Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,6% í júlí frá fyrri mánuði. Ef spá okkar gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 9,3% en var 8,8% í júní. Verðbólga hefur ekki mælst svo mikil frá því í október 2009. Eins og fyrri daginn skýrir hækkandi íbúðaverð og innflutt verðbólga hækkunina í mánuðinum að mestu en sumarútsölur vega á móti. Við gerum ráð fyrir að verðbólga nái toppi síðsumars og taki svo að hjaðna hægt og bítandi. Hagstofan birtir VNV fyrir mánuðinn þann 22.júlí næstkomandi.
Spáum 9,3% verðbólgu í júlí
Útlit er fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,6% á milli mánaða í júlí. Verðbólga mun mælast 9,3% í júlímánuði gangi spá okkar eftir. Sumarútsölur vega á móti hækkun á íbúðaverði, hærri flugfargjöldum og verðhækkun á matvörum.
Hvenær hægir á hækkun íbúðaverðs?
Hækkandi íbúðaverð hefur heldur betur sett svip sinn á þróun vísitölu neysluverðs síðustu misseri. Reiknaða húsaleigan í vísitölunni hækkaði um 2,9% í júnímánuði sem er jafnframt mesta mánaðarhækkun frá september 2016. Við spáum því að reiknaða húsaleigan hækki um 2,2% í júlí á milli mánaða (0,42% áhrif á VNV). Hagstofan miðar við þriggja mánaða hlaupandi meðaltal á íbúðaverði í mati sínu og mun júlímælingin því samanstanda af verðbreytingum í apríl, maí og júní. Í þessari spá erum við því að búast við því að júnímánuður verði rólegri en hinir tveir sem á undan koma. Vonandi er það vísbending um að farið sé að hægja á verðhækkunum á íbúðamarkaði.
Sumarútsölur vega á móti innfluttri verðbólgu
Á þessum tíma árs eru sumarútsölur komnar á fullt skrið í mörgum verslunum og vega til tímabundinnar lækkunar á VNV. Samkvæmt spá okkar mun liðurinn föt og skór vega þyngst til lækkunar í mánuðinum og lækka um 6,9% (-0,24% áhrif á VNV) milli mánaða. Verð á húsgögnum og heimilisbúnaði lækkar einnig í sumarútsölunum í mánuðinum um 0,9% (-0,06% áhrif á VNV).
Það mun hins vegar duga skammt vegna verðhækkana á öðrum liðum. Að húsnæðisliðnum undanskildum er það liðurinn ferðir og flutningar sem vegur þyngst til hækkunar en samkvæmt spá okkar hækkar hann um 2,2% á milli mánaða (0,34% áhrif á VNV). Flugfargjöld vega þar þungt en þau hækka gjarnan í júlímánuði og spáum við því að þau hækki um 14% (0,30% áhrif á VNV).
Þar að auki gerum við ráð fyrir að eldsneytisverð hækki um 2% (0,07% áhrif á VNV) á milli mánaða. Eldsneyti hefur hækkað í verði um 26,5% frá áramótum samkvæmt mælingu Hagstofu í kjölfar mikillar verðhækkunar á jarðefnaeldsneyti á heimsmarkaði. Eldsneytisverð hefur þó lækkað nokkuð að nýju á heimsmarkaði síðustu vikurnar, en enn sem komið er hefur það ekki skilað sér hingað til lands samkvæmt mælingu okkar.
Aðrir helstu liðir sem hækka í verði á milli mánaða eru matar- og drykkjarvörur um 0,5% (0,08% áhrif á VNV) og hótel og veitingastaðir um 0,9% (0,04% áhrif á VNV).
Mikil verðbólga áfram í kortunum en þó bjartari horfur
Eins og áður sagði hefur verðbólga ekki mælst meiri frá því í október 2009. Húsnæðisliður og innfluttar vörur eru þessa dagana helstu hækkunarvaldar í vísitölunni. Af 8,8% ársverðbólgu í júní skýrir húsnæðisliðurinn 3,6%, innfluttar vörur 2,4%, innlend þjónusta 1,6% og innlendar vörur 1,2%.
Samkvæmt skammtímaspá okkar eru horfur á að áframhaldandi hækkun íbúðaverðs og frekari verðhækkun á innfluttum vörum. Við gerum ráð fyrir 0,6% hækkun í ágúst, 0,4% í september og 0,5% hækkun á milli mánaða í október. Gangi sú spá eftir mælist verðbólga 9,3% í október.
Bjartari horfur gætu þó verið framundan. Til að mynda hefur hrávöruverð erlendis lækkað talvert á undanförnum vikum. Ef þessi þróun heldur áfram gætum við séð verðlækkanir erlendis og þar af leiðandi innfluttu verðbólguna hjaðna allhratt. Við teljum þó líkur að á allra næstu mánuðum haldi innflutt verðbólga áfram að aukast en þó hægar en áður. Ef verðlækkanir erlendis skila sér hratt hingað til lands mun verðbólga á allra næstu mánuðum eflaust mælast lægri en hér er spáð.
Sömuleiðis gæti hægt hratt á hækkun íbúðaverðs snæsta kastið. Það er jafnframt ein helsta forsenda í langtímaspá okkar að íbúðaverð hækki hægar eftir því sem líður á seinni helming ársins. Langtímaspá okkar hljóðar nú upp á 8,2% verðbólgu að meðaltali á þessu ári, 6,5% árið 2023 og 4,1% verðbólgu að jafnaði árið 2024. Önnur mikilvæg forsenda í spá okkar eru að launahækkanir fari ekki fram úr öllu hófi þegar kjarasamningar losna undir lok ársins og teljum við það vera einn helsta óvissuþáttinn hvað langtímaspána varðar.