Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Varnarsigur á veirutímum?

Erlendir ferðamenn voru ríflega 75 þúsund í nóvember sem er svipaður fjöldi og fyrir sex árum síðan en tuttuguföldun miðað við síðasta ár. Sem fyrr eru Bandaríkjamenn fjölmennastir en Bretar og fólk frá vesturhluta meginlands Evrópu sækir í sig veðrið. Ferðafólk hingað til lands verður líklega nærri 700 þúsundum í ár og von er á myndalegri fjölgun á næstu árum.


Samkvæmt nýlega birtum tölum Ferðamálastofu og Isavia um brottfarir erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll héldu 75.460 erlendir ferðamenn af landi brott um flugvöllinn í nóvember sl. Færri hafa brottfarirnar ekki verið frá júní en að sama skapi er um tuttuguföldun að ræða á milli ára enda var erlent ferðafólk sjaldséðir hvítir hrafnar hér fyrir ári síðan. Halda ber til haga að fyrir faraldur var ávallt talsverð fækkun milli mánaða í nóvember. Sé síðasta ár undanskilið hafa farþegar í nóvember ekki verið færri síðan árið 2015 og raunar er það ár líka nærtækast til samanburðar fyrir undanfarna mánuði.

Bandaríkjamenn fjölmennastir en Bretar sækja á

Nokkur breyting hefur orðið á samsetningu ferðafólks eftir heimalandi. Sem fyrr voru Bandaríkjamenn fjölmennastir. Ríflega 14 þúsund manns voru með bandarískt ríkisfang sem samsvarar 19% af heildarfjöldanum. Það er hins vegar mun lægra hlutfall en mánuðina á undan og á móti hækkar hlutfall Breta (15%) umtalsvert. Var þarlent ferðafólk ríflega 11 þúsund talsins en Bretar hafa gjarnan verið hlutfallslega fjölmennir hér á landi yfir vetrarmánuðina. Einnig voru Þjóðverjar(tæplega 8 þúsund), Frakkar (ríflega 7 þúsund), Pólverjar (ríflega 5 þúsund) og Norðurlandabúar (ríflega 5 þúsund) fjölmennir í hópi ferðafólks hér á landi í nóvember.

Á fyrstu 11 mánuðum ársins sóttu 623 þúsund ferðamenn landið heim um Keflavíkurflugvöll. Þeir eru því þegar orðnir heldur fleiri í ár en þau 600 þúsund sem við spáðum í september. Fyrr á árinu höfðum við sett fram spá um 700 þúsund heimsóknir erlends ferðafólks þetta árið og virðist sú spá munu verða nær lagi á endanum.

Þótt Bandaríkjamenn hafa aðeins látið undan síga í hlutfalli af heildinni bera þeir þó enn höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir þegar fyrstu 11 mánuðir ársins eru skoðaðir í heild. Var þarlent ferðafólk tæplega 35% af heildarfjölda sem sótti landið heim á tímabilinu og er ljóst að sú ákvörðun að opna landamærin fyrir bólusettu ferðafólki frá Bandaríkjunum og öðrum löndum utan EES-svæðisins á vordögum hefur reynst happadrjúg að þessu leytinu.

Næstir á eftir koma Þjóðverjar (tæplega 10%), Pólverjar (ríflega 7%), Bretar (tæplega 7%), Norðurlandabúar (tæp 6%) og Frakkar (rúm 5%). Pólverjar skera sig væntanlega nokkuð úr meðal þessara landa að því leyti að þarlendir ferðamenn eru gjarnan að heimsækja ættingja og vini hér á landi fremur en treysta á hótel og gististaði um næturgistingu.

Hátt hlutfall Bandaríkjamanna á að mati okkar þátt í því að tekjur af hverjum ferðamanni hafa vaxið frá því fyrir faraldur. Þarlent ferðafólk dvelur lengur hér á landi en fólk af mörgu öðru þjóðerni og virðist einnig fremur vel við sig í gistingu, mat og fleiru. Þá kann ferðahegðun almennt að hafa breyst nokkuð eftir að faraldurinn tók að geisa. Virðast ferðamenn þannig að að jafnaði dvelja lengur hér á landi nú um stundir en fyrir faraldur. Sé til að mynda eingöngu horft til gistinátta á hótelum, þar sem nýjustu bráðabirgðatölur Hagstofu ná fram til nóvembermánaðar, voru slíkar gistinætur 2,6 á hvern ferðamann í október og nóvember. Sambærilegt hlutfall var 2,3 á þessum tíma árið 2019 og 1,8 árið 2018.

Tekjuöflun ferðaþjónustu á uppleið á ný

Við fjölluðum nýverið um þróun þjónustujafnaðar og það lykilhlutverk sem aukinn ferðamannastraumur lék í því að auka afgang af þjónustujöfnuði á fyrstu þremur fjórðungum ársins. Enn vantar tölur desembermánaðar fyrir lokafjórðung ársins en líklegt má telja að fjöldi ferðamanna á tímabilinu verði á bilinu 50 – 70 þúsund í þeim mánuði og þar með eitthvað á þriðja hundrað þúsund á 4F í heild. Gangi það eftir gætu útflutningstekjur tengdar ferðamönnum orðið í námunda við 60 ma.kr. á lokafjórðungi ársins. Að okkar mati má túlka það sem ákveðinn varnarsigur að þrátt fyrir að gengið hafi á ýmsu í framgangi faraldursins og hægar hafi gengið að ráða niðurlögum hans en vonir stóðu til hefur ferðaþjónustan samt komið á ný til skjalanna sem býsna öflugur þáttur í öflun gjaldeyristekna.

Mun meiri tekjuöflun er þó væntanlega í vændum þegar greinin kemst á fullan skrið á nýjan leik. Við áætlum að fjöldi ferðafólks gæti orðið í grennd við 1,3 milljónir á næsta ári og 1,5 milljónir árið 2023. Þótt vissulega sé ekki á vísan að róa varðandi þróun faraldursins og áhrif hans á ferðavilja og -getu á heimsvísu hefur reynsla síðustu missera sýnt okkur að Ísland er ferðafúsu fólki víða um heim ofarlega í huga um leið og færi gefast og engin ástæða til annars en vera bjartsýnn á bata ferðaþjónustunnar á komandi misserum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband