Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Bankasýsla ríkisins og Íslandsbanki áforma hlutafjárútboð og skráningu á Nasdaq Iceland


Til að fá aðgang að gögnum þarftu að velja land og samþykkja skilmála

Veldu land

Bankasýsla ríkisins, fyrir hönd Ríkissjóðs Íslands, og Íslandsbanki hf., staðfesta áform sín um að hefja hlutafjárútboð („útboðið“) og í framhaldinu skráningu hlutabréfa Íslandsbanka á aðalmarkað Nasdaq Iceland. Fyrirhugað útboð mun ná til þegar útgefinna hluta í Íslandsbanka. Útboðið og tímasetning þess er m.a. háð markaðsaðstæðum. Að öllu óbreyttu gæti útboðið farið fram á öðrum ársfjórðungi 2021.

Helstu atriði um útboðið


 • Af hálfu Bankasýslu ríkisins, fyrir hönd ríkissjóðs (hér eftir „seljandi“), verða boðin til sölu þegar útgefin hlutabréf í Íslandsbanka.
 • Útboðið fer fram annars vegar með almennu útboði á hlutabréfum til fagfjárfesta og almennra fjárfesta á Íslandi og lokuðu útboði til tiltekinna fagfjárfesta í ýmsum öðrum lögsögum.
 • Stjórn bankans mun óska eftir því að allt hlutafé bankans verði tekið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði Nasdaq Iceland.
 • Útboðið mun ná til að lágmarki 25% af útgefnu og útistandandi hlutafé bankans.
 • Seljandi skuldbindur sig til að selja ekki frekari hlut í bankanum í 180 daga eftir fyrsta viðskiptadag hlutabréfanna á Nasdaq Iceland, með fyrirvara um ákveðnar undantekningar, sem eru í samræmi við viðteknar venjur á markaði.
 • Citigroup Global Markets Europe AG, Íslandsbanki hf. og J.P. Morgan AG hafa sameiginlega umsjón með útboðinu og eru leiðandi söluráðgjafar ásamt Barclays Bank Ireland PLC, HSBC Continental Europe, Fossum mörkuðum hf. og Landsbankanum hf. Arion banki hf. og Kvika banki hf. ásamt Arctica Finance hf., Íslenskum fjárfestum hf. og Íslenskum verðbréfum hf. munu einnig hafa aðkomu að útboðinu sem söluráðgjafar.
 • Útboðið er háð samþykki eftirlitsaðila og stjórnvalda.

Fjárhagsleg markmið


 • Markmið bankans er að skila arðsemi eigin fjár á bilinu 8-10% fyrir árið 2023 og yfir 10% til lengri tíma.
 • Bankinn stefnir að því að lækka kostnaðarhlutfall sitt niður í 45% fyrir árið 2023.
 • Bankinn miðar að því að halda eiginfjárhlutfalli þáttar 1 (CET1) yfir 16% til lengri tíma.
 • Markmið bankans er að um 50% af hagnaði hvers árs verði greiddur út í formi hefðbundinna arðgreiðslna og jafnframt er möguleiki á því að nýta umfram eigið fé til frekari arðgreiðslna, kaupa á eigin bréfum eða til vaxtar sem mun styðja við aukna arðsemi eiginfjár.

Frá endurreisn Íslandsbanka árið 2008 höfum við með árangursríkum hætti framfylgt stefnu sem hefur leitt af sér þann sterka og sjálfbæra grunn sem við stöndum á í dag. Við höfum skýra stefnu varðandi þróun viðskiptalíkans bankans til framtíðar og höfum hrundið þeirri stefnu í framkvæmd. Með öflugri og aukinni stafrænni þjónustu, áherslu á langtímasamband við viðskiptavini bankans og rótgróna þjónustumenningu getum við verið stolt af stöðu bankans og erum vel í stakk búin til að takast á við nýja tíma. Við höfum lagt grunn að aukinni arðsemi til framtíðar og sett okkur vel skilgreind markmið til að ná arðsemi eigin fjár umfram 10%, sem skapar grunn fyrir arðgreiðslur til hluthafa, bæði í formi hefðbundinna arðgreiðslna sem og greiðslu á umfram eiginfé. Stjórnendateymi bankans býr yfir mikilli reynslu og hefur sögulega náð þeim markmiðum sem bankinn hefur sett sér. Ég er fullviss um að við munum halda því áfram.

Birna Einarsdóttir,
bankastjóri Íslandsbanka

Skráning Íslandsbanka á markað er mikilvægt skref í þá átt að draga úr umtalsverðu eignarhaldi íslenska ríkisins á fjármálamarkaði og mun veita ríkinu skýrt fordæmi í þá átt að selja það sem eftir stendur af eignarhlut í bankanum. Með þessum áfanga færumst við nær heilbrigðara umhverfi á fjármálamarkaði, eins og sjá má hjá nágrönnum okkar á Norðurlöndum. Það er ánægjulegt að sjá að sölumeðferðin, sem stýrt er af Bankasýslu ríkisins og ráðgjöfum hennar, gengur vel og hlakka ég til að ljúka henni með góðum árangri.

Bjarni Benediktsson,
fjármála- og efnahagsráðherra

Þetta eru tímamót í sögu Íslandsbanka nú þegar við leggjum grunn að dreifðu og almennu eignarhaldi bankans, líkt og verið hefur lengst af í sögu hans. Frá því að bankinn var endurreistur árið 2008 hefur hann starfað með þeim hætti sem skráð fyrirtæki gera. Innviðir bankans eru því vel þróaðir og uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til skráðra fyrirtækja. Við erum ánægð að bjóða fjárfestum að taka þátt í áframhaldandi vegferð bankans og teljum að skráning á markað sé staðfesting á styrk hans og um leið íslenska bankakerfisins og íslenska hagkerfisins í heild sinni.

Hallgrímur Snorrason,
stjórnarformaður Íslandsbanka:

Til samræmis við ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra í janúar sl. og umsagnir efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar Alþingis, er ég ánægður að sjá að áætlanir um almennt útboð Íslandsbanka eru að verða að veruleika. Ráðherra fól Bankasýslu ríkisins ábyrgð og umsjón með söluferlinu og að tryggja ákveðna skilmála útboðs- og úthlutunarreglna. Í eigandastefnu ríkisins kemur fram að markmiðið sé að selja eignarhlut í Íslandsbanka þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru til staðar og það er mat okkar að þau séu nú fyrir hendi.

Lárus Blöndal,
stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins