Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Þau þurfa að spara áður en þau fara

Það er mikilvægt að unga fólkið átti sig á því að með kaupum á bíl eða rándýrri heimsreisu, eru þau að gera sér mun erfiðara að koma sér þaki yfir höfuðið seinna meir.


Við erum að meðaltali 23 ára þegar við flytjum að heiman en um 32 ára þegar við kaupum okkar fyrstu íbúð. Að undanförnu hefur mikið verið rætt um hversu erfitt er að eiga fyrir útborgun vegna fyrstu kaupa og það verður langt í frá auðveldara þegar við þurfum að greiða húsaleigu á sama tíma og við spörum.

Við finnum of seint fyrir sparnaðarþörfinni

Það er skiljanlegt að við byrjum að spara þegar við erum farin að finna fyrir þörfinni . Ef okkur finnst það ekki vera aðkallandi er auðvelt að ýta því á undan sér. Hið sama má segja um lífeyrisaldurinn, það hafa fáir áhuga á að undirbúa hann fyrr en hann er handan við hornið og þá er það sennileg orðið of seint. Í báðum tilvikum er þó betra að byrja fyrr.

Bíll eða íbúð?

Það er auðveldara að spara þegar við búum í foreldrahúsum. Í stað þess að greiða húsaleigu getum við lagt fyrir og við getum sparað enn meira með því að borða heima. En stundum dugar það ekki til. Sá sparnaður, sem ætti að vera til kaupa á húsnæði, er oft nýttur í eitthvað allt annað. Það er mikilvægt að unga fólkið átti sig á því að með kaupum á bíl eða rándýrri heimsreisu, eru þau að gera sér mun erfiðara að koma sér þaki yfir höfuðið seinna meir. Getur t.d. verið að með því að sleppa kaupum á 3 milljóna króna bíl 20 ára gætu þau átt fyrir útborgun í íbúð áratug síðar?

Fræðslan byrjar heima

Séreignarleiðin hjálpar en það verður samt mjög erfitt. Mikill meirihluti fyrstu kaupenda fá fjárhagslega aðstoð frá foreldrum en foreldrarnir þyrftu þó að grípa mun fyrr inn í og undirbúa börnin sín betur. Að tæma framtíðarreikninginn, kaupa sér bíl eða gleyma skipulögðum sparnaði gerir íbúðakaup erfiðari, en við þurfum að útskýra það fyrir krökkunum. Það margborgar sig því að setjast aðeins niður með þeim og ræða málin.

Greinin birtist fyrst í Markaðinum - fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri Greiningar og fræðslu


Senda tölvupóst