Ný þjóðhagsspá Íslandsbanka teiknar upp þá mynd að ný hagsveifla með hóflegum hagvexti sé í vændum. Seigla í einkaneyslu og batnandi útflutningsvöxtur knýja vöxt á spátímanum en sveiflur í fjárfestingu hafa talsverð áhrif. Búist er við hægum vexti ferðaþjónustu á spátímanum en hugverkaiðnaður og fiskeldi taka við keflinu sem helstu vaxtarbroddar útflutnings. Hægt hefur verulega á aðflutningi fólks erlendis frá sem er vísbending um breytta stöðu á vinnumarkaði. Flest bendir til meiri slaka á vinnumarkaði auk þess sem launahækkanir eru hóflegri en síðustu ár.
Þjóðhagsspá Íslandsbanka: Hagkerfið að hausti
Greining Íslandsbanka spáir fyrir um þróun efnahagsmála árin 2025-2027
Verðbólga heldur áfram að hjaðna hægt og bítandi framan af spátímanum en lokahnykkurinn að verðbólgumarkmiði mun reynast erfiður. Vaxtalækkunarferlið hefst á ný á fyrri hluta næsta árs en verður hægfara samhliða hjöðnun verðbólgunnar. Horfur eru á tiltölulega sterkri krónu á næstunni í ljósi batnandi utanríkisviðskipta, vaxtamunar við útlönd og erlendrar stöðu þjóðarbúsins. Raungengið er hins vegar orðið býsna hátt og líkur á veikingu krónu aukast jafnt og þétt á spátímanum.
Stiklað á stóru
Hagvöxtur – Spáð er 2,2% hagvexti í ár, 1,7% árið 2026 og 2,4% árið 2027. Seigla í einkaneyslu og batnandi útflutningsvöxtur knýja vöxt á spátímanum
Utanríkisviðskipti – 1,8% viðskiptahalli í ár en batnandi utanríkisviðskipti þegar líður á spátímann og búist er við jafnvægi árið 2027
Vinnumarkaður – Slaki á vinnumarkaði en laun hækka allnokkuð. Laun hækka um 7,8% í ár, 5,4% árið 2026 og 5,3% árið 2027
Verðbólga – Verðbólga hjaðnar hægt og lokahnykkur að verðbólgumarkmiði mun reynast erfiður. Spáð er 4,1% verðbólgu að jafnaði í ár, 3,9% árið 2026 og 3,7% árið 2027
Vextir – Vaxtalækkunarferlið hefst á ný á fyrri hluta næsta árs. Stýrivextir verða 7,5% í árslok 2025 og á bilinu 5,5%-6,0% á lokaári spátímans
Krónan – Veiking krónu líkleg þegar líður á spátímann. Búist er við um það bil 4-5% veikari krónu á spátímanum