Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Vextir og verðbólga á niðurleið með lækkandi sól

Vaxtalækkun Seðlabankans um 0,25 prósentur í morgun var í samræmi við væntingar og spár. Stýrivextir eru nú 3,75% og útlit er fyrir frekari vaxtalækkun á seinni helmingi ársins. Verðbólgan mældist 3,3% í júnímánuði og hjaðnaði um 0,3% frá mánuðinum á undan.


Vaxtalækkun Seðlabankans um 0,25 prósentur í morgun var í samræmi við væntingar og spár. Stýrivextir eru nú 3,75% og útlit er fyrir frekari vaxtalækkun á seinni helmingi ársins. Þar skiptir ekki síst máli að verðbólga er tekin að hjaðna að nýju og líklegt er að talsverður slaki muni myndast í efnahagslífinu fyrir lok ársins. Verðbólgan mældist 3,3% í júnímánuði og hjaðnaði um 0,3% frá mánuðinum á undan. Líkur eru til að verðbólga verði komin undir 3,0% fyrir árslok.

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun að stýrivextir bankans yrðu lækkaðir um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans verða því 3,75%. Ákvörðunin er í samræmi við allar opinberar spár, þar á meðal okkar spá, en einhverjar væntingar höfðu verið á markaði um enn meiri vaxtalækkun að þessu sinni. Endurspeglast það í lítilsháttar hækkun ávöxtunarkröfu óverðtryggðra ríkisbréfa við opnun markaða.

Ekki var mikið um tíðindi í yfirlýsingu peningastefnunefndar og er tónn yfirlýsingarinnar svipaður og fyrr. Að mati peningastefnunefndar eru efnahagshorfur enn í samræmi við maíspá Seðlabankans. Þar vegur salt að útlit er fyrir meiri samdrátt í ferðaþjónustu en spáð var í maí, en á móti bendir kröftugri einkaneysla á 1F og leiðandi vísbendingar um einkaneyslu til þess að þróttur innlendrar eftirspurnar sé meiri en vænst var. Nefndin telur að verðbólga hafi náð hámarki og muni hjaðna á seinni helmingi ársins. Þau nefna þó að frekari veiking krónu gæti sett strik í reikninginn.

Aðspurður um skoðun sína á þróun krónunnar og möguleg viðbrögð bankans sagði Már Guðmundsson Seðlabankastjóri að stefnan væri enn sem komið er fyrst og fremst að grípa inn í gjaldeyrismarkað þegar um væri að ræða útflæði vegna aflandskróna, óhóflegt flökt eða einskiptisflæði vegna tiltekinna stærri fjárfestinga. Í því sambandi nefndi Már hlutafjáraukningu Marel í maílok og velti því fyrir sér hvort bankinn hefði eftir á að hyggja átt að grípa inn í markaðinn þegar það stóð sem hæst. Að okkar mati hefði slíkt verið skynsamlegt enda var þar að hluta til á ferðinni hreyfing á gjaldeyrismarkaði vegna innbyrðis viðskipta innlendra aðila með hlutabréf.

Við deilum einnig þeirri skoðun Más að veiking krónunnar síðustu mánuði er ekki sérstakt áhyggjuefni enn sem komið er. Raunar hefur gengi krónu verið býsna stöðugt frá miðjum júnímánuði. Auk þess fer í hönd sá tími ársins þar sem gjaldeyrisinnflæði frá ferðaþjónustu er með allra mesta móti og verða gjaldeyristekjur greinarinnar á komandi vikum verulegar þrátt fyrir samdrátt milli ára.

Meiri vaxtalækkun í kortunum

Aðeins ein breyting er í framvirku leiðsögn nefndarinnar. Í stað „Þá munu boðaðar aðgerðir stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga leggjast á sömu sveif..“ (við að mæta samdrætti í þjóðarbúskapnum) stendur nú „Þá mun boðuð slökun í aðhaldi ríkisfjármála leggjast á sömu sveif.“ Eftir sem áður er nefnt að samspil þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar muni ráða mestu um peningastefnuna á næstunni.

Við gerum sem fyrr ráð fyrir frekari lækkun vaxta á seinni helmingi ársins. Peningastefnunefndin bendir réttilega á að lækkun verðbólguvæntinga frá síðustu vaxtaákvörðun hafi aukið aðhald peningastefnunnar á tímabilinu. Miðað við spár okkar og Seðlabankans um hjaðnandi verðbólgu á seinni helmingi ársins, á sama tíma og slaki fer að grafa um sig í efnahagslífinu, verður full ástæða til þess að slaka frekar á aðhaldinu. Gerum við ráð fyrir a.m.k. 0,5 prósentu viðbótarlækkun vaxta fyrir árslok.

Verðbólga hjaðnar á ný í júníblíðunni

Verðbólgumæling júnímánaðar, sem Hagstofan birti 5 mínútum eftir vaxtaákvörðun Seðlabankans, ætti að falla peningastefnunefndinni ágætlega í geð þar sem verðbólga er nú tekin að hjaðna á nýjan leik. Milli mánaða hækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,38%. Verðbólga mælist nú 3,4%, en var 3,6% í maí. Mæling júnímánaðar er í samræmi við birtar spár.  Við spáðum 0,4% hækkun VNV milli mánaða, en opinberar spár voru á bilinu 0,35% – 0,4% hækkun milli mánaða.

Húsnæðisliður VNV hafði minni hækkunaráhrif (0,10%) en við höfðum vænst. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis lækkaði lítillega á milli mánaða. Flutningar í lofti vógu einnig minna til hækkunar (0,11%) en við höfðum spáð. Þá lækkaði verð hjá veitingahúsum nokkuð óvænt (-0,8% í VNV). Á móti vó t.d. að tómstundir og menning (0,07% í VNV), raftækjaverð (0,06% í VNV), matur og drykkur (0,05% í VN V) og aðrar vörur og þjónusta (0,05% í VNV) hækkuðu meira en við höfðum spáð.

Við teljum að verðbólga sé búin að ná hámarki í bili og muni láta undan síga á seinni helmingi ársins. Við spáum nánast óbreyttri VNV í júlí, 0,3% hækkun í ágúst og 0,3% hækkun í september. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 3,4% í september 2019. Verðbólga mun í kjölfarið hjaðna í 2,9% í lok árs, gangi spá okkar eftir.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband