Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Þjóðhagsspá Íslandsbanka – Lægð í lofti

Núverandi áratugur hefur að mestu verið uppgangstími í íslensku hagkerfi. Undanfarin fimm ár var hagvöxtur að jafnaði 4,5% ár hvert.


Núverandi áratugur hefur að mestu verið uppgangstími í íslensku hagkerfi. Undanfarin fimm ár var hagvöxtur að jafnaði 4,5% ár hvert. Uppgangur ferðaþjónustunnar á hér drjúgan hluta að máli ásamt fleiri hagfelldum þáttum sem ýtt hafa undir myndarlegan vöxt einkaneyslu og fjárfestingar. Færðist vaxtarbroddurinn því frá útflutningi til innlendrar eftirspurnar eftir því sem leið á vaxtarskeiðið. Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka.

Nú er hins vegar hafið samdráttarskeið í hagkerfinu að mati Greiningar. Útlit er fyrir 0,7% samdrátt VLF á árinu 2019. Verður árið þá fyrsta samdráttar árið frá árinu 2010. Snarpur samdráttur í útflutningi á stærsta þáttinn í efnahagssamdrætti í ár en einnig mun fjárfesting atvinnuvega skreppa talsvert saman. Þá verður einkaneysluvöxtur hægur. Á móti vegur að innflutningur mun væntanlega einnig minnka talsvert milli ára.

Á næsta ári gerum við ráð fyrir fremur hægum hagvexti, eða 1,5%, drifnum af einkaneyslu og fjárfestingu í íbúðarhúsnæði og innviðum. Meiri kraftur færist svo í vöxtinn árið 2021 en þá er spáð 2,7% vexti eftir því sem meiri þróttur færist í fjárfestingu atvinnuvega og útflutning á nýjan leik.

Þjóðhagsspá Greiningar má sjá í heild hér.