Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,7% í febrúar frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir mun verðbólga hjaðna úr 4,3% í 4,1%. Verðbólgan verður því áfram yfir efri þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans og eru horfur á að hún fari ekki aftur undir 4,0% þolmörkin fyrr en í apríl. Útsöluáhrif skýra stærstan hluta hækkunarinnar í febrúar en eldsneytisverð og húsnæðisliður eru einnig hækkunarvaldar. Hins vegar eru horfur á all hraðri hjöðnun verðbólgu í kjölfarið.
Spáum 0,7% hækkun neysluverðs í febrúar
Útlit er fyrir að 12 mánaða taktur verðbólgunnar hjaðni í febrúar þrátt fyrir 0,7% hækkun vísitölu neysluverðs á milli mánaða. Skammtíma verðbólguhorfur hafa versnað lítillega vegna ört hækkandi eldsneytisverðs. Útlit er þó fyrir að verðbólga hjaðni all hratt á árinu og verði við 2,5% markmið Seðlabankans frá og með næstu áramótum.
Útsölulok, húsnæði og eldsneyti til hækkunar
Útsölulok setja svip á febrúarmælingu VNV eins og fyrri daginn. Útsölur á fötum voru hins vegar óvenju grunnar í janúar og gerum við ráð fyrir að áhrif útsölulokanna til hækkunar á fataverði í febrúar verði að sama skapi mildari. Við gerum ráð fyrir að fata- og skóliðurinn vegi til 0,12% hækkunar VNV í febrúar en undanfarin ár hefur liðurinn að jafnaði vegið til 0,16% hækkunar í mánuðinum. Þá gerum við ráð fyrir að liðurinn Húsgögn og heimilisbúnaður vegi til 0,2% hækkunar VNV og tómstunda- og menningarliðurinn til 0,07% hækkunar. Gróflega má því áætla að útsölulok skýri u.þ.b. 2/3 hluta hækkunar VNV í febrúar.
Talsverður gangur er í íbúðamarkaði þessa dagana og bendir könnun okkar til þess að markaðsverð íbúðarhúsnæðis muni mælast 0,8% hærra í febrúarmælingu Hagstofunnar en það var í janúarmánuði. Á móti vega hins vegar áhrif af lækkandi íbúðavöxtum og áætlum við að liðurinn Reiknuð húsaleiga, sem byggir á þessu tvennu, hækki um 0,4% að þessu sinni. Þessu til viðbótar kemur talsverð hækkun á viðhaldsþætti húsnæðisliðarins. Byggingavísitala Hagstofunnar fyrir febrúar hljóðar upp á ríflega 6% hækkun á vinnulið og væntanlega mun samsvarandi liður í viðhaldsmælingunni hækka umtalsvert.
Eldsneytisverð hér á landi hefur hækkað töluvert á undanförnum vikum. Það endurspeglar mikla hækkun á olíuverði á heimsmarkaði, en frá nóvemberbyrjun hefur verð á Brent-hráolíu hækkað um ríflega 50%. Hækkunin skýrist að stærstum hluta af væntingum um aukna eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti og öðrum olíuafurðum þegar Kórónukreppan lætur undan síga á heimsvísu. Síðustu daga hefur þó fyrirhugaður samdráttur í framleiðslu OPEC-ríkja einni haft áhrif. Brent-olían kostar nú ríflega 60 Bandaríkjadollara hver tunna og hefur verð á henni ekki verið hærra í rúmt ár. Samkvæmt könnun okkar hækkaði eldsneytisverð hér á landi um 2,3% í febrúar, sem hefur áhrif til 0,07% hækkunar á VNV.
Horfur á verðbólgu við markmið frá og með áramótum
Verðbólguhorfur til skemmri tíma hafa versnað lítillega frá síðustu spá okkar. Helgast það fyrst og fremst af fyrrnefndri hækkun á eldsneytisverði og auk þess meiri verðbólgu í janúar en við væntum. Við teljum hins vegar að verðbólga muni hjaðna jafnt og þétt eftir því sem líður á árið, áhrif af gengislækkun krónu í fyrra og launahækkun um áramótin fjara út, áhrif af slaka í hagkerfinu koma fram í meiri mæli og stórir hækkunarmánuðir detta út úr 12 mánaða taktinum.
Spá okkar hljóðar upp á 0,3% hækkun VNV í mars, 0,2% í apríl og 0,3% hækkun í maí. Gangi þetta eftir mun verðbólga mælast 3,6% í maí. Í kjölfarið gerum við ráð fyrir frekari hjöðnun verðbólgu út árið. Spáum við verðbólgu í 2,5% markmiði Seðlabankans í árslok og að verðbólgan verði rétt við markmið næstu tvö ár þar á eftir.
Gengi krónu verður áfram lykil áhrifaþáttur. Forsenda spárinnar er að krónan verði að jafnaði 6-7% sterkari árið 2023 en hún var að meðaltali í fyrra. Endurreisn ferðaþjónustunnar mun ráða miklu um hvernig sú spá gengur eftir en verulega þarf að slá í bakseglin með niðurlög COVID-faraldursins og vöxt ferðaþjónustu á alþjóðavísu til þess að viðskiptajöfnuður batni ekki á komandi misserum og gjaldeyrisflæði þar með.
Horfur eru á að íbúðaverð hækki jafnt og þétt á komandi misserum enda er seigt í eftirspurn og framboð af nýjum íbúðum fer nú minnkandi. Þá áætlum við að laun á vinnumarkaði hækki í takti við Lífskjarasamningana og aðra nýlega samninga á svipuðum nótum en að launaskrið verði ekki umtalsvert.