Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Þjónustuafgangur í fyrra heldur minni en við væntum

​Útlit er fyrir að viðskiptaafgangur á síðasta ári hafi verið allmyndarlegur þrátt fyrir mótbyr í ferðaþjónustu á seinni hluta ársins og mikla ferðagleði landans.


Útlit er fyrir að viðskiptaafgangur á síðasta ári hafi verið allmyndarlegur þrátt fyrir mótbyr í ferðaþjónustu á seinni hluta ársins og mikla ferðagleði landans. Afgangurinn var þó líklega heldur minni en við höfðum vænst þar sem þjónustuafgangur á lokafjórðungi ársins reyndist í rýrara lagi.

Umtalsvert minni afgangur á lokafjórðungi ársins

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar var afgangur af þjónustuviðskiptum 33 ma.kr. á lokafjórðungi síðasta árs. Það var 18,5 mö.kr. minni afgangur en á sama fjórðungi árið 2017. Útflutningur þjónustu skrapp saman um 2% á milli ára en innflutningur jókst um 14%. Samdráttur í útflutningi skýrist að miklu leyti af mun minni tekjum af notkun hugverka en árið áður, en sá liður var óvenju myndarlegur á lokafjórðungi ársins 2017. Innflutnings vöxtinn má skrifa bæði á meiri ferðagleði landsmanna sem og umtalsverðan vöxt í innflutningi á tækni tengdri þjónustu og annarri viðskiptaþjónustu.

Afgangurinn einni tíund minni í fyrra

Á árinu 2018 skrapp afgangur af þjónustujöfnuði saman um tæpa 26 ma.kr. frá fyrra ári sem samsvarar 9,5% minni afgangi á milli ára. Nam afgangurinn alls tæpum 246 mö.kr. á síðasta ári. Bæði innflutningur og útflutningur þjónustu jókst á milli ára, en innflutningurinn hafði þó vinninginn með 14,5% vöxt í krónum talið á móti tæplega 5% vexti útflutnings. Líkt og fyrri daginn reyndist talsverður afgangur af helstu undirliðum þjónustujafnaðar að flokknum „önnur viðskiptaþjónusta“ undanskildum, en sá flokkur inniheldur m.a. leigugjöld vegna leigu á flugvélum og skipum og endurspeglar því hluta af kostnaðinum við að afla þjónustutekna af ferðaþjónustu og flutningum.

Tekjur þjóðarbúsins af ferðalögum milli landa jukust um tæp 5% á síðasta ári frá árinu áður og námu þær samtals 337 mö.kr. Ferðagleði landsmanna virðist hins vegar hafa aukist öllu hraðar, þar sem vöxtur í útgjöldum vegna ferðalaga milli landa nam rúmum 12% á tímabilinu. Voru slík útgjöld alls nærri 199 ma.kr. og þjónustuafgangur vegna ferðalaga nam því tæpum 139 ma.kr samanborið við tæplega 145 ma.kr. árið 2017.

Dregur úr viðskiptaafgangi

Hagstofan birti einnig brúartöflur fyrir vöru- og þjónustujöfnuð sem sýna slík viðskipti á grunni greiðslujafnaðar. Á þann kvarða var halli vegna vöru- og þjónustuviðskipta á 4. ársfjórðungi tæplega 4 ma.kr. samanborið við ríflega 14 ma.kr. afgang árið áður. Minni þjónustuafgangur skýrir þessa breytingu milli ára, en vöruskiptahalli var tæplega 37 ma.kr. á tímabilinu og minnkaði lítillega á milli ára.

Á árinu 2018 í heild nam afgangur vöru- og þjónustuviðskipta samtals 86,5 mö.kr. og minnkaði afgangurinn um tæpa 20 ma.kr. á milli ára. Líkt og fram kom að ofan réði olli afgangur af þjónustuviðskiptum þessari breytingu til hins verra og raunar skrapp vöruskiptahalli lítillega saman á milli ára, úr 165 ma.kr. halla árið 2017 í 159 ma.kr. halla á síðasta ári.

Næstkomandi mánudag birtir Seðlabankinn tölur um greiðslujöfnuð á síðasta ári og erlenda stöðu þjóðarbúsins í árslok. Fæst þar heildarmynd af viðskiptajöfnuði ársins þar sem tölur um þáttatekjujöfnuð og framlög milli landa bætast við ofangreindar tölur. Miðað við framangreindar tölur er þó ljóst að talsverður afgangur var af utanríkisviðskiptum á árinu 2018 þótt töluvert hafi væntanlega dregið úr afganginum á milli ára. Í þjóðhagsspá okkar sem gefin var út í síðasta mánuði gerðum við ráð fyrir því að viðskiptaafgangur árið 2018 myndi reynast ríflega 90 ma.kr., eða sem samsvarar 3,2% af VLF. Útlit er fyrir að afgangurinn reynist nokkru minni, enda hefur undanfarna fjórðunga verið nokkur halli á samanlögðum jöfnuði þáttatekna og framlaga. Eru 70-75 ma.kr. væntanlega nær lagi hvað viðskiptaafgang í fyrra varðar.