Geimhöfn á braut um tunglið er á teikniborði NASA og rússnesku geimvísindastofnunarinnar Roscosmos. Slík aðstaða er sögð forsenda mannaðra geimferða til Mars og víðar auk þess sem framkvæmdir og rannsóknir á tunglinu verða fýsilegri. Vonir eru bundnar við að framkvæmdir geti hafist á fyrri hluta næsta áratugar.
Þó um afar ánægjulegar fréttir sé að ræða vekur tilkynningin um samstarf þessara fornu fjenda óneitanlega upp spurningar. Þrátt fyrir farsælt samstarf ríkjanna í Alþjóðlegu geimstöðinni (ISS) undanfarna áratugi andar köldu milli ríkjanna þessa dagana og geimrannsóknir eru fjarri því í forgangi hjá leiðtogunum Trump og Putin.
70% niðurskurður hjá Rússum
Útgjöld NASA hafa lítið breyst að raunvirði undanfarna þrjá áratugi en sem hlutfall af fjárlögum hafa þau stöðugt lækkað og verða á næsta ári um 0,4% útgjalda ríkisins.
Rússar hafa skorið fjárfestingar til Roscosmos niður um tæp 70% frá því fyrir hina miklu lækkun olíuverðs um árið og hafa slegið meiriháttar verkefnum á borð við mannaðar tunglferðir og framkvæmdir á yfirborði tunglsins á frest. Fjárheimildir stofnunarinnar eru í dag einungis 12% af því sem NASA hefur úr að spila en árið 2014 stóð til að koma hlutfallinu fljótlega upp í 50%.