Að því sögðu eru svo háar langtíma verðbólguvæntingar sem raun ber vitni vissulega verulegt áhyggjuefni og líklega ein sterkustu rökin þessa dagana fyrir því að auka aðhald peningastefnunnar. Á móti má segja að það hversu mikið langtíma væntingar sveiflast með skammtímaþróun og -horfum um verðbólgu endurspegli veika kjölfestu peningastefnunnar hvað langtímavæntingar varðar.
Þegar sú staða er uppi er að sama skapi varasamara að lesa of sterkt í slíkar mælingar enda geta þær sveiflast allhratt niður líkt og upp, eins og dæmin sanna. Væntingarnar eru því í minna mæli leiðandi vísbending og í ríkari mæli spegilmynd liðinnar verðbólgu og annarra þátta en ella væri, fyrirbæri sem kennt er við „adaptive expectations“ upp á ensku. Það mætti kannski þýða sem „baksýnisspegils-væntingar“ upp á ástkæra ylhýra málið.
Þegar slík staða er uppi getur Seðlabankinn í raun brugðist við með tvennum hætti:
- Hert á taumhaldi peningastefnunnar þar til verðbólguvæntingar eru farnar að endurspegla markmið bankans hvað sem líður öðrum áhrifaþáttum.
- Sætt færis að leyfa öðrum áhrifaþáttum að hafa áhrif á væntingarnar og aukið áhersluna á stjórnun langtímavæntinga þegar ytri aðstæður (og/eða áhrif peningastefnunnar á aðra þætti) hafa fært þær nær markmiði bankans.
Seinni kosturinn er vitaskuld ekki vænlegur til árangurs ef skammtímaþróun og -horfur eru ekki líklegar til að þoka væntingunum til hins betra. Það eru hins vegar að okkar mati allgóðar líkur á að þættir á borð við stöðugra gengi krónu, hjaðnandi verðbólgu erlendis, minnkandi spennu í hagkerfinu, meira jafnvægi á íbúðamarkaði og tiltölulega hófsama kjarasamninga geti stuðlað að hagfelldri skammtímaþróun verðbólgunnar, sem þá speglast hugsanlega í nokkuð ríkum mæli í lækkun langtímavæntinga. Að sjálfsögðu endurspegla svo ýmsir framangreindra þátta greinileg og vaxandi áhrif aðhaldssamrar peningastefnu þótt hún hafi enn sem komið er ekki náð að hemja langtímavæntingar nægilega vel.
Í sem stystu máli teljum við skynsamlegra að fara seinni leiðina hér að ofan en að setja ofuráherslu á að ná niður langtímavæntingum hvað sem tautar og raular með tilheyrandi vaxandi hættu á yfirskoti í peningalegu aðhaldi þegar frá líður.