Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Stýrivaxtahækkun vegna verri verðbólguhorfa og batnandi efnahags

Vaxtahækkun Seðlabankans um 0,75 prósentur var í samræmi við væntingar. Versnandi verðbólguhorfur á sama tíma og efnahagshorfur eru tiltölulega hagfelldar vógu þungt í ákvörðuninni nú en vísbendingar um kólnun á íbúðamarkaði og stuttur tími milli vaxtaákvörðunarfunda skýra líklega að vaxtahækkunin var ekki meiri. Stýrivextir munu líklega verða að minnsta kosti 6% í árslok.


Seðlabankinn tilkynnti í morgun þá ákvörðun peningastefnunefndar að hækka stýrivexti bankans um 0,75%. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því 5,5%. Svo háir hafa vextirnir ekki verið síðan í ágúst árið 2016. Hækkunin var í samræmi við birtar spár og miðgildi væntinga markaðsaðila.

Stýrivextir hafa nú samtals hækkað um 4,75 prósentur frá því vaxtahækkunarferli bankans hófst í maí 2021, þar af um 2,75 prósentur frá byrjun þessa árs.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar þar sem vaxtaákvörðunin er rökstudd kemur meðal annars fram að horfur séu á meiri hagvexti í ár en áður var talið, ekki síst vegna þróttmeiri einkaneyslu og hraðari bata í ferðaþjónustu en vænst var. Slaki hafi minnkað jafnt og þétt á vinnumarkaði og meiri spenna hafi myndast í þjóðarbúinu en áætlað var í maíspá Seðlabankans.

Þá hefðu verðbólguhorfur haldið áfram að versna, sem endurspeglaði kröftugri umsvif í þjóðarbúskapnum en gert var ráð fyrir í maí og þrálátari hækkanir á húsnæðismarkaði auk meiri alþjóðlegrar verðbólgu. Verðbólguvæntingar hefðu einnig haldið áfram að hækka á flesta mælikvarða.

Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er óbreytt frá síðustu yfirlýsingu nefndarinnar í júní og er sem fyrr sleginn allharður tónn varðandi komandi fjórðunga. Hún hljóðar svo:

Peningastefnunefnd telur líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara.

Allgóðar efnahagshorfur...

Sem fyrr segir telur Seðlabankinn nú horfur á meiri hagvexti á yfirstandandi ári en í síðustu hagspá bankans sem kom út í maí. Á móti spáir bankinn nú heldur minni vexti á næsta og þarnæsta ári, ekki síst þar sem efnahagshorfur á heimsvísu hafi versnað nokkuð. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að hagvöxtur mælist 5,9% í ár, 1,9% á næsta ári en 2,3% árið 2024. Líkt og við höfum áætlað gerir bankinn ráð fyrir að vöxtur verði í vaxandi mæli drifinn af útflutningi en framlag neyslu og fjárfestingar verði mun minna á komandi árum en á þessu ári og raunar því síðasta líka.

Á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina benti Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á að staða Íslands hvað efnahagshorfur varðar væri um margt öfundsverð. Hér hefði atvinnulífið tekið hraðar við sér en óttast var, atvinnuástand væri gott og vaxtarhorfur betri en víða í nágrannalöndum. Hækkandi vextir væru ekki eingöngu afleiðing af verri verðbólguhorfum heldur endurspegluðu líka bata hagkerfisins og ört minnkandi slaka í efnahagslífinu. Rifjaði hann upp að væntingar um mjög krappan efnahagssamdrátt vegna faraldursins hefðu ekki gengið eftir og að spár Seðlabankans hefðu jafnt og þétt verið uppfærðar til meiri vaxtar undanfarið.

Lítilsháttar breyting hefur orðið á spá Seðlabankans um atvinnuleysi frá því í maí. Að hluta til endurspeglar hún hraðari hjöðnun atvinnuleysis undanfarna mánuði en vænst var en á móti býst bankinn nú við heldur meira atvinnuleysi á komandi árum en áður. Munurinn er þó ekki mikill og eftir sem áður eru horfurnar allgóðar fyrir vinnumarkað. Í raun er það stærri áskorun á komandi misserum að manna þau störf sem skapast eða losna fremur en að finna atvinnu fyrir vinnufúsar hendur.

...en versnandi verðbólguhorfur

Ný verðbólguspá Seðlabankans teiknar upp talsvert dekkri verðbólguhorfur en fyrri spá. Bankinn telur að verðbólga muni ná hámarki í tæplega 11% á lokafjórðungi þessa árs. Í kjölfarið muni draga jafnt og þétt úr verðbólgunni en að hún verði þó ríflega 5% að ári liðnu og rúm 3% eftir tvö ár. Til samanburðar teljum við að verðbólgan fari hæst í u.þ.b. 10% á allra næstu mánuðum.

Hluti af þessum mun virðist liggja í mismunandi væntingum til þróunar íbúðaverðs á allra næstu fjórðungum. Í Peningamálum kemur fram að ekkert lát virðist enn vera á mikill hækkun húsnæðisverðs og að grunnspá bankans geri ráð fyrir að hægja muni á hækkun húsnæðisverðs þegar kemur fram á næsta ár. Við teljum hins vegar líkur á því að á allra næstu mánuðum fari að draga nokkuð úr hækkunartaktinum. Á kynningarfundinum kom þó fram að stjórnendur bankans teldu mögulega vísbendingar vera að koma fram þessa dagana um að jafnvægi væri að batna á íbúðamarkaði.

Aðspurð um gagnrýni á vaxtahækkunarferli Seðlabankans bentu stjórnendur hans á að tilgangur vaxtahækkunar væri að ná tökum á verðbólgu sem ella gæti leikið heimili landsins grátt þegar til lengdar léti. Það væri skammgóður vermir að halda vöxtum lágum í því skyni að halda aftur af fjármagnskostnaði skuldsettra heimila ef lífskjör myndu í staðinn skerðast vegna mikillar verðbólgu. Þá var bent á að kaupmáttur lægstu launa hefði haldið áfram að aukast þótt kaupmáttarrýrnun hefði orðið undanfarið ef horft væri til meðallauna. Sem fyrr biðluðu stjórnendur bankans til stjórnvalda sem og aðila vinnumarkaðar að veita þeim liðsinni í baráttunni við verðbólgu og undir þau orð getum við heilshugar tekið.

Frekari hækkun vaxta fram að áramótum

Ljóst virðist af yfirlýsingu peningastefnunefndar og ummælum á kynningarfundinum í morgun að vaxtahækkunarferlið er ekki á enda. Seðlabankastjóri minnti á að næsta vaxtaákvörðun væri skammt undan og kann það, ásamt fyrrnefndum vísbendingum um mögulega kólnun á fasteignamarkaði, að hafa ráðið mestu um að ekki var enn stærra hækkunarskref stigið að þessu sinni. Á yfirstandandi ári eru tveir vaxtaákvörðunardagar eftir samkvæmt dagatali Seðlabankans, 5. október og 23. nóvember. Við teljum að stýrivextir bankans verði að minnsta kosti komnir í 6% í árslok. Líklegt er að því vaxtastigi verði náð eftir októberákvörðun peningastefnunefndar og hugsanlega verða vextir hækkaðir eitthvað til viðbótar í nóvember.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband