætir enn en bílar lækka

Föt og skór hækkuðu um 2,1% (0,08% áhrif á VNV) sem er til marks um framlengd áhrif útsöluloka. Áhrifin voru þó talsvert minni en í febrúar sem bendir til þess að útsölur hafi verið fyrr á ferð en stundum áður. Athygli vekur að bílar lækkuðu í verði um 0,9% (-0,06% áhrif á VNV). Spurn eftir nýjum bílum hefur minnkað mikið það sem af er ári í samanburði við sama tíma í fyrra sem kann að hafa áhrif.

Undirliggjandi verðbólga

Flestir mælikvarðar á undirliggjandi 12 mánaða verðbólgu hækkuðu líkt og verðbólgumælingin sjálf. Undantekning er þó Kjarnavísitala 4, þar sem reiknuð húsaleiga er undanskilin og segja má að sé þrengsti mælikvarði Hagstofu á undirliggjandi verðbólgu. Á þann kvarða hjaðnaði undirliggjandi verðbólga og mælist nú 4,5%. Hefur undirliggjandi verðbólga miðað við þá vísitölu ekki mælst minni frá júní 2022.

Horfurnar næstu misseri

Verðbólgutölur síðustu mánaða hafa verið nokkuð óvæntar en vikmörk marsmánaðar frá spám eru þau minnstu það sem af er ári. Verðbólgan hjaðnaði mun hraðar í janúar og hægar í febrúar en spár gerðu ráð fyrir. Að okkar mati er útlit fyrir allhraða hjöðnun verðbólgu næstu mánuði. Uppfærð bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir 0,6% hækkun VNV í apríl, 0,3% í maí og 0,5% í júní. Gangi sú spá eftir mun ársverðbólga mælast 5,6% í júní.

Í langtímaspá okkar gerum við ráð fyrir því að verðbólga verði að jafnaði 5,6% á þessu ári, 3,3% árið 2025 og 3,1% 2026.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband