Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga ekki minni í rúmt ár

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,36% í október skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 2,8% en var 3,0% í september.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,36% í október skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 2,8% en var 3,0% í september. Verðbólga hefur ekki mælst minni síðan í september í fyrra. Miðað við VNV án húsnæðis mælist 2,6% verðbólga undanfarna 12 mánuði.

Mæling októbermánaðar er í samræmi við okkar spá. Við spáðum 0,3% hækkun VNV milli mánaða. Flestir undirliðir þróuðust í takt við spá okkar og fátt sem kemur okkur verulega á óvart. Mælingin sýnir þó ölllu meiri hækkun í reiknuðu húsaleigunni á móti nokkru minni hækkun á flugfargjöldum en við gerðum ráð fyrir.

Enn líf á íbúðamarkaði

Það sem vó þyngst til hækkunar í mælingu októbermánaðar var húsnæðisliðurinn. Reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar húsnæðisverð að mestu, hækkaði um 1,05% milli mánaða (0,17% í VNV). Í tilkynningu frá Hagstofunni kemur fram að Hagstofan hafi endurskoðað vogir fyrir meðalvexti sem notaðar eru við útreikning á reiknaðari húsaleigu. Endurskoðunin sem slík hefur ekki áhrif til verðbreytinga heldur er vogum haldið föstum í verðsamanburði milli mánaða. Hins vegar munu núverandi vogir endurspegla betur raunverulega samsetningu á fjármögnun íbúðarhúsnæðis.

Ef marka má mælingu Hagstofunnar á markaðsverði íbúðarhúsnæðis virðist því vera allnokkurt líf í íbúðamarkaði um þessar mundir. Mæling októbermánaðar sýndi 1,4% hækkun frá fyrri mánuði og hefur mánaðarhækkunin ekki verið meiri í eitt og hálft ár. Mest var hækkunin á landsbyggðinni, 3,3%, en fjölbýli á höfuðborgarsvæði hækkuðu um 1,0% og sérbýli um 0,5% í verði. Hafa ber í huga að mæling Hagstofu byggir á 3ja mánaða hlaupandi meðaltali og októbermælingin endurspeglar því kaupsamninga sem gerðir voru á tímabilinu júlí-september.

Árshækkun íbúðaverðs mælist nú 4,2% en var 3,3% í síðasta mánuði. Hefur hækkunartakturinn ekki verið hærri síðan í júní. Heldur bætir því einnig í takt raunverðshækkunar, en miðað við síðustu tölur hefur raunverð íbúðarhúsnæðis hækkað um 1,4% undanfarna 12 mánuði.

Margt smátt gerir eitt stórt

Að húsnæði frátöldu vó liðurinn ferðir og flutningar þyngst í mælingu októbermánaðar. Í heild hækkaði liðurinn um 0,59% milli mánaða (0,09% í VNV). Verð á bílum hækkaði um 0,83% (0,04% í VNV), flugfargjöld hækkuðu um 1,7% (0,03% í VNV) og eldsneyti hækkaði í verði um 0,47% (0,02% í VNV).

Fyrir aðra liði má segja að margt smátt gerir eitt stórt í mælingu októbermánaðar. Þeir liðir sem hækkuðu milli mánaða eru tómstundir og menning (0,08% í VNV) og matar og drykkjarvörur (0,02%). Hins vegar lækkaði húsgögn og heimilisbúnaður milli mánaða (-0,04% í VNV) svo og verð á hótelum og veitingastöðum (-0,02% í VNV).

Ágætar verðbólguhorfur

Verðbólguhorfur eru ágætar næsta kastið og er útlit fyrir að verðbólga verði komin niður fyrir 2,5% markmið Seðlabankans fyrir áramót. Við spáum 0,1% hækkun í nóvember, 0,5% hækkun í desember og 0,5% lækkun VNV í janúar.  Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,3% í janúar.

Í kjölfarið teljum við að verðbólga verði að jafnaði 2,4% árið 2020 og 2,7% árið 2021. Gangi spá okkar eftir mun það gera Seðlabankanum auðveldara að mýkja hagsveifluna með viðeigandi vaxtabreytingum. Stærstu óvissuþættir í spá okkar er hugsanleg veiking krónu og launakröfur í kjarasamningum sem enn á eftir að ljúka. Á móti gæti þróun íbúðaverðs leitt til minni verðbólgu en hér er spáð.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband