Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Stýrivaxtahækkun um hálfa prósentu líkleg í næstu viku

Við spáum 0,5 prósenta hækkun stýrivaxta á fyrsta vaxtaákvörðunardegi ársins þann 8. febrúar næstkomandi þótt hugsanlegt sé að smærra 0,25 prósenta hækkunarskref verði stigið. Versnandi skammtíma verðbólguhorfur, öllu bjartari efnahagshorfur og háar verðbólguvæntingar vega þar líklega þyngra en merki um kólnandi íbúðamarkað og hægari eftirspurnarvöxt. Stýrivextir ná líklega hámarki í 6,5% á þessum ársfjórðungi og hægfara vaxtalækkunarferli gæti byrjað á lokafjórðungi ársins.


Við spáum því að stýrivextir Seðlabankans verði hækkaðir um 0,5 prósentur við næstu vaxtaákvörðun bankans þann 8. febrúar næstkomandi. Meginvextir bankans verða þá 6,5% og þar með þeir hæstu frá 3. ársfjórðungi 2010. Talsverðar líkur eru þó á að smærra 0,25 prósenta skref verði stigið en í því tilfelli er líklega annað slíkt skref framundan í seinni hluta marsmánaðar.

Í nóvember síðastliðnum voru meðlimir peningastefnunefndar Seðlabankans sammála um að hækka stýrivexti. Tillaga Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um 0,25 prósenta hækkun var samþykkt með öllum atkvæðum en Gylfi Zoëga hefði þó fremur kosið 0,5 prósenta hækkun.

Í fundargerð vaxtaákvörðunarfundanna í nóvember kom fram að nefndarmenn töldu bæði rök fyrir því að halda meginvöxtum óbreyttum eða hækka þá um 0,25 – 0,5 prósentur. Rökstuðningurinn fyrir óbreyttum vöxtum er þó mun stuttaralegri í fundargerðinni en rökin fyrir hækkun vaxta.

Helstu rök peningastefnunefndar fyrir óbreyttum vöxtum:

  • Þótt verðbólga hefði aukist milli funda væru horfur á að hún myndi fara minnkandi.
  • Áfram hefði hægt á fasteignamarkaði þótt það virtist taka heldur lengri tíma en búist hefði verið við.
  • Enn fremur virtust vera merki um að spenna á vinnumarkaði hefði náð hámarki.

Helstu rök fyrir því að hækka vexti:

  • Enn væri talsverður kraftur í þjóðarbúskapnum.
  • Hagvaxtarhorfur fyrir næsta ár hefðu batnað töluvert, gert væri ráð fyrir meiri framleiðsluspennu en áður og að hún hjaðnaði hægar.
  • Útlit væri fyrir hraðari vöxt innlendrar eftirspurnar m.a. vegna meiri vaxtar ráðstöfunartekna undanfarið en áður var áætlað.
  • Áhyggjuefni að undirliggjandi verðbólga hefði aukist áfram og að verðhækkanir væru á svo breiðum grunni.
  • Gengi krónunnar hefði lækkað frá októberfundinum og alþjóðlegar verðbólguhorfur versnað sem að öðru óbreyttu myndi leiða til meiri innfluttrar verðbólgu.
  • Verðbólguvæntingar væru háar á alla mælikvarða og kjölfesta verðbólguvæntinga í markmiði virtist hafa veikst.
  • Talin væri meiri hætta á að verðbólgu væri vanspáð en að henni væri ofspáð.
  • Raunvextir væru enn neikvæðir og að í ljósi spennunnar á vinnumarkaði og í þjóðarbúskapnum þyrftu þeir að vera hærri.

Hér má sjá yfirlit yfir ýmsa líklega áhrifaþætti á ákvörðun peningastefnunefndarinnar í febrúar:

Við teljum að hækkunarrökin muni vega þyngra að þessu sinni þótt rökin hægra megin í töflunni muni vafalítið draga eitthvað úr vaxtahækkunarviljanum.

Hagvaxtarhorfur hafa batnað

Í nýbirtri þjóðhagsspá okkar er teiknuð upp heldur hagfelldari sýn um þróun í raunhagkerfinu en fyrri spá reiknaði með. Sér í lagi að þróttur innlendrar eftirspurnar, þ.e. neyslu og fjárfestingar, verði meiri á þessu ári en við töldum áður. Ef væntanleg hagspá Seðlabankans í Peningamálum, sem gefin verður út samhliða vaxtaákvörðuninni, teiknar upp áþekka mynd ætti það að minnka áhyggjur nefndarmanna af því að peningalegt aðhald verði óhóflega mikið þegar líður á árið.

Þá eru horfur á að vinnumarkaður verði áfram fremur spenntur næsta kastið, utanríkisviðskipti verði ekki jafn hagfelld og áður var ætlað og hækkun launa meiri en sem samrýmist verðbólgumarkmiðinu með góðu móti þetta árið.

Þó hafa tilteknir þættir þróast til betri vegar og gefa til kynna að aukið aðhald Seðlabankans sé farið að hafa talsverð áhrif. Má þar nefna íbúðaverð, sem lækkaði lítillega í nýjustu mælingu Hagstofunnar eftir hraða hækkun framan af síðasta ári. 12 mánaða taktur verðhækkunar á íbúðarhúsnæði mælist nú ríflega 18% en náði hámarki í tæpum 25% um mitt síðasta ár. Aðrar vísbendingar um þróun á íbúðamarkaði bera þess einnig merki að hann sæki nú í betra jafnvægi en verið hefur. Má þar nefna meðalsölutíma íbúða, hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði og heildarfjölda íbúða til sölu á hverjum tíma.

Einnig getur peningastefnunefndin glaðst nokkuð yfir þróun kortaveltu, sem er mikilvæg vísbending um skammtímaþróun einkaneyslu. Eftir sögulega hraðan vöxt á fyrri hluta síðasta árs hefur dregið umtalsvert úr raunvextinum og mældist hann nær enginn í desembermánuði. Hins vegar gæti neyslan tekið nokkurn vaxtarkipp á fyrstu mánuðum þessa árs í kjölfar nýlegra kjarasamninga á stórum hluta almenns vinnumarkaður sem tryggðu launþegum umtalsverða hækkun launa sem þar að auki var afturvirk til nóvember á síðasta ári.

Verðbólga reynist þrálát..

Frá nóvemberákvörðun peningastefnunefndar hefur verðbólguþróun verið óhagstæðari en flestir væntu, þar á meðal Seðlabankinn. Í nóvemberspá hans var gert ráð fyrir því að verðbólga yrði að jafnaði 8,5% á fyrsta fjórðungi þessa árs. Verðbólga mældist hins vegar 9,9% í janúar og horfur eru á að hún reynist ríflega 9% á fjórðungnum. Góðu heilli eru þó sem fyrr horfur á því að allhratt dragi úr verðbólgu þegar frá líður en í þjóðhagsspá okkar er gert ráð fyrir 7,6% verðbólgu að jafnaði í ár, 4,5% á næsta ári og 2,8% að jafnaði árið 2025.

Væntanlega er það þó nefndinni enn meira áhyggjuefni að undirliggjandi verðbólga hefur vaxið á flesta mælikvarða og er verðbólgan á sífellt breiðari grunni. Þannig hafa allir helstu mælikvarðar Hagstofunnar á almennt neysluverðlag hækkað og þeim undirliðum sem hækkað hafa umtalsvert meira en sem nemur verðbólgumarkmiðinu hefur sömuleiðis fjölgað. Þá hefur gengi krónu lækkað nokkuð frá nóvemberfundi nefndarinnar en veiking hennar var meðal þeirra áhyggjuefna sem nefndin horfði til við vaxtahækkunina í nóvember. Hins vegar eru merki um að verðbólgukúfurinn erlendis hafi náð hámarki og gengi krónu hefur í öllu falli sótt heldur í sig veðrið á ný eftir linnulitla veikingu frá því í fyrrasumar.

..og verðbólguvæntingar eru háar

Verðbólguvæntingar eru enn háar á flesta mælikvarða og samrýmast illa 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Þó hlýtur það að vera nefndinni nokkur huggun að þær hafa almennt ekki hækkað undanfarna mánuði og eru heldur farnar að síga niður á við á suma kvarða. Til að mynda lækkuðu langtíma verðbólguvæntingar markaðsaðila í nýjustu könnun Seðlabankans frá fyrri könnun þótt hið sama verði ekki sagt um skammtímavæntingarnar. Þar ber þó að hafa í huga að könnun bankans var gerð áður en verðbólgutölur janúarmánaðar birtust, sem sýndu meiri verðbólgu en almennt hafði verið vænst í ársbyrjun.

Verðbólguálag til lengri tíma á markaði, sem og væntingar heimila og fyrirtækja, virðist hafa verið fremur stöðugt upp á síðkastið eftir snarpa hækkun misserin á undan. Hins vegar hefur skammtíma verðbólguálag á markaði hækkað talsvert frá nóvemberákvörðun peningastefnunefndar.

Það hversu háar verðbólguvæntingar til lengri tíma eru enn hlýtur að valda nefndarmönnum nokkrum áhyggjum og vera allþung lóð á hækkunar vogarskálina við ákvörðunina nú.

Raunvextir á uppleið

Raunvextir hafa almennt hækkað talsvert frá miðju síðasta ári. Á það bæði við um beina raunvexti, t.d. raunkröfu á verðtryggðum ríkisbréfum, en líka um framsýna mælikvarða á raunstýrivexti. Okkur telst til að raunstýrivextir séu nú í kring um 1% miðað við meðaltal framsýnna mælikvarða, að væntingum heimila undanskildum þar sem vextirnir eru enn neikvæðir á þann mælikvarða.

Í nóvember benti peningastefnunefndin á að raunvextir þyrftu að hækka í ljósi spennu á vinnumarkaði og í þjóðarbúskapnum. Þar er ljóst að enn er verk óunnið og væntanlega grípur nefndin til sömu raka við vaxtaákvörðunina nú.

Hillir undir lok hækkunarferlis

Við teljum, þrátt fyrir allt, að vaxtahækkunarferlið sé á lokametrunum eftir skarpa hækkun frá vordögum 2021. Útlit er fyrir allhraða hjöðnun verðbólgu á yfirstandandi ári og hagvöxtur á komandi misserum virðist ætla að verða nokkurn veginn í takti við líklegan vöxt framleiðslugetu. Þá eru horfur á að atvinnuleysi mjakist lítillega upp á við og að heldur dragi úr hækkunartakti launa á komandi árum eins og farið er yfir í þjóðhagsspá okkar.

Hvort viðbótarskref verður stigið í mars ræðst að mati okkar af því hvort smærra eða stærra hækkunarskref verður ofan á í febrúar. Í öllu falli er útlit fyrir að stýrivextir hækki um 0,5 prósentur á fyrsta fjórðungi ársins og vaxtahækkunarferli bankans ljúki með 6,5% stýrivöxtum.

Þegar frá líður munu stýrivextir þó væntanlega lækka á nýjan leik og gæti það lækkunarferli hafist á lokafjórðungi ársins að því gefnu að verðbólga þróist í takti við spá okkar. Við tekur væntanlega hægfara lækkun í takti við hjaðnandi verðbólgu og betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Við gerum ráð fyrir að stýrivextir verði að jafnaði 6,4% í ár, 5,3% á næsta ári og 4,3% árið 2025.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.