Seðlabankinn tilkynnti í morgun að stýrivextir bankans yrðu lækkaðir um 0,25%. Vextirnir verða því 3,25% og hafa aldrei verið lægri frá því verðbólgumarkmið var tekið upp. Spár höfðu ýmist hljóðað upp á óbreytta vexti eða lækkun, og höfðum við spáð óbreyttum vöxtum nú en lækkun í næsta mánuði.
Lægstu stýrivextir á öldinni og frekari lækkun líkleg
Stýrivextir Seðlabankans eru nú orðnir lægri en þeir hafa verið frá því verðbólgumarkmið var tekið upp í byrjun aldarinnar. Þótt vextir hafi þegar verið lækkaðir um 1,25 prósentur frá ársbyrjun er líklegt að vextirnir muni lækka frekar fyrir áramót.
Efnahagshorfur versna en verðbólguhorfur batna
Peningastefnunefndin nefnir að horfur séu á að verðbólga hjaðni enn hraðar en Seðlabankinn spáði í ágúst. Það er áhugavert í ljósi þess að ágústspáin hljóðaði upp á að verðbólga yrði komin í markmið um mitt næsta ár. Spáin þeirra virðist því vera að færast nær spá okkar, sem hljóðar upp á að verðbólga verði komin í markmið fyrir áramót. Á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina kom fram að minna bæri á innlendum kostnaðarþrýstingi en búist hefði verið við og að verðbólga á 3. ársfjórðungi hefði reynst heldur minni en spáð var. Þá hefðu verðbólguvæntingar gengið niður, hvort sem litið væri til verðbréfamarkaðar eða svara í könnunum.
Nefndin hefur áhyggjur af efnahagshorfum framundan, ekki síst dekkri horfum erlendis og áhrifum þeirra hingað. Líkt og við bentum á í Korni nýverið gaf OECD nýlega út hagspá þar sem efnahagshorfur á heimsvísu eru taldar þær dekkstu í áratug. Vísbendingar eru að sögn nefndarmanna um að áfram muni hægja á vexti efnahagsumsvifa, þótt á móti sjáist merki um að hagkerfið sé mögulega að ná viðspyrnu. Þá benti Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri á kynningarfundinum á þá jákvæðu þróun að innlend eftirspurn beindist í auknum mæli að innlendum vörum og þjónustu. Sem dæmi um þetta hefði dregið verulega úr kaupum á varanlegum neysluvörum á borð við bifreiðar og einnig hefðu utanlandsferðum Íslendinga fækkað á milli ára ef litið væri til undanfarinna mánaða. Þetta væri til þess fallið að milda niðursveifluna á komandi fjórðungum.
Veruleg vaxtalækkun að baki...
Stýrivextir hafa nú lækkað um 1,25% frá áramótum, þar af um 0,50% frá því nýr Seðlabankastjóri settist í þann stól um miðjan ágúst. Aðspurð um hvernig horfur væru um vaxtastigið í bráð og lengd benti seðlabankastjóri á að grundvallarbreytingar hefðu orðið á íslensku hagkerfi sem leiða ættu til lægra vaxtastigs að jafnaði. Ekki síst á þetta við um ytra jafnvægi þjóðarbúsins, þar sem viðvarandi viðskiptahalli hefur vikið fyrir allmyndarlegum viðskiptaafgangi og erlendar eignir þjóðarbúsins eru talsvert meiri en skuldir þess. Einnig benti hann á að Ísland væri ekki eyland í hagfræðilegum skilningi og að lágir vextir erlendis hefðu áhrif til lækkunar vaxtastigsins hér á landi.
Einnig kom fram á fundinum að trúverðugleiki peningastefnunnar virtist vera talsverður ef marka mætti lækkandi verðbólguvæntingar. Það auðveldaði Seðlabankanum að vinna gegn hagsveiflunni með sama hætti og seðlabankar í nágrannalöndum okkar. Orðaði Seðlabankastjóri það þannig að verðlaunin fyrir það að geta fylgt verðbólgumarkmiðinu og hafa gert skynsamlega kjarasamninga væru lægri vextir en ella.
Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri benti hins vegar á að raunstýrivextir væru þegar orðnir býsna lágir. Skammtímaraunvextir hefðu um nokkurt skeið verið í kring um 0,5% og nefndarmenn vildu síður sjá þá lækka mikið meira og alls ekki fara undir núllið. Staða hagkerfisins benti ekki til þess að ástæða væri til þess að fara með raunstýrivextina þangað. Þá hefði aukinn slaki í opinberum fjármálum þau áhrif að ekki þyrfti að fara með raunstýrivexti jafn langt niður og ella hefði verið.
..en frekari vaxtalækkun líklega í pípunum
Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er að þessu sinni stuttorð, hlutlaus og raunar orðrétt sú sama og í ágúst. Hún hljóðar svo:
Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar.
Þrátt fyrir að þarna sé sleginn varfærinn tónn töldum við okkur skynja frekar mildan tón á kynningarfundinum í morgun. Með hliðsjón af því, og nýlegum spám okkar um þróun verðbólgu og efnahagslífs teljum við að ekki sé endilega búið að slá botninn í vaxtalækkunarferli Seðlabankans. Við teljum líklegt að vextir verði lækkaðir a.m.k. eitt skipti til viðbótar fyrir áramót og verði lágir út næsta ár. Óvissan er fremur á þá leið að fleiri lækkunarskref verði stigin á komandi fjórðungum.