Rúmlega fimmföld eftirspurn var eftir þeim hlutum sem boðnir voru í áskriftarbók A og rúmlega þreföld eftirspurn var eftir hlutum sem boðnir voru í áskriftarbók B.
- Heildarfjöldi seldra hluta í útboðinu nam alls 118.923.851 hlutum og heildarsöluandvirði útboðsins nam tæplega 18 milljörðum króna.
- Í áskriftarbók A er útboðsgengi 135 kr. á hlut. Áskriftir upp að 500 þúsund krónum að kaupverði voru ekki skertar. Skerðing áskrifta var að öðru leyti hlutfallsleg.
- Í áskriftarbók B er endanlegt útboðsgengi 155 kr. á hlut. Skerðing áskrifta var í samræmi við skilmála útboðsins. Fjárfestar sem tilgreindu lægra útboðsgengi fengu ekki úthlutun.
- Seldir voru 39.667.919 eigin hlutir. Útistandandi hlutir Ísfélags í kjölfar útboðs nema 818.612.313 hlutum.
Seldir hlutir í áskriftarbók A nema 23.784.770 hlutum að söluandvirði um 3,2 milljarða króna. Við úthlutun voru áskriftir almennt skertar sem nemur um 97% en þó þannig að viðmiðum gagnvart áskriftum starfsmanna Ísfélags og almennum áskriftum var fylgt, líkt og stefnt var að samkvæmt skilmálum útboðsins. Seldir hlutir í áskriftarbók B nema 95.139.081 hlutum að söluandvirði um 14,8 milljarða króna. Áskriftir á útboðsgengi í áskriftarbók B voru skertar hlutfallslega sem nemur um 48%.
Fjárfestum verður tilkynnt um úthlutun í útboðinu eigi síðar en 4. desember í tölvupósti. Gjalddagi áskriftarloforða er 6. desember næstkomandi og er ráðgert að afhending hinna nýju hluta til fjárfesta fari fram þann 8. desember.
Stefnt er að því að viðskipti með hlutabréf félagsins á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland hf. hefjist þann 8. desember næstkomandi, en Nasdaq Iceland hf. hefur samþykkt umsókn félagsins um töku hlutabréfanna til viðskipta með fyrirvara um dreifingu hlutafjár fyrir fyrsta viðskiptadag.
Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og Landsbankinn hf. höfðu umsjón með almenna útboðinu og töku hlutabréfa félagsins til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland hf.