Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga ekki mælst minni í tvö ár

Verðbólga hefur hjaðnað hraðar á seinni helmingi ársins en margir væntu. Verðbólga er nú á ný undir 2,5% markmiði Seðlabankans og eru verðbólguhorfur fyrir komandi mánuði allgóðar.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,11% í desember skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 2,0% en var 2,7% í nóvember. Verðbólga hefur ekki mælst minni í tvö ár eða frá því í desember 2017 og er loks komin aftur undir verðbólgumarkmið Seðlabankans eftir eitt og hálft ár yfir markmiði. Hækkun VNV án húsnæðis mælist 1,7% undanfarna 12 mánuði og hefur ekki mælst minni frá því í ágúst 2018.

Mæling desembermánaðar er talsvert undir birtum spám. Við spáðum 0,5% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,4% - 0,5% hækkun milli mánaða. Helstu undirliðir sem koma okkur á óvart er húsnæðisliðurinn sem lækkar á milli mánaða, einnig lækka mat- og drykkjarvörur og flugfargjöld hækka talsvert minna en spá okkar gerði ráð fyrir.

Viðsnúningur á íbúðamarkaði í árslok?

 Óvænt lækkun húsnæðisliðar vó þungt í því hversu mikill munur var á verðbólguspám og mælingu Hagstofunnar í desember. Liðurinn í heild vó til 0,09% lækkunar VNV að þessu sinni og er það í fyrsta sinn frá maí 2018 sem það gerist. Reiknuð húsaleiga lækkaði um 0,49% (-0,08% í VNV) og greidd húsaleiga um 0,30% (-0,01% í VNV).

Lækkandi vextir á íbúðalánum undanfarin misseri koma af nokkrum krafti inn í mælingu reiknaðrar húsaleigu nú um stundir, en sú mæling samanstendur í raun af tveimur þáttum:

  • breytingum á íbúðaverði næstu þrjá mánuði á undan mælingarmánuði
  • 12 mánaða hlaupandi meðaltali vaxta á íbúðalánum

Markaðsverð íbúðarhúsnæðis, eins og það er mælt í VNV, lækkaði um 0,24% í desember frá mánuðinum á undan. Þar réði mestu 0,5% lækkun á verði fjölbýla á höfuðborgarsvæði, en verð sérbýla á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,4% milli mánaða og íbúðaverð á landsbyggðinni var óbreytt.

Undanfarna 12 mánuði hefur markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkað um 4,3% miðað við mælingu Hagstofunnar. Minnst hefur hækkunin verið á sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu (2,9%) en mest á íbúðarhúsnæði utan höfuðborgarsvæðis (8,5%). Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur svo hækkað um 3,3%. Þessi hækkunartaktur hefur verið svipaður undanfarin misseri eftir tímabil hraðrar hækkunar frá miðju ári 2016 fram á mitt ár 2018. Er þessi þróun að mati okkar til marks um betra jafnvægi á íbúðamarkaði um þessar mundir. Hins vegar verður forvitnilegt að fylgjast með því hvort mælingar næstu mánaða sýna einhverja breytingu frá þessu jafnvægi.

Flugfargjöld hækka hóflega í desember

Það helsta í mánuðinum sem vó til hækkunar eru flugfargjöld. Flutningar í lofti hækkuðu í verði um 8,63% (0,13% í VNV). Þessi hækkun kom okkur á óvart enda er hún töluvert minni en venjulega í desember, en undanfarin fimm ár hafa flugfargjöld hækkað að meðaltali um 17% í desember.

Aðrir liðir sem hækkuðu milli mánaða voru húsgögn og heimilisbúnaður (0,05% í VNV), fatnaður og skór (0,03% í VNV) og aðrar vörur og þjónusta (0,04% í VNV).

Að húsnæðisliðnum frátöldum vó liðurinn matur- og drykkjarvörur þyngst til lækkunar í mælingu desembermánaðar. Liðurinn lækkaði um 0,47% (-0,06% í VNV). Af undirliðum var það kjöt lækkaði mest milli mánaða eða um 1,58%. Þetta verður að teljast frekar óvenjulegt í kringum jólin enda hækka matvörur oftar en ekki nokkuð á aðventunni. Jólasteikin gæti því orðið á fremur hagstæðu verði fyrir marga þetta árið.

Jólastemmning á skuldabréfamarkaði

Verðbólgutölurnar virðast hafa komið skuldabréfamarkaði í sannkallað jólaskap. Það sem af er degi hefur ávöxtunarkrafa á lengri flokkum óverðtryggðra ríkisbréfa lækkað um 10 – 18 punkta (hundraðshluta úr prósentu). Krafan er núna á bilinu 3,23 – 3,52% og hefur í sumum tilfellum ekki verið lægri frá því snemma í nóvembermánuði. Lítil breyting hefur hins vegar orðið á kröfu lengri verðtryggðra ríkisbréfa í dag og endurspeglar því framangreind hreyfing að okkar mati nær alfarið lækkun verðbólguálags en ekki raunvaxtastigs á markaði.

Verðbólga helst undir markmiði

Verðbólguhorfur eru allgóðar næsta kastið og útlit fyrir að verðbólga verði undir markmiði Seðlabankans næstu mánuði. Við spáum 0,3% lækkun í janúar, 0,5% hækkun í febrúar og 0,5% hækkun VNV í mars. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,4% í mars 2019.

 Í kjölfarið teljum við að verðbólga verði við markmið Seðlabankans árið 2020, eða að jafnaði 2,5% og 2,8% árið 2021. Stærstu óvissuþættir í spá okkar er hugsanleg veiking krónu og launakröfur í kjarasamningum sem enn á eftir að ljúka. Á móti gæti þróun íbúðaverðs leitt til minni verðbólgu en hér er spáð.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband