Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Tilkynning um verðbil og birtingu lýsingar í aðdraganda hlutafjárútboðs Íslandsbanka

Bankasýsla ríkisins, fyrir hönd Ríkissjóðs Íslands, og Íslandsbanki hf., hafa birt lýsingu og tilkynnt stærð fyrirhugaðs hlutafjárútboðs og leiðbeinandi verðbil þess.


Til að fá aðgang að gögnum þarftu að velja land og samþykkja skilmála

Veldu land

Helstu atriði um útboðið

  • Útboðið mun ná til allt að 636.363.630 af útgefnu og útistandandi hlutafé bankans („útboðshlutirnir“) sem boðið er út af Bankasýslu ríkisins fyrir hönd Ríkissjóðs Íslands (hér eftir „seljandi“).
  • Til að mæta umframeftirspurn í útboðinu, hefur seljandi veitt söluráðgjöfum rétt til að kaupa 63.636.363 hluti, sem eru ígildi 10% af útboðshlutunum („valréttarhlutir“).
  • Útboðshlutirnir, og valréttarhlutirnir, nema að hámarki 35% af heildarhlutafé bankans.
  • Leiðbeinandi verð er á bilinu 71 til 79 krónur á útboðshlut.
  • Áætlað markaðsvirði Íslandsbanka í kjölfar útboðsins er 150 milljarðar króna, að því gefnu að verð á útboðshlut verði miðpunktur leiðbeinandi verðbils í útboðinu.
  • Útboðið fer fram annars vegar með almennu útboði á hlutabréfum til fagfjárfesta og almennra fjárfesta á Íslandi og hins vegar lokuðu útboði til tiltekinna fagfjárfesta í ýmsum öðrum lögsögum.
  • Sjóðir í stýringu hjá Capital World Investors, RWC Asset Management LLP, Gildi-lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður verzlunarmanna, sem hornsteinsfjárfestar, hafa hver um sig skuldbundið sig til að kaupa 76.923.077, 30.769.231, 46.153.846 og 46.153.846 hluti á endanlegu útboðsgengi (og á sérhverju gengi sem er innan leiðbeinandi verðbils).
  • Útboðið stendur yfir frá kl. 9:00, mánudaginn 7. júní 2021 og er áformað að því ljúki kl. 12:00, þriðjudaginn 15. júní 2021.
  • Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur samþykkt lýsingu vegna útboðsins.
  • Stjórn bankans mun óska eftir því að allt hlutafé bankans verði tekið til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland.
  • Allt söluandvirðið úr útboðinu mun renna til seljanda.
  • Sem stendur fer Ríkissjóður Íslands, beint og óbeint, með 100% af útgefnu og útistandandi hlutafé bankans og má ætla að í lok útboðsins verði hlutur seljanda í bankanum að lágmarki 65% af heildarhlutafé.
  • Seljandi skuldbindur sig til að selja ekki frekari hluti í bankanum í 180 daga eftir fyrsta viðskiptadag hlutabréfanna á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland, með fyrirvara um ákveðnar undantekningar sem eru í samræmi við viðteknar venjur á markaði.
  • Citigroup Global Markets Europe AG, Íslandsbanki hf. og J.P. Morgan AG hafa sameiginlega umsjón með útboðinu og eru leiðandi söluráðgjafar ásamt Barclays Bank Ireland PLC, HSBC Continental Europe, Fossum mörkuðum hf. og Landsbankanum hf. Arion banki hf. og Kvika banki hf. eru leiðandi söluaðilar ásamt Arctica Finance hf., Íslenskum fjárfestum hf. og Íslenskum verðbréfum hf.

Það er ánægjulegt að sjá hlutafjárútboð Íslandsbanka hefjast eftir mikla og vandaða vinnu síðustu mánuði. Það hefur lengi staðið til að draga úr umfangsmiklu eignarhaldi ríkisins á fjármálamarkaði og koma hér á fyrirkomulagi í líkingu við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar. Útboðið er fyrsta skref í þá átt. Með skráningunni verður íslenskur hlutabréfamarkaður stærri og fjölbreyttari, og það er jákvætt að fjárfestingarkostum almennings og fagfjárfesta fer sífellt fjölgandi.

Bjarni Benediktsson,
fjármála- og efnahagsráðherra

Það er mér mikil ánægja að sjá upphaf hlutafjárútboðs Íslandsbanka verða að veruleika og mikilvægt augnablik fyrir Bankasýslu ríkisins. Við teljum að markaðsaðstæður séu ásættanlegar og útboðið til samræmis við ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra. Sölumeðferðin hefur gengið samkvæmt áætlun, sem má þakka miklu og góðu framlagi allra þeirra sem komið hafa að henni. Við erum þess fullviss að Íslandsbanki eigi sér trausta framtíð sem skráð félag á markaði.

Lárus Blöndal,
stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins

Ég hlakka til að kynna Íslandsbanka fyrir væntanlegum fjárfestum á komandi kynningarfundum og um leið stefnu okkar um þróun á starfsemi bankans. Frá því að ég tók við starfi bankastjóra árið 2008 hefur Íslandsbanki lagt grunn að sterku og farsælu viðskiptalíkani sem hefur sannað gildi sitt og stuðlað að auknu virði fyrir eigendur bankans, bæði í formi virðisaukningar og arðgreiðslna. Þetta líkan hefur staðist þær áskoranir sem komið hafa upp vegna heimsfaraldursins og bankinn er því í stakk búinn að njóta góðs af endurreisn íslenska hagkerfisins. Ég tek því fagnandi að eiga þess kost að koma bankanum á ný í eigu einkaaðila.

Birna Einarsdóttir,
bankastjóri Íslandsbanka

Helstu atriði um Íslandsbanka

  • Höfuðstöðvar Íslandsbanka eru á Íslandi, sem er jafnframt heimamarkaður bankans. Í desember 2020 var bankinn með um 31% markaðshlutdeild meðal einstaklinga, 35% markaðshlutdeild meðal smærri og meðalstórra fyrirtækja og 35% markaðshlutdeild í fyrirtækja- og fjárfestingarbankastarfsemi.[1] Íslandsbanki hefur hlotið lánshæfismatið BBB/A-2, með stöðugum horfum, frá alþjóðlega matsfyrirtækinu S&P Global Ratings.
  • Íslandsbanki veitir alhliða fjármálaþjónustu og hefur sterka stöðu á sviði einstaklingsþjónustu, fyrirtækjaþjónustu, í fjárfestingarbankastarfsemi og í eignastýringu.
  • Bankinn er í góðri stöðu til að grípa þau tækifæri sem framundan eru hérlendis, samhliða auknum umsvifum í hagkerfinu.
  • Íslandsbanki nýtir fjölbreytt dreifileiðanet til að viðhalda ánægju viðskiptavina og rekur jafnframt hagkvæmasta útibúanet landsins.
  • Bankinn telur sig vera leiðandi í stafrænni bankaþjónustu og hefur fjárfest umtalsvert í stafrænni þróun og nýjum grunnkerfum sem leysa eldri kerfi af hólmi.
  • Sem leiðandi afl í sjálfbærni og jafnrétti kynjanna hefur bankinn mótað þjónustu sína með hliðsjón af þeirri stefnu og skilgreint vöru og þjónustuframboð í samræmi við hana. Íslandsbanki var fyrstur íslenskra banka að skilgreina og birta sérstakan sjálfbæran fjármálaramma utan um lán í eignasafni sínu sem flokkast sem sjálfbær.
  • Sem fyrirmynd í umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS) í rekstri sínum, hefur bankinn lagt áherslu á ábyrga stjórnarhætti og lagt sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar í íslensku hagkerfi.
  • Íslandsbanki býr að traustum efnahagsreikningi og góðum grunni til að skila sterkri afkomu. Bankinn hefur sett sér metnaðarfull fjárhagsleg markmið og hefur lagt grunn að aukinni arðsemi eigin fjár á næstu árum.
  • Sterk eiginfjárstaða bankans veitir tækifæri til arðgreiðslna eða endurkaupa eigin bréfa og frekari aukningu á arðsemi eigin fjár.

Samantekt

  • Íslandsbanki starfar í þroskuðu hagkerfi og á bankamarkaði sem einkennist af; háu hlutfalli eiginfjár samanborið við sambærilega banka í Evrópu[2], mikilli notkun stafrænna lausna í samanburði við önnur lönd í Evrópu[3] og góðum vaxtarhorfum.
  • Íslenskt hagkerfi hefur lagað sig fljótt að breyttum aðstæðum og náð skjótum bata eftir áföll, eins og dæmin hafa sannað. Það mun njóta góðs af auknum ferðavilja á alþjóðavísu og þeirri staðreynd að vextir eru jákvæðir hérlendis.
  • Bankinn telur sig leiðandi í stafrænni þróun en eftir umtalsverðar fjárfestingar í nýjum grunnkerfum og stafrænum lausnum nýttu 99% einstaklinga sér stafrænar lausnir bankans árið 2020 og 71% viðskiptavina notaðist eingöngu við stafrænar lausnir. Að auki starfrækir bankinn hagkvæmasta útibúanet landsins með skilvirka dreifileiðastefnu.
  • Íslandsbanki býr að traustum efnahagsreikningi með vel dreift lánasafn (húsnæðislán eru stærsti einstaki lánaflokkurinn, um 37%[4]), fjölbreytta fjármögnun (innlán viðskiptavina nema 54%[5]) og býr að sterkri áhættumenningu sem hefur leitt af sér að hlutfall lána með laskað lánshæfi var einungis 2,9% af heildarlánasafni í lok árs 2020 (samanborið við 3,0% árið 2019).
  • Íslandsbanki er vel þekktur alhliða banki á íslenska markaðinum. Bankinn býður upp á sérhæfðar og nýstárlegar nálganir með markaðsleiðandi stöðu þvert yfir rekstrareiningar í almennri bankaþjónustu fyrir einstaklinga, viðskiptabankastarfsemi, fyrirtækja- og fjárfestingarbankastarfsemi og dótturfélaginu Íslandssjóðum. 
  • Bankinn er í forystu hvað varðar sjálfbærni á íslenskum fjármálamarkaði og hefur lagt áhersla á innleiðingu UFS staðla í starfsemi og rekstri bankans. Hann hefur hlotið flest stig íslenskra fyrirtækja í UFS einkunn Reitunar (90 af 100 stigum).
  • Íslandsbanka er stýrt af öflugu og reyndu stjórnendateymi sem hefur náð góðum árangri í rekstri bankans; þar á meðal farsælli endurskipulagningu lánabókar síðan 2011, öflugri framkvæmd á stefnu bankans í átt að aukinni skilvirkni og samkeppnishæfi ásamt áhrifaríkum viðbrögðum við  COVID-19 faraldrinum.
  • Bankinn byggir á sterkum fjárhagslegum grunni sem mun, að öllu óbreyttu, skila góðri arðsemi eigin fjár til meðallangs tíma og möguleikum á útgreiðslu á umfram eiginfé í formi hefðbundinna arðgreiðslna og tækifærum til að ná hagkvæmari fjármagnsskipan.

Tímasetningar

Hér má sjá helstu tímasetningar og dagsetningar útboðsins:

  • Útboðið hefst kl. 9:00, mánudaginn 7. júní 2021.
  • Áformað er að útboðinu ljúki kl. 12:00, þriðjudaginn 15. júní 2021 (bæði gagnvart fagfjárfestum og almennum fjárfestum).
  • Áformað er að tilkynnt verði um endanlega stærð útboðsins og útboðsverð á eða í kringum þriðjudaginn 15. júní 2021.
  • Áformað er að tilkynna fjárfestum um úthlutun í útboðinu miðvikudaginn 16. júní 2021.
  • Eindagi greiðslu fyrir útboðshlutina er áætlaður mánudaginn 21. júní 2021.
  • Áætlað er að hlutirnir verði teknir til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland kl. 9:30, þriðjudaginn 22. júní 2021.
  • Stefnt er að því að greiddir útboðshlutir verði að mestu afhentir fyrir þriðjudaginn 22. júní 2021.[6]

[1] Heimild: Gallup
[2] Heimild: European Banking Authority
[3] 96% viðskiptavina á Íslandi nota stafræna þjónustu (Heimild: Eurostat, 2020)
[4] Miðað er við lok árs 2020
[5]Miðað er við lok árs 2020
[6]Þar sem áætlaður eindagi greiðslu er 21. júní 2021, og áætlað er að greiddir hlutir verði afhentir fjárfestum innan tveggja viðskiptadaga frá því að greiðsla berst, er áætlað að lokaafhendingardagur hlutanna til fjárfesta verði eigi síðar en 23. júní 2021.

Tengiliðir


Jóhann Ottó Wathne

Fjárfestatengsl


Hafa samband
844 4607

Björn Berg Gunnarsson

Fjölmiðlatengsl


Hafa samband
844 4869