Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Útlit fyrir talsverðan samdrátt í fiskútflutningi

Útlit er fyrir talsvert minni tekjur af útflutningi sjávarafurða á næstu misserum en vonir stóðu til. Þorskaflinn næstu árin gæti þó orðið nærri meðalafla síðasta aldarfjórðungs. Minni fiskútflutningur gæti þurrkað út þann viðskiptaafgang sem við spáðum fyrir árið í ár en eftir sem áður eru horfur góðar fyrir komandi ár.


Hafrannsóknastofnun birti nýlega ráðgjöf sína fyrir veiði úr mörgum helstu nytjastofnum á komandi fiskveiðiári. Óhætt er að segja að niðurstaða stofnunarinnar hafi falið í sér nokkur vonbrigði þar sem í heildina er lagt til að dregið verði töluvert úr veiðum. Munar þar langmestu um 13% samdrátt í ráðlögðu aflamarki á þorski á milli ára. Einnig er lagt til að aflamark á karfa verði minnkað um u.þ.b. fimmtung á milli ára og aflamark á löngu minnkað um 17%. Á móti er lögð til aukning um 11% á aflamarki ýsu, 13% aukning á grálúðu og 11% aukning á skarkola. Síðarnefnda ráðgjöfin vegur þó aðeins að litlu leyti upp þá minnkun sem fellst í ráðgjöfinni varðandi þorskinn og karfann.

Stofnunin leggur til að heildarafli þorsks verði tæp 223 þúsund tonn. Er það svipað magn í tonnum talið og veitt var á Íslandsmiðum árin 2013-2015. Hafði þá aflamarkið verið aukið jafnt og þétt árin á undan eftir sögulega lægð í þorsksókn undir lok fyrsta áratugar aldarinnar. Á yfirstandandi fiskveiðiári sem lýkur í ágústlok var aflamark þorsks hins vegar minnkað um 6% frá fiskveiðiárinu á undan.

Útlit fyrir veiði nærri meðaltali síðustu áratuga

Í sögulegu ljósi megum við þó allvel una við þorskveiði komandi fiskveiðiárs ef ráðgjöf Hafró verður fylgt líkt og oftast hefur verið undanfarin ár. Frá lokum seinni heimsstyrjaldar hafa að jafnaði verið veidd ríflega 260 þúsund tonn af þorski á ári hverju af íslenskum fiskiskipum. Undanfarna áratugi hefur meðalaflinn þó verið minni að jafnaði og má sem dæmi nefna að undanfarinn aldarfjórðung hefur meðalafli þorsks verið rétt rúm 220 þúsund tonn samkvæmt tölum Hagstofunnar. Má því segja að meðalár fari í hönd hvað þorskinn varðar á þennan mælikvarða ef ráðgjöf Hafró verður fylgt.

Sú mælistika er þó líklega takmörkuð huggun þeim sjávarútvegsfyrirtækjum sem nú sjá fram á töluvert tekjutap á komandi fjórðungum vegna minna aflamarks. Í þjóðhagslegu samhengi munar einnig talsvert um minni útflutningstekjur ef fram heldur sem horfir. Útflutningur sjávarafurða nam tæplega 270 mö.kr. á síðasta ári og voru ríflega 28% heildarútflutningstekna af þeim toga. Þetta hlutfall var vitaskuld talsvert hærra en árin á undan þar sem útflutningstekjur ferðaþjónustu snarminnkuðu. Sjávarútvegurinn minnti þannig í fyrra rækilega á mikilvægi sitt við öflun gjaldeyristekna fyrir hið smáa og opna íslenska hagkerfi og hversu dýrmætt það er að hafa fleiri stoðir en færri fyrir öflun útflutningstekna.

Þorskur og karfi vega þungt

Ekki liggur fyrir hlutdeild þorsks og karfa í útflutningstekjunum í fyrra en á árinu 2019 var hlutdeild þorsks 45% og karfa ríflega 5%. Þessar tvær tegundir stóðu því undir helmingi allra útflutningstekna af afurðum fiskveiða það ár og munar um minna þegar dregið er úr þeim með afgerandi hætti.

Í þjóðhagsspá okkar í maí, sem birt var áður en ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar kom fram, var því spáð að útflutningur sjávarafurða myndi aukast um ríflega 2% í magni mælt í ár frá fyrra ári og að vöxturinn yrði tæp 2% á næsta ári. Eftir ráðgjöf Hafró lítur út fyrir að þessi spá muni tæpast ganga eftir. Rétt er að halda því til haga að í spá okkar teljum við fiskeldisafurðir með sjávarafurðum og að sá vöxtur sem við gerðum ráð fyrir þetta árið var að stórum hluta af þeim rótum runninn. Auk þess var loðnuafli nokkur í ár en nánast enginn í fyrra.

Fljótt á litið virðist hins vegar að öðru óbreyttu sem í stað vaxtar muni verða nokkur samdráttur í útfluttu magni sjávarafurða bæði þetta ár og hið næsta. Í ár gæti þessi samdráttur orðið til þess að þurrka að mestu út þann 20 milljarða króna viðskiptaafgang sem við spáðum í maí. Eftir sem áður er þó útlit fyrir talsverðan viðskiptaafgang næstu tvö ár enda munu útflutningstekjur ferðaþjónustunnar vaxa hröðum skrefum. Einnig mun útflutningur á sjávarafurðum sem og iðnaðarvörum áfram verða mikilvægur hornsteinn í öflun útflutningstekna líkt og verið hefur undanfarna áratugi.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband