Verðbólguhorfur hafa hins vegar batnað talsvert að mati Seðlabankans og spáir bankinn nú 3,2% verðbólgu að jafnaði í ár en í febrúarspánni var gert ráð fyrir 3,6% meðalverðbólgu á þessu ári. Gerir bankinn síðan ráð fyrir að verðbólga verði komin í 2,5% markmið bankans um mitt næsta ár og verði við markmið eftir það.
Að mati Seðlabankans er viðnámsþróttur þjóðarbúsins til að takast á við samdrátt umtalsvert meiri nú en áður, ekki síst vegna minni skuldsetningar innlendra aðila og sterkari erlendrar stöðu þjóðarbúsins. Núverandi mótbyr ætti því ekki að reynast hagkerfinu langvinnur dragbítur.
Frekari lækkun vaxta líkleg á árinu
Eftir sem áður teljum við líklegt að fleiri vaxtalækkunarskref verði stigin fyrir áramót. Þar vekur athygli þessi setning í yfirlýsingunni: „Svigrúm peningastefnunnar til að mæta efnahagssamdrættinum er einnig töluvert, sérstaklega ef fer sem horfir og verðbólga og verðbólguvæntingar haldast við verðbólgumarkmið.“ Aðspurður um þetta sló Seðlabankastjóri að mati okkar þann tón að lækkun vaxta væri vel möguleg svo lengi sem skammtímaþróun í hagkerfinu reyndist ekki verulega hagfelldari en spáð er og verðbólguvæntingar héldust hóflegar eða lækkuðu helst enn frekar.
Við teljum líklegt að vextir verði lækkaðir aftur strax í næsta mánuði og gerum við ráð fyrir 0,25 prósentu lækkun þá. Við gerum síðan ráð fyrir einu eða tveimur 0,25 prósentu viðbótarskrefum til lækkunar á seinni helmingi ársins. Gangi spáin eftir verða stýrivextir komnir í 3,25 - 3,50% í árslok og hafa þá ekki áður verið lægri frá því núverandi fyrirkomulag peningamála var tekið upp árið 2001.