Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Stýrivextir lækkaðir um hálfa prósentu, eru nú 4%

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun að stýrivextir bankans yrðu lækkaðir um 0,50 prósentur í því skyni að bregðast við breyttum efnahags- og verðbólguhorfum. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga innlánum, eru nú 4,00%.


Stýrivextir Seðlabankans eru nú orðnir lægri en þeir hafa verið undanfarin sjö ár eftir myndarlegt vaxtalækkunarskref Seðlabankans í morgun. Efnahagshorfur hafa breyst verulega til hins verra að mati bankans, en verðbólguhorfur aftur á móti batnað. Líklegt er að fleiri vaxtalækkunarskref verði stigin á komandi mánuðum.

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun að stýrivextir bankans yrðu lækkaðir um 0,50 prósentur í því skyni að bregðast við breyttum efnahags- og verðbólguhorfum. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga innlánum, eru nú 4,00%. Hafa 7 daga innlánavextirnir aldrei verið lægri og þeir vextir sem áður var miðað við hafa heldur ekki verið lægri frá árinu 2012.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir: „Þótt nýgerðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði feli í sér myndarlegar launahækkanir var niðurstaða þeirra í betra samræmi við verðbólgumarkmiðið en margir bjuggust við. Verðbólguvæntingar hafa því lækkað á ný en þær hækkuðu umtalsvert er leið á síðasta ár. Langtímaverðbólguvæntingar á markaði eru nú komnar undir 3%.“ Seðlabankinn lítur því fremur jákvæðum augum á nýgerða kjarasamninga og efalítið hefur minni óvissa um launaþróun í kjölfar þeirra átt sinn þátt í að liðka fyrir vaxtalækkun nú.

Spá 0,4% samdrætti í ár

Ný hagspá bankans gerir ráð fyrir 0,4% samdrætti í ár en fyrri spá bankans, sem birt var í febrúar síðastliðnum, gerði ráð fyrir 1,8% hagvexti. Þá er gert ráð fyrir 3,9% atvinnuleysi í ár að jafnaði, en það hlutfall var 3,1% í síðustu spá. Efnahagshorfur fyrir árið eru því töluvert dekkri nú að mati bankans en þær voru í febrúar síðastliðnum. Meginástæða verri efnahagshorfa er að mati bankans umtalsverð fækkun ferðamanna í kjölfar gjaldþrots WOW air en einnig vegur loðnubrestur, breyting á framlagi opinberra fjármála og verri alþjóðlegar vaxtarhorfur til lækkunar á spánni. Fyrir árið 2020 spáir bankinn 2,5% hagvexti.

Verðbólguhorfur hafa hins vegar batnað talsvert að mati Seðlabankans og spáir bankinn nú 3,2% verðbólgu að jafnaði í ár en í febrúarspánni var gert ráð fyrir 3,6% meðalverðbólgu á þessu ári. Gerir bankinn síðan ráð fyrir að verðbólga verði komin í 2,5% markmið bankans um mitt næsta ár og verði við markmið eftir það.

Að mati Seðlabankans er viðnámsþróttur þjóðarbúsins til að takast á við samdrátt umtalsvert meiri nú en áður, ekki síst vegna minni skuldsetningar innlendra aðila og sterkari erlendrar stöðu þjóðarbúsins. Núverandi mótbyr ætti því ekki að reynast hagkerfinu langvinnur dragbítur.

Frekari lækkun vaxta líkleg á árinu

Eftir sem áður teljum við líklegt að fleiri vaxtalækkunarskref verði stigin fyrir áramót. Þar vekur athygli þessi setning í yfirlýsingunni: „Svigrúm peningastefnunnar til að mæta efnahagssamdrættinum er einnig töluvert, sérstaklega ef fer sem horfir og verðbólga og verðbólguvæntingar haldast við verðbólgumarkmið.“  Aðspurður um þetta sló Seðlabankastjóri að mati okkar þann tón að lækkun vaxta væri vel möguleg svo lengi sem skammtímaþróun í hagkerfinu reyndist ekki verulega hagfelldari en spáð er og verðbólguvæntingar héldust hóflegar eða lækkuðu helst enn frekar.

Við teljum líklegt að vextir verði lækkaðir aftur strax í næsta mánuði og gerum við ráð fyrir 0,25 prósentu lækkun þá. Við gerum síðan ráð fyrir einu eða tveimur 0,25 prósentu viðbótarskrefum til lækkunar á seinni helmingi ársins. Gangi spáin eftir verða stýrivextir komnir í 3,25 - 3,50% í árslok og hafa þá ekki áður verið lægri frá því núverandi fyrirkomulag peningamála var tekið upp árið 2001.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband