Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga 6,2% og hefur ekki verið meiri í tæpan áratug

Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,16% í febrúar. Verðbólga er nú 6,2% og hefur ekki verið meiri í tæpan áratug. Útlit er fyrir að ekki fari að draga að ráði úr verðbólgu fyrr en á næsta ári.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 1,16% í febrúar skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 6,2% en var 5,7% í janúar. Verðbólga hefur ekki verið meiri í tæpan áratug, eða frá aprílmánuði 2012. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 1,26% í febrúar og m.v. þá vísitölu mælist 4,2% verðbólga undanfarna 12 mánuði. Það dregur því heldur saman með árstaktinum í mælikvörðunum tveimur og síðarnefnda mælingin sýnir auk heldur að verðbólguþrýstingur er fremur almennur um þessar mundir.

Mæling febrúarmánaðar er í efri kantinum á birtum spám.  Við spáðum 0,9% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,8% – 1,2% hækkun milli mánaða. Munurinn á spá okkar og mælingu Hagstofunnar liggur m.a. í mun meiri verðhækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði en við væntum sem og meiri hækkun á tómstunda- og menningarliðnum. Þá hækkuðu liðir á borð við húsnæði, heilsu og hótel og veitingastaði heldur meira en við væntum en á móti lækkuðu flugfargjöld allnokkuð.

Ekkert lát á verðhækkun íbúða

Eins og fyrri daginn vó hækkun húsnæðisliðar þungt í heildarhækkun VNV í febrúar. Ólíkt því sem verið hefur undanfarið skar liðurinn sig þó ekki úr í þetta skiptið og var hækkun hans undirmeðalhækkun í mælingu Hagstofunnar. Í heild hækkaði liðurinn um 0,8% (0,27% áhrif í VNV). Þar var þyngst á metunum 1,2% hækkun reiknaðrar húsaleigu, en hún endurspeglar að stærstum hluta þróun íbúðaverðs.

Raunar er óvenju mikill munur á mánaðarbreytingu markaðsverðs íbúðarhúsnæðis og reiknuðu húsaleigunni í þetta skiptið. Skýrist hann af því að vaxtaþáttur reiknuðu  húsaleigunnar, sem byggður er á vaxtaþróun verðtryggðra íbúðalána, virðist hafa vegið nokkuð til lækkunar ólíkt síðustu mánuðum.  Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði um 1,5% milli mánaða samkvæmt gögnum Hagstofu. Mánaðarhækkunin var mest á fjölbýlum á höfuðborgarsvæðinu (1,7%) en minnst á landsbyggðinni (1,3%). Sérbýli á höfuðborgarsvæði hækkuðu um 1,4% milli mánaða.

Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 17,9%. Hefur hækkunin á þennan kvarða ekki verið hraðari síðan á lokafjórðungi ársins 2017. Mest hefur verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu (20,0%) hækkað á þennan mælikvarða. Verð á íbúðum í fjölbýli á höfuðborgarsvæði hefur hækkað um 18,6% á sama tíma og íbúðaverð á landsbyggðinni um 15%. Ekkert lát er því að verðþrýstingi á íbúðamarkaði miðað við þessar tölur, en halda ber til haga að þær eru birtar með mánaðartöf.

Sá undirliður VNV sem kom okkur hins vegar mest á óvart var húsgögn og heimilisbúnaður. Hann hækkaði um 7,5% milli mánaða (0,47% í VNV) en við höfðum búist við ríflega 3% hækkun vegna útsöluloka. Liðurinn hækkar jafnan nokkuð í febrúarmánuði þegar síga fer á seinni hluta útsölutímabilsins eftir jól. Hækkunin nú er hins vegar sú mesta í fimm ár. Erfitt er að festa fingur á hvort þessi mikla hækkun er fyrst og fremst vegna þess að útsölunum hafi lokið fyrr en venjulega eða hvort nýtt vöruframboð er á mun hærra verði en eldri lager verslana var fyrir útsölurnar. Þó lítur út fyrir að seinni skýringin sé a.m.k. talsverður hluti af þessari miklu hækkun nú þar sem vörur í þessum lið höfðu aðeins lækkað í verði um u.þ.b. 4% mánuðina á undan.

Allt önnur þróun varð í hinum stóra liðnum þar sem útsölur hafa hvað mest áhrif. Föt og skór hækkuðu aðeins í verði um 2,0% (0,07% í VNV) milli mánaða eftir nærri 8% lækkun í janúar. Líklegt er að meginþungi útsölulokanna í þessum lið komi í marsmælingu Hagstofunnar þetta árið.

Af öðrum liðum sem höfðu áhrif til hækkunar VNV í febrúar má m.a. nefna:

  • Tómstundir og menning hækkuðu í verði um 1,2% (0,12% í VNV)
  • Matur og drykkur hækkaði í verði um 0,8% (0,11% í VNV).
  • Eldsneytisverð hækkaði um 3,6% (0,11% í VNV).
  • Hótel og veitingastaðir hækkuðu verð sín um 0,9% (0,04% í VNV)
  • Aðrar vörur og þjónusta hækkaði um 0,6% (0,04% í VNV)
  • Heilsuliðurinn hækkaði um 0,7% (0,03% í VNV)

Á móti lækkaði verð á tveimur undirliðum nokkuð:

  • Flugfargjöld lækkuðu um 8,3% milli mánaða (-0,13% í VNV)
  • Símaþjónusta lækkaði í verði um 2,8% (-0,03% í VNV)

Umtalsverð verðbólga áfram í kortunum

Verðbólguþrýstingur er fremur almennur um þessar mundir þótt húsnæðisliður og innfluttar vörur séu þessa dagana helstu hækkunarvaldar í vísitölu neysluverðs og verði það væntanlega áfram næsta kastið. Horfur eru á að verðbólga verði áfram mikil og að ekki fari að draga úr henni að ráði fyrr en á næsta ári. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,5% hækkun VNV í mars og 0,4% hækkun bæði í apríl og maí. Gangi sú spá eftir mælist verðbólga 5,9% í maí.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband