Helstu atriði:
- Spáum óbreyttum stýrivöxtum 20. mars
- Verðbólguhorfur hafa skánað og verðbólguálag á markaði lækkað
- Efnahagshorfur til skemmri tíma tvísýnni en áður
- Enn umtalsverður vaxtamunur við útlönd
- Óbreyttir vextir út áratuginn?
Greining Íslandsbanka hefur gefið út nýja stýrivaxtaspá.
Helstu atriði:
Við spáum óbreyttum stýrivöxtum við næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans, sem kynnt verður þann 20. mars næstkomandi. Meginvextir bankans verða samkvæmt því áfram 4,50%.
Einhugur var um óbreytta stýrivexti við síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans. Var það í fyrsta sinn frá október síðastliðnum sem enginn nefndarmaður lagðist gegn tillögu Seðlabankastjóra um vaxtastigið. Horfur á minnkandi spennu í hagkerfinu og lækkun verðbólguvæntinga vógu þar þyngra en áhyggjur af tiltölulega dökkum skammtímahorfum um verðbólgu.
Frá vaxtaákvörðuninni í febrúar hafa skammtíma verðbólguhorfur heldur batnað og efnahagshorfur versnað. Vaxandi vísbendingar eru um að framleiðslupenna gæti minnkað enn hraðar á yfirstandandi ári en Seðlabankinn spáði í febrúar. Þörfin fyrir peningalegt aðhald á næstunni virðist því fara heldur minnkandi á sama tíma og aðhaldið hefur þokast upp á við á a.m.k. suma mælikvarða. Trúlega mun peningastefnunefndin enn og aftur ítreka vilja sinn og getu til að halda verðbólgu og verðbólguvæntingum við markmið, sem geti kallað á aukið peningalegt aðhald á komandi mánuðum. Við teljum hins vegar að stýrivextir séu nokkuð líklegir til að haldast óbreyttir út þetta ár og að frekari hækkun vaxta sé sennilega út af borðinu í bráð nema launaþrýstingur verði óhóflega mikill í kjölfar kjarasamninga og/eða gengi krónu gefi umtalsvert eftir að nýju.