Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Spáum 5,1% verðbólgu

Útlit er fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,6% milli mánaða í nóvember. Verðbólga mun mælast 5,1% gangi spá okkar eftir. Íbúðaverð og innflutt verðbólga er helsta ástæða þrálátari verðbólgu um þessar mundir.


Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,6% í nóvember frá fyrri mánuði. Ef spá okkar gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 5,1% en var 4,5% í október. Verðbólga hefur ekki mælst svo mikil í 9 ár. Við teljum að verðbólga muni aukast enn frekar á næstu mánuðum áður en hún tekur að hjaðna. Helsta ástæða aukinnar verðbólgu eru íbúðaverðshækkanir ásamt innfluttri verðbólgu sem hefur látið á sér kræla að undanförnu. Verðbólguhorfur hafa versnað frá síðustu spá og teljum við nú að verðbólga verði komin við markmið Seðlabankans í byrjun árs 2023. Hagstofan birtir VNV fyrir nóvember þann 25. nóvember næstkomandi.

Íbúðaverð heldur áfram að hækka

Líkt og síðustu mánuði er það hækkandi íbúðaverð sem vegur þyngst til hækkunar á vísitölunni í nóvember. Reiknaða húsaleigan, sem endurspeglar að langstærstum hluta þróun íbúðaverðs, hefur hækkað um tæplega 11% frá því í mars á þessu ári. Við teljum að sú þróun haldi áfram á næstu mánuðum áður en hækkandi vextir sem og aðrar aðgerðir Seðlabankans fara að hafa áhrif. Við spáum því að reiknaða húsaleigan hækki um 1,2% milli mánaða (0,2% áhrif á VNV).

Um þessar mundir ríkir eftirspurnarspenna á íbúðamarkaði en undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 15%. Seðlabankinn er byrjaður að taka í taumana með stýrivaxtahækkunum ásamt öðrum aðgerðum. Það kemur að því að þrengri reglurammi lána sem og vaxtahækkanir hafi áhrif enda eru íbúðaverðshækkanir langt umfram laun ekki sjálfbærar til lengri til tíma litið.

Innflutt verðbólga lætur á sér kræla

Að húsnæðisliðnum undanskildum er það liðurinn ferðir og flutningar sem hefur mest áhrif til hækkunar í nóvember. Þar vegur eldsneyti þyngst og hækkar það í verði um 2,4% (0,07% áhrif á VNV) samkvæmt mælingu okkar. Eldsneytisverð hefur hækkað um ríflega 18% á þessu ári enda hefur heimsmarkaðsverð á eldsneyti hækkað skarpt. Erfitt er að ráða í flugfargjaldaliðinn um þessar mundir og lækkaði hann á milli mánaða í október þvert á okkar spá. Við teljum þó að aukin eftirspurn og hækkandi olíuverð verði til þess að flugverð hækki  í nóvembermánuði um 3,4% (0,06% áhrif á VNV).

Aðrir helstu liðir sem hækka á milli mánaða eru húsgögn og heimilisbúnaður um 1,2% (0,08% áhrif á VNV), matur og drykkjarvörur um 0,4% (0,06% áhrif á VNV) ásamt fatnaði og skóm um 0,6% (0,02% áhrif á VNV).

Við höfum haft töluverðar áhyggjur af innfluttri verðbólgu að undanförnu. Verðlag erlendis hefur farið hækkandi ásamt því að flutningskostnaður hefur aukist gríðarlega. Undanfarna mánuði höfum við séð innflutta verðbólgu láta á sér kræla og samkvæmt mælingum okkar er engin undantekning þar á í nóvembermánuði. Verðbólga er nefnilega ekki einungis bundin við Ísland eins og sést á myndinni. Verðbólga mælist veruleg í flestum löndum sem við berum okkur saman við.

Skammtíma verðbólguhorfur hafa versnað

Undafarna mánuði hafa skammtíma verðbólguhorfur versnað. Ekki sér fyrir endann á verðþrýstingi á íbúðamarkaði né á áhrifum til hækkunar á aðfangaverði og flutningskostnaði erlendis frá. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,5% hækkun í desember, 0,2% lækkun í janúar og 0,6% hækkun í febrúar. Ef sú spá gengur eftir mun verðbólga mælast 5,2% í febrúar.

Í kjölfarið gerum við ráð fyrir frekari styrkingu krónu, hægari hækkun íbúðaverðs og hugsanlega verðlækkun/stöðnun á innfluttum vörum. Þá fer verðbólga að síga hægt og rólega en verður þó ekki við 2,5% markmið Seðlabankans fyrr en í byrjun árs 2023. Spá okkar hljóðar uppá 4,2% verðbólgu að jafnaði árið 2022 og 2,7% árið 2023 að meðaltali. Að kjarasamningar í lok næsta árs verði fremur hóflegir og jafnvægi náist á íbúðamarkaði eru svo helstu forsendur þess að langtímaspá okkar gangi eftir.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.