Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Spáum 4,0% verðbólgu í apríl

Útlit er fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,2% á milli mánaða. Hins vegar mun 12 mánaða verðbólga hjaðna í apríl gangi spá okkar eftir. Húsnæðisverð og hækkanir á verði matvara skýra stærstan hluta af hækkun neysluverðs í mánuðinum. Verðbólguhorfur eru allgóðar og líklega verður verðbólga komin niður fyrir 2,5% markmið Seðlabankans í byrjun næsta árs.


Samantekt

  • Spáum 0,2% hækkun VNV í apríl

  • Matur og drykkjarvörur hækka milli mánaða

  • Húsnæðisliður vegur til hækkunar

  • Verðbólga tekur að hjaðna þegar líður á árið

  • Krónan, íbúðamarkaður og launaþrýstingur helstu óvissuþættir

Skráðu þig á póstlistann okkar

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,2% í apríl frá fyrri mánuði. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 4,0% en var 4,3% í mars. Útlit er fyrir að verðbólgukúfurinn hafi náð toppi, verðbólga hjaðni nokkuð hratt þegar líða tekur á árið og muni síga niður fyrir 2,5% markmið Seðlabankans í byrjun næsta árs. Hagstofan birtir VNV fyrir apríl þann 29. apríl næstkomandi.

Húsnæði og matvörur til hækkunar

Húsnæðisliður er sá liður sem vegur þyngst til hækkunar vísitölu neysluverðs í apríl. Talsverður gangur er á íbúðamarkaði þessi dægrin. Mæling okkar bendir til þess húsnæðisliðurinn hækki um 0,35% (0,11% áhrif á VNV) í aprílmánuði. Þar ber helst að nefna reiknuðu húsaleiguna sem hækkar um 0,5% (0,08% áhrifa á VNV). Reiknaða húsaleigan byggir á markaðsverði íbúðarhúsnæðis auk áhrifa vaxta á íbúðalánum og togast þessar stærðir á þessa dagana. Þannig hækkar markaðsverð íbúðarhúsnæðis um 0,8% í apríl miðað við könnun okkar en vaxtaþátturinn vegur til 0,3% lækkunar á reiknuðu húsaleigunni.

Það sem vegur næst mest til hækkunar á VNV í aprílmánuði er verð á matar-og drykkjarvörum sem hækkar um 0,2% milli mánaða (0,03% áhrif á VNV) samkvæmt spá okkar. Helsta ástæða þess er að Verðlagsnefnd búvara hefur ákveðið að hækka heildsöluverð á mjólk og smjöri vegna kostnaðarhækkana í framleiðslu. Er sú hækkun 3,5% fyrir flestar mjólkurvörur en 8,5% fyrir smjör.

Að húsnæði og matar- og drykkjarvörum slepptum er fremur rólegt yfir mánaðarbreytingum á VNV. Aðrir liðir sem hafa áhrif til hækkunar eru tómstundir og menning (0,02% áhrif á VNV) og ferðir og flutningar (0,02% áhrif á VNV). Við teljum að eldsneytisverð muni ekki hafa áhrif til hækkunar í apríl eftir myndarlegar hækkanir undanfarna mánuði. Það rímar við þróun eldsneytisverðs á heimsvísu sem hefur lækkað nokkuð undanfarnar vikur eftir gríðarlegar hækkanir undanfarna mánuði. Þá gerum við ekki ráð fyrir hækkunum á flugfargjöldum til útlanda, en erfitt hefur verið að ráða í þann lið upp á síðkastið vegna lítils flugframboðs á tímum Kórónuveirunnar.

Verðbólga við markmið í byrjun næsta árs

Við teljum að verðbólga muni hjaðna jafnt og þétt eftir því sem líður á árið. Við spáum 0,2% hækkun í maí, 0,3% hækkun í júní og 0,1% hækkun í júlí. Gangi spáin eftir mælist verðbólga 3,5% í júlímánuði. Í kjölfarið eigum við von á frekari hjöðnun verðbólgunnar og að hún muni síga niður fyrir 2,5% markmið Seðlabankans í byrjun næsta árs. Næstu tvö ár eru svo horfur á að verðbólga verði í grennd við verðbólgumarkmið.

Ein helsta forsenda þess að spá okkar gangi eftir er styrking krónunnar á komandi fjórðungum. Undanfarna mánuði hefur krónan haldið sjó og gerum við ráð fyrir styrkingu síðar á árinu þegar ferðamannagjaldeyrir byrjar vonandi að streyma inn til landsins á nýjan leik. Frekari styrking verði síðan á næstu árum með bjartari tíð í hagkerfinu.

Á móti vegur að mikið líf er á íbúðamarkaði ásamt því að horfur eru á talsverðum launahækkunum á komandi misserum. Þá geta verðbreytingar erlendis vegna áhrifa kórónuveirunnar haft frekari áhrif til verðhækkana hérlendis. Til að mynda má nefna fréttir um skort á gámum í Kína sem hefur hækkað verð á gámaflutningum til Evrópu verulega síðustu mánuði. Haldi þessi þróun áfram gæti það haft áhrif til frekari hækkana á verði innfluttra vara og þrálátari verðbólgu á komandi fjórðungum  en við væntum í þessari spá.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband