Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Útflutningstekjur af fiskeldi jukust um tæpan fjórðung í fyrra

Fiskeldi skilaði ríflega 35 milljörðum króna í útflutningstekjur á síðasta ári sem samsvarar nærri 3% af heildar útflutningstekjum þjóðarbúsins í fyrra. Eldislax var næst verðmætasti nytjafiskur landsins í fyrra en þorskur ber sem fyrr höfuð og herðar yfir aðrar nytjafisktegundir. Útlit er fyrir talsverðan vöxt fiskeldis hérlendis sem á heimsvísu á komandi árum.


Framleiddur eldisfiskur á Íslandi var alls 53 þúsund tonn á síðasta ári samkvæmt nýlegum tölum frá Hagstofunni. Það jafngildir 31% aukningu í magni mælt á milli ára. Um 90% af framleiddu magn var í laxeldi en bleikja og regnbogasilungur mynda uppistöðuna í hinum 10 prósentunum. Á vefnum radarinn.is kemur fram að helmingur eldisins var á Vestfjörðum árið 2021 og þriðjungur á Austfjörðum. Þessir tveir landshlutar eru því heimasvæði langstærsta hluta fiskeldis á Íslandi en einnig er nokkuð um fiskeldi á Reykjanesi og Norðurlandi eystra.

Alls skilaði útflutningur eldisfisks 35,4 mö.kr. vergum útflutningstekjum á árinu 2021 sem samsvarar 2,9% af heildar útflutningstekjum þjóðarbúsins. Í krónum talið jukust tekjurnar um 23% milli ára. Til samanburðar voru útflutningstekjur af veiddum sjávarafurðum 293 ma.kr. á síðasta ári. Útflutningstekjur frá eldi hafa aukist hröðum skrefum undanfarin ár en þær náðu í fyrsta skipti 10 ma.kr. árið 2017.

Eins og sjá má af myndinni ber lax höfuð og herðar yfir aðrar tegundir í íslensku fiskeldi. Útflutningstekjur af eldislaxi námu 30 mö.kr. í fyrra. Eldislaxinn hefur á nokkrum árum tekið fram úr öðrum helstu nytjafisktegundum í útflutningsverðmæti og væntanlega skilaði einungis þorskur meiri tekjum á síðasta ári. Það gæti hins vegar breyst í ár þar sem loðnan mun líkast til berjast um annað sætið við eldislaxinn í kjölfar stærstu loðnuvertíðar í áratug.

Horfur eru á myndarlegum vexti í fiskeldi hérlendis í ár og næstu ár. Samkvæmt skýrslu um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi sem út kom á vegum Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á síðasta ári er framleiðsla í sjókvíum enn talsvert minni en útgefin rekstrarleyfi eru fyrir auk þess sem þá lágu enn óafgreiddar nokkrar umsóknir um slíkan rekstur. Þá er laxeldi á landi líklegt til að vaxa mikið á komandi árum enda háttar víða vel til slíks eldis hér á landi.

Í þjóðhagsspá okkar sem út kom í janúarlok spáðum við því að útflutningur sjávarafurða myndi aukast um tæplega 10% í magni mælt í ár frá fyrra ári þrátt fyrir samdrátt í aflaheimildum þorsks á yfirstandandi fiskveiðiári. Auk myndarlegrar loðnuvertíðar á vaxandi útflutningur eldisfisks einna drýgstan þátt í þeim vexti. Lauslega áætlað gætu útflutningstekjur frá fiskeldi orðið í kring um 45 ma.kr. í ár og slagað hátt í 60 ma.kr. árið 2024, gangi spá okkar eftir.

Líklegt virðist að aukið fiskeldi mun standa undir lunganum af þeirri auknu fiskneyslu sem búist er við á komandi árum á heimsvísu. Þannig er því spáð í skýrslu OECD og FAO um horfur í landbúnaði og sjávarútvegi að fiskeldi muni aukast um ríflega fimmtung á yfirstandandi áratug og nema ríflega 103 milljónum tonna árið 2030 samanborið við 84 milljón tonn árið 2020. Aftur á móti er þar einungis spáð 5% vexti í fiskafla til manneldis á sama tíma. Fiskeldi tók fram úr fiskveiðum árið 2016 sem uppspretta sjávarfangs til manneldis á heimsvísu og mun samkvæmt spá OECD og FAO standa undir 58% allrar fiskneyslu jarðarbúa í lok þessa áratugar. Þróunin hér á landi er því í takti við alþjóðlega þróun og mun hlutur fiskeldis í útflutningstekjum Íslands væntanlega áfram vaxa jafnt og þétt út áratuginn.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband