Eftir standa hins vegar ýmsir stórir seðlabankar á borð við ECB á evrusvæðinu (og fylgitungl hans danski seðlabankinn), sænska Riksbank, seðlabanka Sviss og bankann í Japan sem ekki er búist við að hækki vexti á næstunni. Það þýðir hins vegar ekki alltaf að peningalegt aðhald sé óbreytt frá þeim mikla slaka sem réði ríkjum meðan faraldurinn stóð sem hæst. Til að mynda er ECB að draga jafnt og þétt úr magnbundinni íhlutun á komandi fjórðungum. Sú íhlutun felst í stórfelldum skuldabréfakaupum, hefur þau áhrif að þrýsta niður langtímavöxtum og þegar dregið er úr slíkum aðgerðum hefur það að mörgu leyti sambærileg áhrif við hækkun stýrivaxta. Þótt væntingar flestra spáaðila séu um óbreytta vexti eru farnar að birtast stöku spár um að jafnvel ECB hækki vexti fyrir áramót ef verðbólga hjaðnar ekki hratt að nýju á svæðinu.
Veður hafa því skiptst æði skjótt í vaxtahorfum enda fara líkur vaxandi á að verðbólga gæti orðið þrálátari á heimsvísu en almennt var búist við fyrir fáeinum mánuðum. Má segja að þar sé að vissu leyti um heilbrigðismerki að ræða þar sem sá hluti verðbólgunnar sem lífseigastur gæti orðið helgast ekki síst af væntingum um eftirspurnarþrýsting eftir vörum og þjónustu, minnkandi slaka á vinnumarkaði, öllu hraðari takti í hækkun launa og ámóta þáttum fremur en tímabundinni röskun á framleiðsluferlum og flutningsleiðum.