Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Spáum hækkun stýrivaxta 19. maí

Við teljum að peningastefnunefnd Seðlabankans muni hækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur við vaxtaákvörðunina þann 19. maí næstkomandi. Mikil og þrálát verðbólga ásamt minnkandi óvissu um komandi efnahagsbata munu að okkar mati ríða baggamuninn um vaxtahækkun þótt óbreyttir vextir séu ekki útilokaðir. Í kjölfarið gerum við ráð fyrir óbreyttum vöxtum fram á lokafjórðung ársins en hægfara vaxtahækkunarferli eftir það.


Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans hækki stýrivexti bankans um 0,25 prósentur við næstu vaxtaákvörðun þann 19. maí næstkomandi. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða samkvæmt því 1,0% eins og þeir voru frá maí og þar til í nóvember á síðasta ári. Óvissa um komandi efnahagsbata hefur minnkað og búið er að framlengja ýmis þau úrræði sem létta fyrirtækjum og heimilum í vanda róðurinn enn um sinn þar til þau fá fastara land undir fætur efnahagslega séð. Á sama tíma hefur verðbólga reynst þrálátari en vænst var og kjölfesta hennar við markmið gæti veikst ef bankinn sýnir ekki vilja sinn til þess að varðveita trúverðugleika peningastefnunnar í verki.

Við teljum þó alls ekki útilokað að vöxtum verði haldið óbreyttum enda er snúið að spá í vaxtaspilin þessa dagana. Í mars ljáði enginn nefndarmaður máls á þeim möguleika að hækka stýrivexti og var framsýna leiðsögn nefndarinnar hlutlaus. En skjótt skipast veður í lofti eins og rakið er hér að neðan og þykir okkur sennilegra en ekki að nefndin kjósi nú að minna á  þann ásetning sinn að halda verðbólgu í skefjum með þeim ráðum sem hún hefur tiltæk. Verði vextir ekki hækkaðir að þessu sinni má í það minnsta búast við því að tónninn um framhaldið verði skerptur á þann veg að brugðist verði við verðbólgu sem er talvert yfir markmiði bankans um leið og efnahagsaðstæður leyfa.

Þá er líklegt að samhliða vaxtaákvörðun, eða fljótlega í kjölfarið, verði hert á reglum um takmarkanir á fasteignalánum. Þær reglur eru á forræði fjármálastöðugleikanefndar bankans og hljóða nú upp á að almennt megi ekki lána hærra hlutfall af markaðsverði fasteignar en 85%. Nefndin hefur heimild til að lækka það hlutfall og/eða bæta við takmörkunum á lánsfjárhæð eða greiðslubyrði miðað við tekjur. Það skyti hins vegar skökku við ef eingöngu ætti að beita þessum tækjum til að kæla verðbólguþrýsting þar sem tilgangur þeirra er fyrst og fremst að varðveita fjármálastöðugleika. Samspil þeirra við hærra vaxtastig er því heppilegra til þess að kæla íbúðamarkað við núverandi aðstæður.

Óvissa um efnahagsbata fer minnkandi

Frá síðustu vaxtaákvörðun Seðlabankans hafa nærhorfur í hagkerfinu batnað og óvissa um komandi efnahagsbata minnkað. Bólusetning við COVID-19 er nú komin á mikinn skrið bæði hér á landi og hjá okkar helstu viðskiptalöndum. Hætta á alvarlegu bakslagi í faraldrinum minnkar því jafnt og þétt hér á landi. Fyrir liggur áætlun um tilslakanir sóttvarnaraðgerða innanlands sem á landamærunum á komandi mánuðum auk þess sem áætlanir um tilslakanir sóttvarnaraðgerða í nágrannalöndunum eru víða komnar til framkvæmda. Bólusettum ferðamönnum frá Bandaríkjunum er þegar tekið að fjölga nokkuð og jákvæðar fréttir berast af bókunum bæði á flugi til landsins og frá hérlendum ferðaþjónustufyrirtækjum.

Með endurkomu ferðaþjónustunnar sem stórrar útflutningsgreinar koma bæði stórauknar útflutningstekjur og fjöldi starfa. Við spáðum því í janúar síðastliðnum að atvinnuleysi myndi taka að hjaðna allhratt þegar lengra líður á árið og virðist sú skoðun ætla að ganga eftir.

Væntingar heimila og fyrirtækja bera með sér vaxandi bjartsýni í einkageiranum. Kortaveltutölur sýna bæði að heimilin hafa flest hver haldið sínu striki í neyslu undangenginn COVID-vetur, en einnig að neyslan er tekin að færast í aukana á ný.

Að sjálfsögðu þarf Seðlabankinn að stíga varlega til jarðar svo ekki slokkni í glæðum efnahagsbatans. Hækkun vaxta í sama stig og var fyrstu 8 mánuði kórónufaraldursins er þó ekki líkleg til þess arna, sér í lagi ef á sama tíma er áfram stutt myndarlega við þau heimili og fyrirtæki sem mest hafa orðið fyrir barðinu á faraldrinum með sértækum aðgerðum.

Verðbólga þrálátari en vonast var til

Verðbólga reyndist talsvert meiri á fyrsta þriðjungi ársins en flestar spár höfðu gert ráð fyrir. Í apríl mældist verðbólgan 4,6% og hefur hún ekki mælst meiri í 8 ár. Veruleg hækkun á íbúðaverði vó þyngst í hækkun vísitölu neysluverðs í apríl og mælist árstaktur hækkunar íbúðaverðs nú 10,6% á landinu öllu miðað við vísitölu markaðsverðs hjá Hagstofunni. Líkt og við höfum áður fjallað um virðist sem samspil líflegrar eftirspurnar vegna vaxandi kaupmáttar, sterkrar fjárhagsstöðu flestra heimila og hagstæðra lánskjara annars vegar, og takmarkað framboð á nýju íbúðarhúsnæði hinsvegar, knýi áfram verðhækkun á markaðinum þessa dagana.

Í Fjármálastöðugleika sem út kom í apríl síðastliðnum kom fram að bankinn teldi verðhækkanir á íbúðamarkaði enn hóflegar og studdar undirliggjandi efnahagsþáttum eins og reifað er hér að ofan. Verðmæling aprílmánaðar kann hins vegar að hafa hnikað því mati eitthvað. Seðlabankinn hefur þó önnur tól en bara vaxtatækið til að slá á hækkunarþrýsting á íbúðamarkaði, sér í lagi ef bankinn telur hættu á að ójafnvægi á markaðinum ógni fjármálastöðugleika. Líklegt má telja að bankinn horfi til samspils slíkra tækja og vaxtahækkana til að slá á verðþrýsting á íbúðamarkaði. Miðað við matið í nýlegri útgáfu Fjármálastöðugleika eru því þó líklega takmörk sett hversu langt bankinn vill ganga í að herða verulega á umgjörð íbúðalánamarkaðar með þjóðhagsvarúðartækum á borð við hámark á veðsetningarhlutfall eða takmörkunum á lánsfjárhæð eða greiðslubyrði.

Verðbólguþrýstingur þessa dagana er þó alls ekki eingöngu bundinn við íbúðamarkað eins og stundum heyrist í umræðunni. Af 4,6% verðbólgu í aprílmánuði má rekja 2 prósentur til innfluttra vara, 0,9 prósentur til húsnæðisliðar og innlendar vörur og þjónusta skýra hvor sínar 0,8 prósenturnar.

Forsvarsmenn Seðlabankans hafa undanfarið bent á að innfluttur verðþrýstingur væri ekki undir áhrifasviði bankans. Þeir þrír fimmtungshlutar sem út af standa miðað við upptalninguna hér að framan eru það hins vegar að meira eða minna leyti.

Verðbólguhorfur fyrir allra næstu fjórðunga hafa versnað töluvert frá útgáfu síðustu Peningamála. Þá spáði Seðlabankinn 3,1% verðbólgu að jafnaði á yfirstandandi ári og að verðbólga yrði komin niður undir 2,5% markmið bankans fyrir árslok. Var spá okkar á þeim tíma á svipuðum nótum. Nú teljum við hins vegar að verðbólga muni reynast talsvert þrálátari, verða að jafnaði nærri efri þolmörkum verðbólgumarkmiðsins á yfirstandandi ári og ekki ná niður í markmið Seðlabankans fyrr en nokkuð er liðið á næsta ár. Umtalsverður innfluttur verðþrýstingur, hraður hækkunartaktur íbúðaverðs og mikil hækkun á innlendum launakostnaði leggjast þar á eitt en sú styrking krónunnar sem við væntum á komandi fjórðungum ásamt slaka í hagkerfinu vegur á móti.

Væntingar markaðsaðila fyrir þróunina á næstunni hafa einnig breyst umtalsvert ef nýbirt væntingakönnun er borin saman við könnunina sem gerð var fyrir birtingu Peningamála í febrúar. Eins og sjá má af myndinni væntu þeir í ársbyrjun þess að verðbólga yrði við markmið áður en árið rynni sitt skeið. Nú búast þeir að jafnaði ekki við verðbólgu í markmiði fyrr en á vordögum 2022.

Það sem á endanum ræður þó úrslitum um mat peningastefnunefndar á þörfinni fyrir meira aðhald eru verðbólguvæntingar til lengri tíma litið. Í mars höfðu nefndarmenn áhyggjur af  því að verðbólguvæntingar hefðu hækkað lítillega en töldu of snemmt að álykta um hvort kjölfesta þeirra við verðbólgumarkmiðið hefði veikst.

Ef litið er til þróunar verðbólguálags á skuldabréfamarkaði og lengri tíma væntinga markaðsaðila er myndin nokkuð blendin. Verðbólguálag til 5 ára mælist nú u.þ.b. 3,3% en var í kring um 2,8% við síðustu vaxtaákvörðun í mars. Setja þarf ákveðinn fyrirvara við útreikning álagsins þar sem bæði verðtryggði og óverðtryggði vaxtaferillinn eru býsna brattir þessa dagana og sértækir þættir kunna að skýra innbyrðis kröfuþróun þeirra að einhverju leyti. Í hinni nýbirtu væntingakönnun meðal markaðsaðila kemur hins vegar fram útbreidd trú á að verðbólga verði að jafnaði nærri markmiði Seðlabankans næstu 5 – 10 árin. Hlýtur það að vera peningastefnunefndinni nokkur léttir. Þar ber þó að halda því til haga að markaðsaðilar telja talsvert hærri stýrivexti þurfa til en áður á komandi fjórðungum til að þetta gangi eftir.

Vaxandi verðbólga og hækkandi verðbólguvæntingar á suma kvarða hafa valdið því að raunstýrivextir hafa að jafnaði þokast nokkuð niður frá ársbyrjun. Þótt skynsamlegt sé að taumhald peningastefnunnar sé laust um þessar mundir má færa rök fyrir því að óþarft sé að hafa stefnuna talsvert slakari nú en hún var þegar faraldurinn stóð sem hæst og óvissa vegna hans var í hámarki. Hækkun stýrivaxta myndi færa raunstýrivextina nær þeim slóðum sem þeir voru á seinni hluta síðasta árs.

Vaxtahækkunarferli heldur áfram undir árslok

Horfur um þróun stýrivaxta á komandi fjórðungum hafa tekið nokkrum breytingum frá síðustu spá okkar. Eftir sem áður búumst við þó við fremur hægum takti vaxtahækkana, en að hækkunarferlið verði fyrr á ferðinni en við bjuggumst áður við í ljósi meiri verðbólgu, seiglu í innlendri eftirspurn og breyttra vaxtahorfa erlendis svo nokkuð sé nefnt. Eins og sjá má hér að neðan er hin breytta spá á svipuðum nótum og breyttar væntingar markaðsaðila undanfarna mánuði.

Við teljum að Seðlabankinn muni láta staðar numið eftir vaxtahækkun maímánaðar þar til fullljóst er orðið að bati efnahagslífsins er kominn á umtalsverðan skrið. Á síðasta fjórðungi ársins hefji hann síðan vaxtahækkunarferli þar sem nærri lætur að vextir hækki um 0,25 prósentur í hverjum ársfjórðungi. Vitaskuld eykst þó óvissa um þennan feril jafnt og þétt eftir því sem lengra er skyggnst fram á veg og mun samspil hjaðnandi verðbólgu og minnkandi efnahagsslaka ráða taktinum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband