Íslenskir neytendur eru bjartsýnir þegar kemur að efnahags- og atvinnuhorfum ef marka má nýlega Væntingavísitölu Gallup (VVG) fyrir janúarmánuð. Vísitölugildið lækkar lítillega á milli mánaða (úr 122 í tæp 120 stig) en engu að síður er mælingin talsvert yfir 100 stiga jafnvægisgildinu sem endurspeglar bjartsýni á meðal landans. Væntingavísitalan hefur nú verið yfir jafnvægisgildinu frá febrúar í fyrra. Væntingar landans versnuðu um mitt árið 2018 þegar vísitalan mældist undir jafnvægisgildinu í fyrsta sinn í 3 ár. Vísitalan tók svo mikla dýfu í upphafi faraldursins og mældist lægst í 43,8 stigum í ágúst 2020.
Væntingar heimila og fyrirtækja mælast háar
Væntingar bæði heimila og fyrirtækja hafa mælst háar undanfarið sem er vísbending um áframhaldandi vöxt innlendrar eftirspurnar á komandi misserum. Innlend eftirspurn var á blússandi siglingu á nýliðnu ári þrátt fyrir faraldurinn. Það er í raun ótrúlegt hversu vel flest heimili og fyrirtæki komu út úr Kórónukreppunni miðað við horfurnar í upphafi faraldursins.
Greinilegt er að Íslendingar horfa fram á veginn þegar kemur að bjartsýni varðandi efnahagsmál. Væntingar til næstu 6 mánaða mælast háar og standa í 133,5 stigum en hins vegar mælist mat á núverandi ástandi rétt undir jafnvægisgildinu (99,3 stig) í fyrsta sinn síðan í maí 2021. Könnun Gallup var gerð á á tímabilinu 5.-11 janúar en á því tímabili var Omikron bylgjan að rísa og útlit var fyrir hertar samkomutakmarkanir sem síðan varð raunin þann 15. janúar. Margir töldu núverandi ástand verra en mánuðina á undan en bjartari tíma framundan.
Fyrirtæki hafa sömu sögu að segja
Í könnun um stöðu og horfur að mati stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins sem Gallup gerir ársfjórðungslega fyrir Seðlabankann og SA er svipaða sögu að segja. Væntingar stjórnenda fyrirtækja um komandi aðstæður í efnahagslífinu hafa hækkað mikið undanfarna fjórðunga eins og sést á myndinni. Mat á núverandi aðstæðum hefur fylgt í kjölfarið og taldi meirihluti stjórnenda aðstæður góðar í lok síðasta árs þegar könnunin var síðast gerð og það þrátt fyrir vöxt í faraldrinum.
Fyrirtæki búast almennt við aukinni innlendri eftirspurn á næstu 6 mánuðum ef marka má könnunina. Tæplega helmingur stjórnenda telja að innlend eftirspurn muni aukast á næstu 6 mánuðum, álíka margir telja að hún standi í stað og einungis örfáir að hún minnki.
Vöxtur innlendrar eftirspurnar heldur áfram
Aukin bjartsýni bæði almennings og stjórnenda fyrirtækja undanfarið helst í hendur við aukna eftirspurn í hagkerfinu og er því góð vísbending um hátt fjárfestingastig í atvinnulífinu og vaxandi einkaneyslu á komandi fjórðungum.
Innlend eftirspurn sótti heldur betur í sig veðrið á nýliðnu ári bæði hjá heimilum og fyrirtækjum. Til að mynda jókst atvinnuvegafjárfesting um tæpan fjórðung á fyrstu 9 mánuðum síðasta árs eftir ríflega 30% samdrátt þrjú árin þar á undan. Tölur fyrir lokafjórðung ársins birtast um næstu mánaðamót en ætla má að vöxturinn verði í heildina um 20%.
Sömu sögu má segja um heimilin sem sést vel á einkaneyslunni á síðasta ári. Á fyrstu 9 mánuðum ársins óx einkaneyslan um 5,4% og margt bendir til þess að vöxturinn verði svipaður á árinu öllu. Samkvæmt þessu þá gekk samdrátturinn árið 2020 ekki einungis tilbaka heldur er um að ræða talsverðan vöxt frá árinu 2019. Það er í raun ótrúlegt hversu vel flest heimili og fyrirtæki komu út úr kreppunni miðað við horfurnar í upphafi faraldursins.
Væntingavísitalan sem og aðrir hagvísar benda allir til þess að frekari vöxtur einkaneyslu sé í kortunum. Þrátt fyrir allt heldur kaupmáttur launa áfram að vaxa, kortavelta hefur verið í örum vexti ásamt því að atvinnuleysi hefur hjaðnað hratt. Í nýútgefinni þjóðhagsspá Greiningar spáum við að vöxtur einkaneyslu muni koma til með að halda áfram jafnt og þétt á næstu árum. Við spáum ríflega 4% vexti einkaneyslu á þessu ári, 3,5% árið 2023 og rúmlega 3% árið 2024.