Seðlabankinn tilkynnti í morgun þá ákvörðun peningastefnunefndar að hækka stýrivexti bankans um 0,5%. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því 6,5%. Svo háir hafa vextirnir ekki verið síðan á 3. ársfjórðungi 2010. Hækkunin var í samræmi við birtar spár og nýlegar væntingakannanir. Við spáðum 0,5 prósenta hækkun en útilokuðum ekki 0,25 prósenta skref. Stýrivextir hafa nú samtals hækkað um 5,75 prósentur frá því vaxtahækkunarferli bankans hófst í maí 2021.
Stýrivextir hækkaðir um hálfa prósentu og frekari vaxtahækkun líkleg
Stýrivextir Seðlabankans verða 6,5% eftir hækkun þeirra um 0,5 prósentur í morgun. Stjórnendur Seðlabankans segja mikla hækkun launa í nýgerðum kjarasamningum og ónógt aðhald hins opinbera meðal áhrifaþátta á vaxtahækkun nú. Sleginn er allharður tónn í yfirlýsingu peningastefnunefndar og líklega er frekari hækkun stýrivaxta framundan.
Tónninn hertur í peningastefnunefnd
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar í morgun kom fram að þótt tekið hafi að hægja á húsnæðismarkaði og alþjóðleg verðbólga hafi minnkað lítillega er verðbólguþrýstingur enn mikill og verðhækkanir á breiðum grunni. Verðbólguhorfur hafi versnað frá síðasta fundi nefndarinnar og þótt verðbólga hafi líklega náð hámarki tekur lengri tíma að ná henni niður í verðbólgumarkmið bankans en áður var talið.
Lakari verðbólguhorfur skýrast að mati nefndarinnar einkum af því að nýgerðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði fela í sér töluvert meiri launahækkanir en þá var gert ráð fyrir. Einnig hefur gengi krónunnar lækkað og útlit er fyrir meiri framleiðsluspennu á spátímanum. Þá er útlit fyrir að aðhald fjárlaga verði minna en gert var ráð fyrir í nóvemberspá bankans þrátt fyrir að dragi úr hallarekstri ríkissjóðs í ár. Verðbólguvæntingar til lengri tíma eru enn vel yfir markmiði og raunvextir bankans hafa lækkað frá síðasta fundi.
Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er gerbreytt frá nóvemberyfirlýsingu nefndarinnar. Hún er stutt og laggóð og tónninn talsvert harðari en áður.
Hún hljóðar svo:
Peningastefnunefnd telur líklegt að auka þurfi aðhaldið enn frekar á næstunni til þess að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma.
Við minnumst þess ekki í seinni tíð að hafa séð svo knappa framsýna leiðsögn. Öfugt við síðustu yfirlýsingar er ekkert tekið fram um mögulega áhrifaþætti á peningastefnuna til skemmri tíma litið. Því teljum við líklegt að frekari hækkun stýrivaxta sé fram undan á komandi mánuðum.
Hagvöxtur minnkar lítillega á spátímanum
Ný hagspá var birt í Peningamálum samhliða stýrivaxtaákvörðuninni. Vegna meiri aukningar einkaneyslu og hagstæðari utanríkisviðskipta áætlar Seðlabankinn að hagvöxtur hafi verið 7,1% á nýliðnu ári sem er nokkru meiri vöxtur en í síðustu spá þeirra en svipaður og Greining Íslandsbanka áætlar. Aftur á móti lækkar Seðlabankinn lítillega hagvaxtarspá sína fyrir þetta og næstu ár vegna versnandi horfa í vexti einkaneyslu og utanríkisviðskiptum. Samkvæmt spá þeirra verður hagvöxtur 2,6% í ár, 2,5% árið 2024 og 2,1% árið 2025.
Hagvaxtarspá Seðlabankans er nokkuð svartsýnni en nýútgefin þjóðhagsspá okkar. Við spáum 3,4% hagvexti bæði í ár og á næsta ári. Helsti munur er að við gerum ráð fyrir aðeins meiri fjárfestingu á tímabilinu auk meiri vaxtar í útflutningi.
Seðlabankinn er einnig svartsýnni en við um horfur á vinnumarkaði. Í Peningamálum segir að gert sé ráð fyrir hægari fjölgun vinnustunda á spátímanum og að atvinnuleysi aukist því meira en spáð fyrir í nóvember. Spáð er að atvinnuleysi samkvæmt Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar verði 4% í ár en verði komið í 4,6% í lok spátímans og að skráð atvinnuleysi muni þróast með svipuðum hætti.
Við í Greiningu Íslandsbanka spáum einungis fyrir skráðu atvinnuleysi en gerum ráð fyrir að það verði lægra en Seðlabankinn. Við spáum að meðaltalsatvinnuleysi verði 3,3% á þessu ári og muni svo aukast lítillega á næsta ári samhliða minni spennu á vinnumarkaði. Hafa verður í huga að um tvo mismunandi mælikvarða er að ræða, vinnumarkaðskönnun Hagstofu annars vegar og skráð atvinnuleysi hins vegar, en alla jafna hreyfast þessir mælikvarðar í sama takti.
Verðbólguhorfur hafa versnað
Útlit er fyrir að verðbólga verði meiri og þrálátari á bæði þessu og næsta ári samkvæmt spá Seðlabankans. Bankinn spáir því að verðbólga verði 7,2% að jafnaði á þessu ári og 4,2% á því næsta sem er talsvert svartsýnna en þau gerðu ráð fyrir í nóvemberspánni. Verri verðbólguhorfur endurspegla mun meiri hækkun launakostnaðar en gert var ráð fyrir auk þess sem lægra gengi krónu spilar stóra rullu. Það sem vegur hins vegar á móti er að húsnæðismarkaður hefur hægt á sér og alþjóðleg verðbólga minnkað hraðar en áætlað var.
Nýjasta verðbólguspá Seðlabankans er í svipuðum takti og okkar spá þar sem gert er ráð fyrir nokkuð hraðri verðbólguhjöðnun næsta kastið. Við erum þó aðeins svartsýnni varðandi verðbólguna næstu tvö árin og spáum 7,6% verðbólgu að jafnaði á þessu ári og 4,5% á því næsta.
Er Seðlabankinn einn á verðbólguvaktinni?
Á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina nefndi Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að flest hefði lagst gegn bankanum í verðbólguhorfunum frá nóvemberfundi peningastefnunefndar. Til að mynda hefði hækkun launa í nýgerðum kjarasamningum verið talsvert meiri og samningarnir framhlaðnari en bankinn hafði áætlað. Nú væru skammtíma kjarasamningar gengnir í gildi á stórum hluta almenna vinnumarkaðarins og liti hann svo á að þeir gæfu bankanum glugga til að ná niður verðbólgu það sem eftir lifði þessa árs.
Þessi ummæli koma okkar raunar nokkuð á óvart þar sem stjórnendur bankans höfðu slegið talsvert jákvæðari tón í ummælum um kjarasamningana fyrst eftir að þeir voru í höfn. Þá teljum við að niðurstaða samninganna breyti ekki verðbólguhorfum þetta árið í jafn miklum mæli og Seðlabankinn metur. Vissulega er þó hækkun launa samkvæmt samningunum talsvert meiri en samrýmist verðstöðugleika enda mun hækkandi launakostnaður vega hlutfallslega þyngra í verðbólgunni á komandi misserum að okkar mati en raunin hefur verið undanfarið.
Auk þess væri aðhald hins opinbera minna en ráðgert hefði verið og því hefði Seðlabankinn minni stuðning frá öðrum helstu hagstjórnaraðilum við stjórn peningamálanna. Þá hefði þjóðhagslegur sparnaður minnkað, bæði hjá einkageiranum og hinu opinbera, og mikilvægt væri að stuðla að því að hann hækkaði á nýjan leik.
Frekari hækkun vaxta líkleg
Sem fyrr segir snerist hin stuttaralega framsýna leiðsögn peningastefnunefndar alfarið um þörf á auknu peningalegu aðhaldi. Það er því erfitt að álykta annað en að frekari hækkun stýrivaxta sé í kortunum á komandi mánuðum nema því aðeins að verðbólga lækki umtalsvert og/eða verðbólguhorfur breytist verulega til hins betra.
Bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir því að stýrivextir hækki að minnsta kosti um 0,5 prósentur til viðbótar. Mun sú hækkun annað hvort koma í einu vaxtahækkunarskrefi á næsta vaxtaákvörðunarfundi í lok mars, eða með tveimur skrefum þar sem 0,25 prósenta hækkun yrði tilkynnt í marslok og aftur um miðjan maí. Stýrivextir gætu því náð hámarki í 7,0% með vorinu. Verði þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga óhagfelldari en við áætlum gætu vextirnir á endanum hækkað meira. Það veltur svo á því hvort Seðlabankanum tekst að nýta gluggann sem Ásgeir minntist á til þess að koma verðbólgu umtalsvert á bataveg hvort bankinn ræðst í að lækka vexti fyrir áramót eða hvort lækkunarferlið bíður næsta árs.