Verðbólga ekki verið lægri í um tvö og hálft ár

Verðbólga hjaðnaði á ný í júní og er loks komin undir 6,0% í fyrsta sinn frá janúar 2022. Útlit er fyrir nokkuð tregbreytanlega verðbólgu allra næstu mánuði en tölur dagsins eru þróun í rétta átt og við teljum að verðbólga verði komin niður í 5,2% í árslok. Reiknuð húsaleiga vegur eftir sem áður þyngst til hækkunar en þó minna en við höfðum spáð.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,48% í júní samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hjaðnar í 5,8% en hún var 6,2% í maí síðastliðnum. Síðast mældist verðbólga undir 6% í janúar 2022. Árstaktur vísitölu neysluverðs án húsnæðis mælist 4,0%. Mæling júnímánaðar er örlítið undir okkar spá en við spáðum því að VNV myndi hækka um 0,6%

Húsnæðisliður vegur eftir sem áður þyngst og flugfargjöld hækka

Reiknaða húsaleigan hækkaði um 0,77% (0,15% áhrif á VNV) en við höfðum spáð 1,1% hækkun (0,21% áhrif á VNV). Ánægjulegt er að sjá hve meinlaus ný aðferð við útreikning á kostnaði við búsetu í eigin húsnæði virðist vera fyrst um sinn, sér í lagi m.v. fréttir síðustu viku.

Að reiknaðri húsaleigu undanskilinni voru það flugfargjöld sem höfðu mest áhrif til hækkunar í mánuðinum. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 8,0% (0,15% áhrif á VNV) en það er nokkru meira en við höfðum spáð. Þar sem flugfargjöld lækkuðu ekki mikið í maí eins og venjan er eftir páska var útlit fyrir minni hækkun í júní en ella en sú varð ekki raunin.

Aðrir liðir sem vega til hækkunar

Hótel og veitingastaðir hækka um 2,09% (0,11% áhrif á VNV). Þessi hækkun er tæplega helmingi meiri en sú sem við höfðum spáð en mestu áhrifin útskýrir hækkun á gistingu um 17% (0,09% áhrif á VNV). Slíkar hækkanir fylgja jafnan háannatíma í ferðaþjónustu sem stendur nú yfir.

Matur og drykkur hækkar um 0,44% (0,07% áhrif á VNV) í mánuðinum sem er örlítið meira en við höfðum spáð og er nánast spegilmynd hækkunar maímánaðar. Þær hækkanir hafa því teygt sig yfir í júní. Þar að auki hækka tryggingar um 3% ( 0,07% áhrif á VNV).

Eldsneyti lækkar og fyrstu áhrif sumarútsala gera vart við sig

Liðurinn bensín og olíur lækkar um lækkar um 0,87% (-0,03% áhrif á VNV) sem gerir örlítið meiri lækkun en við höfðum spáð. Bílar lækka einnig um 0,45% (-0,03% áhrif á VNV) en samdráttur hefur verið í bílasölu á fyrri helmingi þessa árs miðað við sama tíma í fyrra.

Fyrstu áhrif sumarútsala virðast hafa gert vart við sig í mánuðinum en liðurinn Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. lækkaði um 0,72% (-0,04% áhrif á VNV) og föt og skór lækkuðu um 0,88% (-0,03%) áhrif á VNV). Þá lækkuðu raftæki einnig um 2,6% (-0,04% áhrif á VNV). Bendir þetta til þess að sumarútsölur hefjist fyrr þetta árið sem gæti gert það að verkum að áhrif útsöluloka komi mögulega fram fyrr.

Horfurnar næsta kastið

Bráðabirgðaspá okkar færist örlítið niður fyrir næstu misseri en ánægjulegt er að sjá að reiknuð húsaleiga hafi ekki hækkað meira en raun ber vitni. Við teljum að verðbólgan verði tregbreytanleg næstu mánuði og verði í 6,0% gildinu.

  • Júlí - 0,2% hækkun VNV (ársverðbólga 6,0%)
  • Ágúst - 0,4% hækkun VNV (ársverðbólga 6,0%)
  • September - 0,3% hækkun VNV (ársverðbólga 6,0%)

Óvissuþættirnir eru auðvitað margir en verðbólgan næstu mánuði mun einna helst velta á áhrifum nýrrar aðferðafræði við útreikning á reiknaðri húsaleigu, hvernig rætist úr restinni af sumrinu í ferðaþjónustu og hvernig kjarasamningar fyrir þann hluta vinnumarkaðar sem á enn eftir að skrifa undir þróast. Til þess að spá okkar gangi eftir þarf launaskrið að vera takmarkað og gengi krónu stöðugt. Ófriðaröldur á heimsvísu eru einnig stór óvissuþáttur, stigmögnun á þeim vettvangi gæti haft veruleg neikvæð áhrif á milliríkjaviðskipti, verðlag og hagþróun hér sem erlendis.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband