Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Vaxtahækkun vegna vaxandi verðbólgu og batnandi efnahags

Stýrivextir Seðlabankans verða 1,0% á ný eftir vaxtahækkun sem bankinn tilkynnti um í morgun. Lakari verðbólguhorfur til skemmri tíma litið og bjartari efnahagshorfur en áður réðu baggamuninn um hækkunina líkt og við væntum. Seðlabankinn spáir nú meiri hagvexti en áður þótt atvinnuleysi verði að mati hans þrálátt og verðbólga talsverð til skemmri tíma litið.


Stýrivextir Seðlabankans verða aftur 1,0% líkt og þeir voru frá maí til nóvember í fyrra. Seðlabankinn tilkynnti í morgun að peningastefnunefnd bankans hefði ákveðið að hækka stýrivextina um 0,25 prósentur. Ákvörðunin var í samræmi við spá okkar en skoðanir höfðu verið skiptar í aðdraganda ákvörðunarinnar enda hafa aðstæður í efnahagslífinu breyst hratt undanfarið.

Að mati nefndarinnar var efnahagsbati kröftugri á seinni hluta síðasta árs en áður var talið  og horfur um efnahagsbata á komandi misserum hefðu batnað samkvæmt nýrri þjóðhagsspá sem birt var í Peningamálum Seðlabankans í morgun. Atvinnuleysi væri tekið að hjaðna þótt það væri enn mikið. Slakinn í þjóðarbúskapnum virtist minni en áður og útlit væri fyrir að hann hyrfi fyrr en áður var talið.

Þá hefur verðbólga að mati nefndarinnar reynst meiri og þrálátari en áður var spáð, verðbólguþrýstingur virðist almennur og undirliggjandi verðbólga er svipuð og mæld verðbólga miðað við vísitölu neysluverðs. Því er að mati nefndarinnar nauðsynlegt að hækka vexti bankans til að tryggja kjölfestu verðbólguvæntinga í 2,5% verðbólgumarkmiði bankans.

Framsýna leiðsögn nefndarinnar er stutt og laggóð að þessu sinni og hljóðar svo:

Peningastefnunefnd mun beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma.

Þótt fáorð sé fer ekki á milli mála að okkar mati að þessi yfirlýsing felur í sér líkur á frekari hækkun vaxta ef bið verður á því að verðbólga hjaðni á allra næstu mánuðum.

Litlar áhyggjur af íbúðamarkaði á kynningarfundi

Á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina kom fram að þrátt fyrir snarpa hækkun íbúðaverðs síðustu mánuði hefðu nefndarmenn ekki miklar áhyggjur af íbúðamarkaði enn sem komið er. Verðþróun á markaði væri studd undirliggjandi þáttum. Þá gæti eftirspurnarspenna á íbúðamarkaði reynst tímabundin og var bent á að fyrir fjórum árum síðan hefði dregið hratt úr hækkunartakti íbúðaverðs eftir hraða tímabundna hækkun.

Þetta áhyggjuleysi Seðlabankafólks kom okkur nokkuð á óvart. Í apríl skýrði húsnæðisliðurinn um 20% af ársverðbólgunni og gerum við ráð fyrir að hækkandi húsnæðisverð muni setja svip sinn á þróun vísítölu neysluverðs næstu mánuði. Talsverður hiti virðist vera á íbúðamarkaði um þessar mundir en samkvæmt nýlegum tölum Þjóðskrár var árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu 13,7% og hefur ekki verið meiri frá því í lok árs 2017 þegar eftirspurnarspenna einkenndi markaðinn og íbúðaverðshækkanir fóru fram úr öllu hófi.

Þá bentu Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig  Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri á að sértækar aðgerðir til þess að þrengja að lánveitingum fasteignalána væru ekki á forræði peningastefnunefndar og auk heldur væri hlutverk þeirra fremur að varðveita fjármálastöðugleika en að slá á verðbólguþrýsting. Væntingar höfðu verið um að samhliða vaxtaákvörðuninni yrði tilkynnt um lækkun á hámarkshlutfalli lána af kaupverði fasteigna eða aðrar skorður á slíkar lánveitingar en minni líkur virðast vera á slíkum aðgerðum í bráð ef marka má framangreind orð stjórnenda bankans.

Þau Ásgeir og Rannveig kváðust aðspurð ekki hafa áhyggjur af því að ríða á vaðið meðal seðlabanka heims um vaxtahækkanir eftir COVID-19. Hér á landi hefði gengið vel að draga úr áhrifum faraldursins á hagkerfið og svigrúm Seðlabankans til vaxtabreytinga hefði verið mun meira en víðast hvar annars staðar. Þrátt fyrir vaxtahækkun nú væru stýrivextir enn mjög lágir og raunstýrivextir verulega neikvæðir. Viðsnúningurinn í hagkerfinu væri hafinn og verkefni stjórnvalda væri að draga úr stuðningi hagstjórnarinnar við fyrirtæki og heimili hæfilega hratt til þess að efnahagsbatinn skyti rótum án þess að hagkerfið ofhitnaði í kjölfarið.

Bjartari tónn sleginn í hagspá bankans

Í nýrri hagspá Seðlabankans sem birt var í Peningamálum í morgun kveður við heldur bjartari tón en í síðustu spá bankans. Spáð er 3,1% hagvexti í ár og 5,2% hagvexti á næsta ári. Bjartari hagvaxtarhorfur skýrast að mati bankans ekki síst af hraðari vexti einkaneyslu og útflutnings í ár og á næsta ári. Á móti vegur að bankinn spáir nú heldur hægari vexti fjárfestingar á komandi misserum og heldur meiri vexti innflutnings í ár. Athygli vekur að bankinn spáir hraðari vexti útflutnings í ár þrátt fyrir að hann vænti heldur hægari fjölgunar ferðamanna milli ára en í síðustu spá sinni. Þar vegur meiri vöxtur annars útflutnings á móti, til að mynda sjávarafurða, afurða orkufreks iðnaðar o.þ.h.

Þá spáir Seðlabankinn nú heldur minna atvinnuleysi en í síðustu spá. Eftir sem áður gerir spá hans þó ráð fyrir býsna þrálátu atvinnuleysi, en hún hljóðar upp á 9,1% skráð atvinnuleysi að jafnaði í ár en 6,1% atvinnuleysi þegar komið er fram á árið 2023. Aðspurð um samspil þessa þráláta atvinnuleysis við hraða hækkun kaupmáttar launa og myndarlegan einkaneysluvöxt benti aðalhagfræðingur bankans, Þórarinn G. Pétursson á að líklega væri jafnvægisatvinnuleysi orðið hærra en það var fyrir Kórónukreppuna og einnig væru vísbendingar um misvægi í framboði og eftirspurn á vinnumarkaði hvað menntun og sérhæfingu varðaði. Seðlabankastjóri benti auk þess á að hraðari hækkun launa hérlendis en þekktist annars staðar gæti ekki gengið upp til lengri tíma litið. Varaseðlabankastjóri bætti því við að hraðari hækkun launa en samrýmdist verðbólgumarkmiðinu myndi á endanum leiða til hærri vaxta.

Verðbólguspá bankans er hins vegar talsvert svartsýnni nú en hún var í ársbyrjun. Spáir Seðlabankinn nú 4,1% verðbólgu að jafnaði í ár samanborið við 3,1% í síðustu spá. Sem fyrr telur þó bankinn að verðbólga muni verða nærri 2,5% verðbólgumarkmiðinu á seinni hluta spátímans. Spá bankans er í takti við nýbirta verðbólguspá okkar þar sem gert er ráð fyrir að verðbólga hjaðni úr 4,1% í ár niður í 2,6% á næsta ári.

Hlé á hækkunarferli fram í vetrarbyrjun?

Horfur um vaxtaþróun á komandi fjórðungum komu fram í stýrivaxtaspá okkar í síðustu viku og teljum við þær óbreyttar eftir tíðindi dagsins. Við búumst við óbreyttum vöxtum fram á lokafjórðung ársins en að í kjölfarið komi fremur hægfara vaxtahækkunarferli þar sem vextir hækki um 0,25 prósentur í hverjum ársfjórðungi. Gangi spáin eftir verða stýrivextir 2,25% í árslok 2022. Vitaskuld eykst þó óvissa um þennan feril jafnt og þétt eftir því sem lengra er skyggnst fram á veg og mun samspil hjaðnandi verðbólgu og minnkandi efnahagsslaka ráða taktinum.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband