Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Tapaðar Þjóðhátíðartekjur bakslag fyrir yngra Eyjafólk

Fyrr í júlímánuði var tekin sú ákvörðun að engin Þjóðhátíð verður haldin í Vestmannaeyjum þetta árið en hátíðin er ein helsta tekjulind íþróttastarfs í eyjunni fögru. Hörður Orri Grettisson framkvæmdastjóri ÍBV hefur nefnt í fjölmiðlum að 60-70% af tekjum þeirra séu í „algjöru uppnámi“. Það liggur augum uppi að ÍBV mun verða af allmiklum tekjum þetta árið vegna ákvörðunar varðandi Þjóðhátíð en hversu veigamikil er sú tekjulind?


Skráðu þig á póstlistann okkar

Kortavelta Þjóðhátíðar

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sækja u.þ.b. 15 þúsund manns á ári hverju og hefur hátíðin verið haldin árlega síðan árið 1901 að undanskildum styrjaldarárunum 1914 og 1915. Hátíðin var fyrst haldin árið 1874 til að fagna þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar sem og þeim tímamótum að Íslendingar fengu afhenta sína fyrstu stjórnarskrá frá Danakonungi. Heildarkortavelta í Vestmannaeyjum yfir þjóðhátíðarvikuna nam að meðaltali um 79 milljónum árin 2014 - 2018 sem er ríflega þrefalt meira en í öðrum mánuðum. Vert er að nefna að í þessum tölum hefur miðasala hátíðarinnar að öllu leyti verið tekin úr færslunum en áætlaðar tekjur af henni eru í grennd við 300 milljónir. Stærstan skerf kortaveltunnar hirða veitingastaðir, tjaldsvæði og dagvöruverslanir (matvörubúðir og áfengisverslanir) en hlutdeild þeirra nemur um 68%.

Þjóðhátíð er ekki eina gullgæs Vestmannaeyinga

Þjóðhátíð er ekki eina tilefni landsmanna til þess að skella sér til Vestmannaeyja að sumarlagi enda eru haldin þar tvö fjölmenn fótboltamót og Goslokahátíð í þokkabót. Aftur á móti sækja ekki jafn margir þessa viðburði en 1.120 keppendur komu saman á Orkumótinu (Pollamótið), auk fararstjóra, þjálfara, foreldra og annarra sem fylgja liðinu, 760 keppendur voru á TM mótinu (Pæjumótið) eitt árið og áætlað um 7.000 manns koma saman á Goslokahátíðinni. Tekjur þessara viðburða eru talsverðar og yfir meðaltali annarra vikna (utan þjóðhátíðarvikunnar). Meðalkortavelta tengd Orkumótinu á árunum 2014-2018 nam um 19 milljónum, kortavelta vegna Pæjumótsins nam um 18 milljónum og kortavelta tengd Goslokahátíðinni nam tæplega 33 milljónum. Gosalokahátíðin og Þjóðhátíð eru haldnar fyrstu helgina í sitthvorum mánuði, sem fyrir vikið rífur upp meðaltal annarra mánaða gagnvart Gosalokahátíðinni. Kortavelta þessa viðburða jafnast ekki á við Þjóðhátíð en skila samt sem áður 5,5% af heildarkortaveltu Vestmannaeyja, samanborið við Þjóðhátíð sem án miðasölu nemur um 6,2% af kortaveltunni.

Um 380 milljónir í vaskinn

Nú liggur augum uppi að Vestmannaeyjar munu verða af mikilvægum tekjum þetta árið fyrir íþróttastarf sitt, en á móti vegur þó að aðrir viðburðir innan Vestmannaeyja fóru fram með eðlilegu móti í sumar. Samt sem áður eru ekki tekin til greina í tölunum hér að ofan tekjur af miðasölu (áætlað rétt norðan við 300 milljónir) og öll viðskipti með reiðufé. Eins og Daníel Geir Moritz formaður knattspyrnuráðs ÍBV hefur sagt mun tekjutapið bitna mest á yngri flokkum ÍBV en tekjur Þjóðhátíðar hafa síðastliðin ár að mestu leyti verið notaðar til niðurgreiðslu á æfingagjöldum. Þjóðhátíð er langstærsti viðburður Vestmannaeyja og ljóst þykir að ekkert mun bæta upp tekjutap ÍBV þetta árið. Má því segja að fullyrðing Harðar Orra sé nærri lagi.

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur


Hafa samband