Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Spáum 9,3% verðbólgu í júlí

Útlit er fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,6% á milli mánaða í júlí. Verðbólga mun mælast 9,3% í júlímánuði gangi spá okkar eftir. Sumarútsölur vega á móti hækkun á íbúðaverði, hærri flugfargjöldum og verðhækkun á matvörum.


Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,6% í júlí frá fyrri mánuði. Ef spá okkar gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 9,3% en var 8,8% í júní. Verðbólga hefur ekki mælst svo mikil frá því í október 2009. Eins og fyrri daginn skýrir hækkandi íbúðaverð og innflutt verðbólga hækkunina í mánuðinum að mestu en sumarútsölur vega á móti. Við gerum ráð fyrir að verðbólga nái toppi síðsumars og taki svo að hjaðna hægt og bítandi. Hagstofan birtir VNV fyrir mánuðinn þann 22.júlí næstkomandi.

Hvenær hægir á hækkun íbúðaverðs?

Hækkandi íbúðaverð hefur heldur betur sett svip sinn á þróun vísitölu neysluverðs síðustu misseri. Reiknaða húsaleigan í vísitölunni hækkaði um 2,9% í júnímánuði sem er jafnframt mesta mánaðarhækkun frá september 2016. Við spáum því að reiknaða húsaleigan hækki um 2,2% í júlí á milli mánaða (0,42% áhrif á VNV). Hagstofan miðar við þriggja mánaða hlaupandi meðaltal á íbúðaverði í mati sínu og mun júlímælingin því samanstanda af verðbreytingum í apríl, maí og júní. Í  þessari spá erum við því að búast við því að júnímánuður verði rólegri en hinir tveir sem á undan koma. Vonandi er það vísbending um að farið sé að hægja á verðhækkunum á íbúðamarkaði.

Sumarútsölur vega á móti innfluttri verðbólgu

Á þessum tíma árs eru sumarútsölur komnar á fullt skrið í mörgum verslunum og vega til tímabundinnar lækkunar á VNV. Samkvæmt spá okkar mun liðurinn föt og skór vega þyngst til lækkunar í mánuðinum og lækka um 6,9% (-0,24% áhrif á VNV) milli mánaða. Verð á húsgögnum og heimilisbúnaði lækkar einnig í sumarútsölunum í mánuðinum um 0,9% (-0,06% áhrif á VNV).

Það mun hins vegar duga skammt vegna verðhækkana á öðrum liðum. Að húsnæðisliðnum undanskildum er það liðurinn ferðir og flutningar sem vegur þyngst til hækkunar en samkvæmt spá okkar hækkar hann um 2,2% á milli mánaða (0,34% áhrif á VNV). Flugfargjöld vega þar þungt en þau hækka gjarnan í júlímánuði og spáum við því að þau hækki um 14% (0,30% áhrif á VNV).

Þar að auki gerum við ráð fyrir að eldsneytisverð hækki um 2% (0,07% áhrif á VNV) á milli mánaða. Eldsneyti hefur hækkað í verði um 26,5% frá áramótum samkvæmt mælingu Hagstofu í kjölfar mikillar verðhækkunar á jarðefnaeldsneyti á heimsmarkaði. Eldsneytisverð hefur þó lækkað nokkuð að nýju á heimsmarkaði síðustu vikurnar, en enn sem komið er hefur það ekki skilað sér hingað til lands samkvæmt mælingu okkar.

Aðrir helstu liðir sem hækka í verði á milli mánaða eru matar- og drykkjarvörur um 0,5% (0,08% áhrif á VNV) og hótel og veitingastaðir um 0,9% (0,04% áhrif á VNV).

Mikil verðbólga áfram í kortunum en þó bjartari horfur

Eins og áður sagði hefur verðbólga ekki mælst meiri frá því í október 2009. Húsnæðisliður og innfluttar vörur eru þessa dagana helstu hækkunarvaldar í vísitölunni. Af 8,8% ársverðbólgu í júní skýrir húsnæðisliðurinn 3,6%, innfluttar vörur 2,4%, innlend þjónusta 1,6% og innlendar vörur 1,2%.

Samkvæmt skammtímaspá okkar eru horfur á að áframhaldandi hækkun íbúðaverðs og frekari verðhækkun á innfluttum vörum. Við gerum ráð fyrir 0,6% hækkun í ágúst, 0,4% í september og 0,5% hækkun á milli mánaða í október. Gangi sú spá eftir mælist verðbólga 9,3% í október.

Bjartari horfur gætu þó verið framundan. Til að mynda hefur hrávöruverð erlendis lækkað talvert á undanförnum vikum. Ef þessi þróun heldur áfram gætum við séð verðlækkanir erlendis og þar af leiðandi innfluttu verðbólguna hjaðna allhratt. Við teljum þó líkur að á allra næstu mánuðum haldi innflutt verðbólga áfram að aukast en þó hægar en áður. Ef verðlækkanir erlendis skila sér hratt hingað til lands mun verðbólga á allra næstu mánuðum eflaust mælast lægri en hér er spáð.

Sömuleiðis gæti hægt hratt á hækkun íbúðaverðs snæsta kastið. Það er jafnframt ein helsta forsenda í langtímaspá okkar að íbúðaverð hækki hægar eftir því sem líður á seinni helming ársins. Langtímaspá okkar hljóðar nú upp á 8,2% verðbólgu að meðaltali á þessu ári, 6,5% árið 2023 og 4,1% verðbólgu að jafnaði árið 2024. Önnur mikilvæg forsenda í spá okkar eru að launahækkanir fari ekki fram úr öllu hófi þegar kjarasamningar losna undir lok ársins og teljum við það vera einn helsta óvissuþáttinn hvað langtímaspána varðar.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband