Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Stýrivextir fara hækkandi víðar en á Íslandi

Stýrivextir hafa þegar verið hækkaðir allvíða erlendis til að bregðast við versnandi verðbólguhorfum og batnandi efnahag. Útlit er fyrir áframhaldandi hert aðhald í mörgum af helstu seðlabönkum heims.


Undanfarið hefur talsverð umræða verið um að Seðlabanki Íslands sé í fámennum hópi banka um að herða aðhald peningamála. Raunveruleikinn er þó nokkuð annar enda hafa breyttar verðbólguhorfur og batnandi efnahagshorfur á undanförnum fjórðungum breytt verulega sýn stjórnenda margra seðlabanka á hæfilegt aðhaldsstig peningamála.

Af helstu seðlabönkum heims hafa 13 (af 29) hækkað vexti frá áramótum. Hækkunarskrefin hafa verið allt frá 0,25 prósentum upp í 2,0 prósentur. Í síðarnefnda tilvikinu er reyndar um að ræða Argentínu þar sem óðaverðbólga ríkir um þessar mundir en víða í viðkomandi löndum er verðbólgustigið þó meira í ætt við stöðuna hér á landi.

Af framangreindum hópi seðlabanka hefur aðeins einn, sá kínverski, lækkað vexti það sem af er ári. Þá má nefna að seðlabankar Nýja Sjálands og Noregs hækkuðu vexti í lok síðasta árs þótt ekki hafi orðið breyting á vöxtum í þessum löndum frá áramótum.

Hækkunarferli í startholunum

Ef við lítum á stöðu og horfur meðal nokkurra helstu seðlabankanna er Seðlabanki BNA, Federal Reserve, þegar farinn að draga verulega úr magnbundinni íhlutun sem falist hefur í stórfelldum skuldabréfakaupum undanfarin misseri. Búist er við fyrstu hækkun hjá bankanum í mars og samkvæmt samantekt Reuters á spám á markaði er þess helst vænst að vextir verði þá hækkaðir um 0,5 prósentur. Í kjölfarið er búist við vaxtahækkunarferli sem stendur a.m.k. fram yfir mitt ár 2023.

Seðlabanki Bretlands hefur þegar hækkað stýrivexti um 0,4 prósentur í tveimur skrefum undanfarna mánuði. Stýrivextir í Bretlandi eru nú 0,5% og samkvæmt samantektarspánni mun hækkunarferlið halda áfram þar á bæ næstu misserin.

Ef litið er til Norðurlandanna er seðlabanki Noregs farinn að hækka vexti líkt og sá íslenski þótt hækkunin sé vissulega talsvert hóflegri. Tvö hækkunarskref hafa þegar verið stigin og stýrivextir í Noregi eru nú 0,5%. Frekari hækkun er á leiðinni samkvæmt spám Reuters:

Eftir standa hins vegar ýmsir stórir seðlabankar á borð við ECB á evrusvæðinu (og fylgitungl hans danski seðlabankinn), sænska Riksbank, seðlabanka Sviss og bankann í Japan sem ekki er búist við að hækki vexti á næstunni. Það þýðir hins vegar ekki alltaf að peningalegt aðhald sé óbreytt frá þeim mikla slaka sem réði ríkjum meðan faraldurinn stóð sem hæst. Til að mynda er ECB að draga jafnt og þétt úr magnbundinni íhlutun á komandi fjórðungum. Sú íhlutun felst í stórfelldum skuldabréfakaupum, hefur þau áhrif að þrýsta niður langtímavöxtum og þegar dregið er úr slíkum aðgerðum hefur það að mörgu leyti sambærileg áhrif við hækkun stýrivaxta. Þótt væntingar flestra spáaðila séu um óbreytta vexti eru farnar að birtast stöku spár um að jafnvel ECB hækki vexti fyrir áramót ef verðbólga hjaðnar ekki hratt að nýju á svæðinu.

Veður hafa því skiptst æði skjótt í vaxtahorfum enda fara líkur vaxandi á að verðbólga gæti orðið þrálátari á heimsvísu en almennt var búist við fyrir fáeinum mánuðum. Má segja að þar sé að vissu leyti um heilbrigðismerki að ræða þar sem sá hluti verðbólgunnar sem lífseigastur gæti orðið helgast ekki síst af væntingum um eftirspurnarþrýsting eftir vörum og þjónustu, minnkandi slaka á vinnumarkaði, öllu hraðari takti í hækkun launa og ámóta þáttum fremur en tímabundinni röskun á framleiðsluferlum og flutningsleiðum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband