Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga enn við markmið

Verðbólga mælist enn við markmið Seðlabankans. Matar- og drykkjarvörur vó helst til hækkunar í mánuðinum og enn virðist seigla vera í íbúðamarkaði þessa dagana. Verðbólguhorfur næsta kastið eru nokkuð góðar og gerum við ráð fyrir að verðbólga haldist við markmið á þessu ári.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,44% í júní skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. 12 mánaða verðbólga mælist nú 2,6% eins og í maímánuði og er því enn rétt yfir markmiði Seðlabankans sem er 2,5%. Verðbólga miðað við  VNV án húsnæðis mælist 2,7% undanfarna 12 mánuði. Samkvæmt Hagstofunni gekk mæling og útreikningur vísitölu neysluverðs eðlilega fyrir sig að undanskildu því sem tengist samgöngum til og frá landinu.

Mæling júnímánaðar er yfir öllum birtum spám en við spáðum 0,3% hækkun milli mánaða. Það helsta sem skilur á milli okkar spá og mælingar Hagstofu er matvöruliðurinn sem hækkaði meira en við væntum, ferðir og flutningar sem hækkuðu minna og húsnæðisliðurinn sem hækkaði á milli mánaða en við gerðum ráð fyrir lækkun í þeim lið.

Matvörur og eldsneyti hækka í verði á milli mánaða

Það sem vó helst til hækkunar á milli mánaða er verð á matar- og drykkjarvörum. Liðurinn hækkaði um 1% (0,15% í VNV) sem má rekja til veikingar krónunnar undanfarna mánuði ásamt verðhækkun á mjólkurvörum. Liðurinn hefur nú hækkað um 5,4% á þessu ári. Einnig hækkaði eldsneyti í mánuðinum í fyrsta skipti frá því í byrjun árs, en frá febrúar til maí lækkaði eldsneyti um tæp 13%. Liðurinn hækkaði um 0,8% (0,03% í VNV).

Aðrir helstu liðir sem hækkuðu í mánuðinum eru tómstundir og menning (0,06% í VNV) og hótel og veitingastaðir (0,05% í VNV).

Ekki voru margir liðir sem vógu gegn hækkunum að þessu sinni. Þar ber helst að nefna flutninga í lofti sem lækkuðu um 1,4% (-0,02% í VNV) en þar vega þyngst flugfargjöld innanlands sem lækkuðu um 8% á milli mánaða.

Seigla á íbúðamarkaði

Húsnæðisliðurinn togaði vísitölu neysluverðs upp í mælingu júnímánaðar. Það sem vó helst til hækkunar í liðnum er reiknaða húsaleigan, sem endurspeglar húsnæðisverð að mestu, en hún hækkaði um 0,4% (0,06% áhrif í VNV). Viðhald og viðgerðir á húsnæði hækkaði einungis um 0,15% (0,01% í VNV), en við gerðum fyrir talsvert meiri hækkun í þeim lið vegna hækkunar á byggingarvísitölunni í mánuðinum, en það virðist ekki hafa haft áhrif í mælingu Hagstofunnar.

Meiri seigla virðist vera í íbúðamarkaði þessa dagana en margir höfðu vænst í kjölfar COVID-19. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði um 0,9% í júnímælingu Hagstofunnar frá mánuðinum á undan, en júnímælingin byggir á kaupsamningum sem þinglýst var í mars, apríl og maí. Sé horft til 12 mánaða hækkunartakts íbúðaverðs á þennan kvarða nemur hann 6,7% á landinu öllu í júní. Svo hröð hefur hækkun íbúðaverðs ekki verið frá árslokum 2018. Langmest hefur íbúðarhúsnæði hækkað á landsbyggðinni (12,6%) en á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölbýli hækkað um 5,6% og sérbýli um 3,1%. Enn hækkar því íbúðarhúsnæði að raunvirði á mælikvarða Hagstofunnar og teljum við líklegt að hagstæð lánsfjármögnun og tiltölulega sterk fjárhagsstaða flestra heimila fyrir COVID-skellinn skýri þessa þróun að miklu leyti.

Horfur fyrir næstu mánuði

Verðbólguhorfur næstu mánaða eru nokkuð góðar, við spáum 0,2% lækkun VNV í júlí, 0,2% hækkun í ágúst og 0,2% hækkun í september. Gangi spáin eftir mun verðbólga mælast 2,6% í september 2020. Við gerum ráð fyrir að áhrif veikingar krónunnar að sökum COVID-19 séu að fullu komin fram í verðmælingum Hagstofunnar og að verðbólga haldist hófleg á spátímanum. Við spáum því að verðbólga verði við markmið á þessu ári og mælist svo að meðaltali 2,1% árið 2021 og 2,4% árið 2022.

Enn er talsverð óvissa þessa stundina varðandi þau áhrif sem COVID-19 mun hafa á efnahagshorfur næstu misserin. Hingað til hefur verðbólga haldist hófleg á óvissutímunum þrátt fyrir talsverða veikingu krónunnar á tímum COVID. Helsta forsenda fyrir spá okkar er að krónan haldist nokkuð stöðug í grennd við núverandi gengi. Hins vegar gæti þróun íbúðaverðs orðið til þess að halda meira aftur af verðbólgu þegar lengra líður á þetta ár en við gerum ráð fyrir.

Höfundar


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband