Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Stýrivextir snarlækka

Stýrivextir Seðlabankans verða lægri en þeir hafa nokkurn tíma verið frá upptöku verðbólgumarkmiðs í byrjun aldarinnar. Seðlabankinn tilkynnti í morgun að peningastefnunefnd bankans hefði ákveðið að lækka stýrivexti um 0,75 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því 1,0% og hafa ekki verið lægri frá því verðbólgumarkmið var tekið upp 2001. Vextir hafa lækkað um 2,0% frá áramótum.


Einnig hættir bankinn að taka við 30 daga innbundnum innlánum í því skyni að gera miðlun peningastefnunnar virkari og stuðla að auknu lausu fé í umferð. Sú aðgerð er í raun ígildi frekari slökunar peningastefnunnar þar sem hún stuðlar væntanlega að lægra vaxtastigi til skemmri tímalengda á markaði.

Spá 80% fækkun ferðamanna í ár

Í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í Peningamálum spáir bankinn 8% samdrætti landsframleiðslu á þessu ári. Það sem vegur þyngst í ár að mati bankans er 80% fækkun ferðamanna en bankinn gerir ráð fyrir að tæplega 400 þúsund ferðamenn muni koma til landsins á árinu öllu, sem er svipaður fjöldi og var hér árið 2005. Fram kom á kynningarfundi Seðlabankans að ferðamannaspánni hefði verið lokað áður en tilkynnt var um tilslakanir á kvöðum um sóttkví erlendra ferðamanna í júní næstkomandi. Sú tilkynning hefði þó ekki breytt nærhorfunum um ferðamannafjölda til muna að mati aðalhagfræðings bankans.

Þetta er ívið dekkri spá en í uppfærðri sviðsmynd bankans sem birt var í apríl. Í dekkstu sviðsmyndinni var samdráttur í landsframleiðslu tæplega 7%. Hins vegar er þetta nokkuð í takti við þjóðhagsspá okkar þar sem við spáum 9,2% samdrætti í landsframleiðslu í ár.

Bankinn telur að skellurinn verði djúpur en stuttur og spáir 4,8% hagvexti strax á næsta ári, sem er í takti við það sem við spáum í fyrrnefndri þjóðhagsspá. Hann tekur þó fram að óvissan sé óvenju mikil og að þróun efnahagsmála ráðist af framvindu COVID veirunnar.

Verðbólga hófleg en atvinnuleysi töluvert

Verðbólgu er spáð í 2,3% að jafnaði á þessu ári. Þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi lækkað töluvert eru aðrir þættir sem lækka á móti líkt og olíuverð og matvæla- og hrávöruverð. Verðbólga er heldur meiri en í spá bankans í febrúar, en þegar áhrifin af gengislækkuninni fjara út gerir bankinn ráð fyrir að efnahagsslaki togi verðbólguna enn frekar niður og að verðbólga verði 1,7% árið 2020 og 1,6% árið 2021.

Atvinnuleysi eykst verulega í spá bankans og fer hæst á þriðja fjórðungi þessa árs í 12%. Að meðaltali verður atvinnuleysi tæplega 9% á þessu ári sem er jafnframt mesta atvinnuleysi frá upphafi mælinga. Atvinnuleysi mun svo taka að hjaðna og mælast rúmlega 7% árið 2021 og rúmlega 6% árið 2022. Í þjóðhagsspá okkar spáum við meira atvinnuleysi á þessu ári en teljum að það taki að hjaðna hraðar á en Seðlabankinn gerir ráð fyrir vegna bjartari efnahagshorfa og vera á svipuðum slóðum og fyrir COVID faraldurinn árið 2022.

Líklega síðasta vaxtalækkunarskrefið í bili

Vaxtalækkunarskrefið nú er það stærsta sem Seðlabankinn hefur tekið frá því þokkalegur stöðugleiki komst á gengis- og vaxtamál í kjölfar fjármálakreppunnar 2008-2009. Við túlkum skrefið nú þannig að peningastefnunefndin hafi viljað bregðast að fullu við breyttum horfum og eigum ekki von á frekari vaxtaaðgerðum hjá bankanum allra næstu vikur. Hins vegar gæti komið til frekari lækkunar vaxta með haustinu, sér í lagi ef lægðin í ferðaþjónustu ætlar að reynast dýpri og langvinnari en spá bankans nú gerir ráð fyrir.

Sem fyrr segir tilkynnti Seðlabankinn í morgun að hætt yrði að bjóða upp á 30 daga bundin innlán. Fram kom á kynningarfundi að þessi aðgerð væri líkleg til þess að lækka vaxtastig til skemmri tímalengda á verðbréfamarkaði og styðja þannig við lækkun stýrivaxta. Þá lagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri áherslu á að þótt skuldabréfakaup bankans á eftirmarkaði hefðu verið smá í sniðum fram að þessu væru þær aðgerðir enn á fyrstu stigum og að bankinn hefði svigrúm til að kaupa ríkisbréf fyrir allt að 150 ma.kr. það sem eftir lifði árs. Myndu slík kaup beinast að öllum óverðtryggða vaxtaferlinum og taka m.a. mið af því með hvaða hætti skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs yrði háttað. Hann taldi hins vegar ekki líklegt að Seðlabankinn myndi ráðast í beina fjármögnun á halla ríkissjóðs.

Ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hríðlækkar

Mikil viðbrögð hafa verið á skuldabréfamarkaði við tíðindum morgunsins úr Seðlabankanum. Hefur ávöxtunarkrafa bæði óverðtryggðra og verðtryggðra ríkisbréfa lækkað umtalsvert. Sem dæmi má nefna að ávöxtunarkrafa styttri ríkisbréfaflokka hefur lækkað um 29-46 punkta (hundraðshluta úr prósentu) og er krafa þeirra nú í kring um 1,5%. Til samanburðar var slík krafa í kring um 3,3% í ársbyrjun. Þá hefur raunkrafa verðtryggðra bréfa lækkað um 9-13 punkta frá opnun markaða og er krafa styttri verðtryggðra ríkisbréfa nú rétt undir 0%.

Höfundar


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband

Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband