Stýrivextir Seðlabankans verða lægri en þeir hafa nokkurn tíma verið frá upptöku verðbólgumarkmiðs í byrjun aldarinnar. Seðlabankinn tilkynnti í morgun að peningastefnunefnd bankans hefði ákveðið að lækka stýrivexti um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því 2,75% og hafa ekki verið lægri frá því verðbólgumarkmið var tekið upp 2001. Frá maí hafa vextir Seðlabankans samtals verið lækkaðir um 1,75 prósentur en þeir voru 4,5% fyrir ári síðan.
Stýrivextir aldrei lægri
Seðlabankinn lækkaði stýrivexti í því skyni að bregðast við versnandi efnahagshorfum og batnandi verðbólguhorfum. Hafa vextir bankans aldrei verið lægri það sem af er öldinni. Líklegt er að frekari slökun fjármálalegra skilyrða þurfi til að komandi mánuðum.
Svartsýnni á hagvöxt en bjartsýnni á verðbólgu
Yfirlýsing nefndarinnar er fremur stutt og laggóð í þetta skiptið en tekið er fram að að hagvaxtarhorfur fyrir þetta og næsta ár versna í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt var samhliða ákvörðuninni í morgun. Þjóðhagsspá bankans, sem birt er í Peningamálum, hljóðar upp á 0,8% hagvöxt í ár og 2,4% vöxt á næsta ári. Verðbólgu er spáð í 1,9% í ár og 2,1% á næsta ári. Til samanburðar hljóðaði síðasta spá bankans upp á 1,6% vöxt í ár og 2,9% á næsta ári á meðan verðbólguspáin var upp á 2,3% meðalverðbólgu í ár og 2,2% á næsta ári. Nýja spáin er því svartsýnni á hagvöxt og bjartsýnni á verðbólgu en fyrri spá. Lakari efnahagshorfur má fyrst og fremst rekja til erfiðari stöðu útflutningsatvinnugreina og versnandi fjármögnunarskilyrða innlendra fyrirtækja.
Hvað verðbólgu varðar kom fram á kynningarfundi í Seðlabankanum að ekki aðeins væri mæld verðbólga nú undir markmiði bankans heldur væru í raun allir metlar á verðbólgu og verðbólguvæntingar í samræmi við markmiðið. Það er gleðileg breyting frá fyrri tíð þar sem verðbólguskot í kjölfar gengisfalls hafði oftast mun langvinnari áhrif á væntingar og verðbólguþróun í kjölfarið. Þessi breyting gerir peningastefnuna áhrifaríkari og eykur svigrúm hennar.
Slökun felst í fleiru en vaxtalækkun
Taumhald peningastefnunnar, eins og það endurspeglast í raunvöxtum bankans, hefur heldur aukist undanfarið með hjaðnandi verðbólgu og stöðugri verðbólguvæntingum. Hækkun vaxtaálags á lánsfjármögnun fyrirtækja hefur aukið taumhaldið enn frekar. Á sama tíma virðist vera þörf fyrir meiri slaka í peningastefnunni en áður ef eitthvað er að okkar mati. Ný spá Seðlabankans um atvinnuleysi er svartsýnni en fyrri spá og hljóðar upp á 4,2% atvinnuleysi í ár og 3,7% að tveimur árum liðnum. Að sama skapi er gert ráð fyrir meiri framleiðsluslaka næstu misserin en áður.
Þá hlýtur spá um talsvert minni atvinnuvegafjárfestingu en áður að toga í sömu átt enda hefur vaxtastigið umtalsverð áhrif á vilja og getu til fjárfestingar á hverjum tíma. Það er því ekki útilokað að frekari lækkun stýrivaxta muni koma til fyrir mitt þetta ár. Í því sambandi var einnig áhugavert að Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri nefndi á kynningarfundinum að vel kæmi til greina að beita efnahagsreikningi bankans í ríkari mæli ef horfur versnuðu frekar, t.a.m. með slökun bindiskyldu á fjármálastofnanir og/eða breyttum lausafjárreglum.
Að því sögðu er vandséð hvernig það fer farsællega saman að auka slaka peningastefnunnar frekar án þess að til komi einhver slökun á þjóðhagsvarúðartækjum og öðru í regluramma fjármálafyrirtækja sem hindrar þau í að miðla lágum grunnvöxtum til heimila og fyrirtækja. Nú þegar hagstjórnarviðbrögð hins opinbera og Seðlabankans virðast loks ganga í takt og heimili og fyrirtæki virðast hafa sýnt talsvert meiri ráðdeild í aðdraganda niðursveiflunnar er það að mati okkar til óþurftar að þriðja hagstjórnarhjólið, þjóðhagsvarúðin, sé enn að ýta í gagnstæða átt.