Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Talsverður vöruskiptahalli en vaxandi ferðamannatekjur á fyrsta ársfjórðungi

Fyrsti ársfjórðungur skilaði talsverðum vöruskiptahalla en líklega vó afgangur af þjónustuviðskiptum hann upp að stórum hluta. Horfur eru á metári í tekjum ferðaþjónustunnar. Betra jafnvægi á utanríkisviðskiptum þegar líður á árið minnka líkur á að gjaldeyrisútflæði vegna viðskiptahalla veiki krónuna á nýjan leik.


Mars var myndarlegur ferðamannamánuður hér á landi. Alls flugu 161 þúsund erlendir farþegar frá landinu um Keflavíkurflugvöll í mánuðinum og hafa farþegar í mars aðeins þrisvar verið fleiri, árin 2017-2019. Líkt og undanfarna mánuði voru Bretar flestir meðal ferðafólks hér á landi (24% af heild). Bandaríkjamenn voru tæpur fimmtungur heildarfjöldans, næstir komu Þjóðverjar (7%), Pólverjar (6%), Ítalir og Frakkar (5% hvor þjóð).

Verður 2023 metár í ferðaþjónustutekjum?

Frá áramótum hafa rúmlega 419 þúsund erlendir ferðamenn sótt landið heim um Keflavíkurflugvöll. Er það 87% af fjöldanum eins og hann varð mestur á fyrsta fjórðungi ársins, en það var árið 2018. Til gamans má geta þess að í þjóðhagsspá okkar í febrúarbyrjun spáðum við því að erlendir ferðamenn á þennan mælikvarða yrðu ríflega 418 þúsund á fyrsta fjórðungi. Munar því innan við þúsund farþegum á spá okkar fyrir þetta tímabil og rauntölum.

Útlitið er gott fyrir ferðaþjónustuárið 2023. Spurn eftir Íslandsferðum er mikil, áhyggjuefni á borð við áhrif versnandi efnahags á ferðavilja til landsins hafa ekki raungerst og framboð flugs og sjóferða með skemmtiferðaskipum er með mesta móti í sögulegu tilliti. Fátt bendir því til annars en að spá okkar um fjölda ferðafólks á bilinu 2,1 – 2,2 milljónir í ár gangi eftir og líklega verðum við í efri helmingi þess bils þegar öll kurl eru komin til grafar. Greinin gæti sem best skilað andvirði 600 ma.kr. í gjaldeyristekjum þetta ár og væri það sögulegt met.

Talsverður halli á vöruskiptum í ársbyrjun

Miklar sveiflur hafa verið á vöruskiptajöfnuði síðustu mánuðina. Eftir methalla síðasta haust dró verulega úr hallanum í kring um áramótin. Undanfarna tvo mánuði hefur hallinn hins vegar aukist á nýjan leik. Nam hann tæpum 25 ma.kr. í febrúar og samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar var vöruskiptahallinn í mars rúmir 27 ma.kr. Það er mesti vöruskiptahalli frá því í nóvember síðastliðnum.

Vöruinnflutningur í mars nam tæpum 116 ma.kr. og hefur ekki verið meiri síðan í nóvember í fyrra. Reiknað á föstu gengi krónu jókst vöruinnflutningur um tæp 8% milli ára. Mikill innflutningur skrifast ekki síst á myndarlegan innflutning fjárfestingarvara og flutningatækja, bæði fólksbíla og stærri ökutækja, sem og talsvert mikinn innflutning á eldsneyti, ekki síst flugvélaeldsneyti. Má segja að það sé heppilegri þróun en stundum undanfarin misseri þegar mikil aukning í innfluttum neysluvörum var helsta ástæða innflutningsvaxtar.

Til að mynda skýrist aukning í innfluttum fólksbílum milli ára á fyrsta fjórðungi að langmestu leyti af 32% aukningu í kaupum bílaleiga á nýjum bifreiðum á meðan kaup einstaklinga á nýjum bifreiðum skruppu saman um ríflega 6% á sama tíma samkvæmt tölum Bílgreinasambandsins.

Vöruútflutningur nam ríflega 88 ma.kr. í mars og skrapp saman um tæp 2% milli ára reiknað á föstu gengi. Skrifast samdrátturinn milli ára ekki síst á minni útflutning áls, ýmissa annarra iðnaðarvara og afurða fiskeldis. Á móti jókst útflutningur á sjávarafurðum talsvert milli ára.

Verulega hefur hægt á vexti bæði vöruinnflutnings og -útflutnings undanfarið eftir býsna hraðan vöxt frá vordögum 2021 fram á síðasta haust. Á fyrsta fjórðungi þessa árs nam vöxtur útflutnings tæpri prósentu frá sama tíma í fyrra, reiknað á föstu gengi. Á sama mælikvarða jókst innflutningur hins vegar um ríflega 10% á tímabilinu.

Halli á utanríkisviðskiptum framan af ári en betri tíð í vændum

Miðað við fyrirliggjandi vísbendingar um vöru- og þjónustuviðskipti hefur halli á slíkum viðskiptum trúlega verið allnokkur á fyrsta fjórðungi þessa árs, þótt líklega hafi hann verið talsvert minni en á lokafjórðungi síðasta árs þegar samanlagður halli á vöru- og þjónustuviðskiptum nam tæplega 62 ma.kr.

Vöruskiptahalli á fjórðungnum var 67 ma.kr. miðað við bráðabirgðatölur Hagstofunnar. Er það svipaður halli og var á 3. ársfjórðungi í fyrra. Áætlun okkar um þjónustuviðskipti, sem m.a. byggir á farþegatölum, kortaveltugögnum og fleiri hagvísum, bendir til þess að afgangur af slíkum viðskiptum hafi verið í námunda við 45 ma.kr. á tímabilinu. Miðað við það var líklega ríflega 20 ma.kr. halli á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd á fyrsta fjórðungi.

Við spáðum því í þjóðhagsspá okkar í febrúarbyrjun að viðskiptajöfnuður á árinu í heild gæti reynst í kring um 1,4% af vergri landsframleiðslu (VLF). Það samsvarar u.þ.b. 57 ma.kr. en til samanburðar var viðskiptahalli í fyrra 58 ma.kr. Trúlega mun hallinn að mestu verða bundinn við fyrri helming ársins og gæti viðskiptaafgangur reynst nokkur á seinni árshelmingi, ekki síst í ljósi þess hversu ferðaþjónustutekjur á háönn líta út fyrir að verða myndarlegar. Utanríkisviðskipti verða því líklega síður dragbítur á gengi krónu eftir því sem lengra líður á árið.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband