Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga eykst í apríl en verðbólguhorfur skána

Umtalsverð hækkun flugfargjalda er helsta ástæða þess að verðbólga jókst í aprílmánuði. Horfur eru á svipuðum verðbólgutakti á komandi mánuðum en verðbólguhorfur fyrir komandi fjórðunga hafa þó almennt batnað nokkuð eftir samþykkt kjarasamninga í aprílmánuði.


Umtalsverð hækkun flugfargjalda er helsta ástæða þess að verðbólga jókst í aprílmánuði. Horfur eru á svipuðum verðbólgutakti á komandi mánuðum en verðbólguhorfur fyrir komandi fjórðunga hafa þó almennt batnað nokkuð eftir samþykkt kjarasamninga í aprílmánuði. Þáttur íbúðaverðs í verðbólgunni hefur minnkað jafnt og þétt undanfarið og útlit er fyrir að einnig muni draga úr innfluttri verðbólgu. Innfluttur verðþrýstingur, húsnæðisverð og aðrir innlendir þættir skýra hver um sig þriðjung verðbólgu um þessar mundir.

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,37% í apríl skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 3,3% en var 2,9% í mars. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,48% í apríl og miðað við. þá vísitölu mælist 2,8% verðbólga undanfarna 12 mánuði.

Mæling aprílmánaðar er í samræmi við birtar spár  Við spáðum 0,4% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,3% – 0,4% hækkun milli mánaða. Flestir helstu undirliðir þróuðust einnig í takti við spá okkar og því fátt sem kemur á óvart að þessu sinni.

Ferðir og flutningar skýra aprílhækkun

Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um ríflega 20% í aprílmánuði (0,29% áhrif í VNV) og skýrir sú hækkun að langmestu leyti hækkun VNV í apríl. Þar kemur tvennt til:

  • ·         Í fyrsta lagi er það nefnt í frétt Hagstofunnar að gjaldþrot Wow air hafi haft áhrif á útreikninga flugliðarins að þessu sinni. Hagstofan mælir þennan lið með því að kanna flugfargjöld 2 vikur, 1 mánuð og 2 mánuði fram í tímann. M.ö.o. er aprílgildi þessarar undirvísitölu meðaltal mælinga sem gerðar voru í febrúar, mars og apríl. Þar á bæ var því búið að gera tvær mælingar fyrir aprílmánuð þegar Wow fór í þrot og hefur því væntanlega þurft að endurskoða útreikninginn í ljósi þess að þær flugferðir voru aldrei farnar.

  • ·         Í öðru lagi voru páskar í seinna lagi í ár og höfðu því sterk áhrif á aprílmælingu flugliðarins. Þau áhrif gætu gengið til baka að hluta í maímánuði.

Íbúðaverð stendur í stað í apríl

Líkt og við höfðum búist við lækkaði reiknuð húsaleiga í VNV að þessu sinni (-0,01% í VNV). Markaðsverð íbúðarhúsnæðis stóð hins vegar nánast í stað í mælingu Hagstofunnar og hefur því vaxtaþáttur þessa liðar haft framangreind lækkunaráhrif, en hann tekur mið af vöxtum íbúðalána.

Ólíku var saman að jafna um aprílmælingu höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,8% á milli mánaða og verð á sérbýlum hækkaði um 0,9%. Hins vegar lækkaði verð á landsbyggðinni um 2,5% eftir óvenju mikla hækkun í marsmánuði.

Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 4,6% samkvæmt tölum Hagstofunnar og raunhækkun íbúðaverðs nemur því 1,3% ef mið er tekið af VNV. Mest hefur verðið hækkað á landsbyggðinni, eða um tæp 9%, en á höfuðborgarsvæðinu hefur verð fjölbýla hækkað um 3,4% og verð sérbýla um 4,3%.

Í heild vó húsnæðisliður VNV til 0,01% hækkunar í apríl og skýrist sú hækkun af 0,3% hækkun greiddrar húsaleigu.

Áhrif veikingar krónu að sjatna

Að ferðum og flutningum slepptum vó 0,9% verðhækkun á fötum og skóm einna mest til hækkunar VNV í apríl (0,04% í VNV). Það sem af er ári hafa föt og skór hins vegar lækkað lítillega í verði og er því ekki að sjá að nýjar vörur sem settar voru í sölu að útsölum loknum hafi almennt verið verðlagðar hærra en eldri vörur þrátt fyrir að gengi krónu hafi lækkað um 9,5% á síðasta þriðjungi ársins 2018.

Alls hækkuðu innfluttar vörur um 0,44% í aprílmánuði og hefur hækkun þeirra ekki mælst minni milli mánaða frá miðju síðasta ári ef frá eru talin útsöluáhrif. Frá miðju síðasta ári hafa innfluttar vörur hækkað í verði um tæp 3%. Þessi hóflega hækkun hefur komið okkur ánægjulega á óvart í ljósi framangreindrar gengislækkunar krónu og skýrist hún væntanlega að stórum hluta af harðnandi samkeppni í smásöluverslun og vaxandi blikum á lofti um eftirspurn neytanda á komandi mánuðum.

Innflutt verðbólga skýrir nú ríflega 1% af 3,3% verðbólgu, húsnæðisliður VNV annað eins, innlendar vörur standa að baki 0,5% verðbólgunnar í apríl og þjónusta að baki 0,6%. Því má með nokkurri einföldun segja að innflutt verðbólga, húsnæði og verð á innlendri vöru og þjónustu skýri sinn þriðjunginn hver af verðbólgunni um þessar mundir.

Skánandi verðbólguhorfur

Þótt verðbólga hafi aukist nokkuð í aprílmánuði eru verðbólguhorfur á komandi fjórðungum heldur að batna að mati okkar. Við spáum 0,2% hækkun VNV í maí og 0,4% hækkun í júní, en nánast óbreyttri vísitölu í júlí. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 3,3% í júlí 2019.

Búast má við talsverðri hækkun flugfargjalda þegar sumarið gengur í garð og leggst þar á eitt hækkandi eldsneytisverð, aukin eftirspurn háannatímans og minni samkeppnisþrýstingur eftir fall Wow air. Áfram mun draga úr hækkunartakti innfluttra vara þegar vorar að því gefnu að krónan veikist ekki á nýjan leik. Þá gerum við ráð fyrir að íbúðaverð muni hækka í svipuðum takti á komandi mánuðum og raunin hefur verið undanfarið.

Á seinni hluta ársins gæti hins vegar tekið að draga heldur úr verðbólgu á nýjan leik. Nýgerðir kjarasamningar virðast til þess fallnir að valda minni skammtíma verðbólguþrýstingi en við höfðum óttast. Þá eru ágætar líkur á að gengi krónu haldist tiltölulega stöðugt þrátt fyrir verri horfur um útflutningstekjur. Loks mun íbúðaverð væntanlega hækka hægar þegar frá líður og minnkandi eftirspurnarþrýstingur ætti líka að skila sér í minni innlendum verðhækkunum almennt. Vaxandi launakostnaður mun þó væntanlega valda nokkrum verðbólguþrýstingi í fyrirsjáanlegri framtíð og gæti sá þrýstingur aukist þegar frá líður.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband