Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Spáum 0,6% hækkun neysluverðs í mars

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,6% í mars frá mánuðinum á undan. Miðað við þá spá verður 12 mánaða verðbólga óbreytt í 3,0%


Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa batnað lítillega frá síðustu spá. Útlit er fyrir að verðbólga verði 3,3% að jafnaði á öðrum fjórðungi ársins og verði einnig að meðaltali 3,3% á árinu 2019 í heild, en hjaðni lítillega í kjölfarið og verði 3,0% í árslok 2020. Hagstofan birtir VNV fyrir mars kl.9 þann 27. þessa mánaðar.

Útsölulok helsti hækkunarvaldur í mars

Ein helsta ástæða þess að hækkun VNV reyndist minni en vænst var í febrúar var sú að áhrif útsöluloka voru mun vægari en spáð hafði verið. Átti það sér í lagi við um verð á fatnaði og skóm.

Fátt bendir þó til annars að verð á fatnaði muni sækja á svipaðar slóðir og það var á fyrir útsölurnar. Við teljum því að áhrif útsöluloka verði með meira móti í marsmánuði og að hærra verð á fötum og skóm hafi  0,31% hækkunaráhrif í VNV.

Að fata- og skóverði slepptu hefur hækkun á reiknaðri húsaleigu, sem endurspeglar að mestu þróun íbúðaverðs, einna mestu hækkunaráhrifin í spá okkar nú (0,09% í VNV). Byggir það á spá okkar um 0,4% hækkun íbúðaverðs milli mánaða. Þá gerum við ráð fyrir hóflegum hækkunaráhrifum af ýmsum öðrum liðum á borð við eldsneyti (0,05% í VNV), flugfargjöld (0,04% í VNV), bifreiðar (0,03% í VNV), mat og drykk (0,02% í VNV) og heilsu (0,02% í VNV). 

Almennt virðist þó hækkun verðlags vera tiltölulega hófleg þessa dagana. Teljum við að aukinn stöðugleiki krónunnar undanfarnar vikur og vaxandi blikur á lofti um skammtímahorfur í hagkerfinu gætu skýrt þessa þróun að hluta ásamt tiltölulega virku samkeppnisumhverfi víða í smásöluverslun.

Verðbólga áfram á svipuðum slóðum út áratuginn

Útlit er fyrir verðbólga muni áfram verða á svipuðu róli næstu mánuðina. Við spáum  0,2% hækkun í apríl, 0,2% hækkun VNV í maí og 0,3% hækkun í júní. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 3,2% í júní 2019. Búast má við hækkun flugfargjalda í kring um páskana og frekari hækkun þegar sumarið gengur í garð. Áfram mun draga úr hækkunartakti innfluttra vara þegar vorar að því gefnu að krónan veikist ekki á nýjan leik. Þá gerum við ráð fyrir að íbúðaverð muni hækka í svipuðum takti á komandi mánuðum og raunin hefur verið undanfarið.

Í kjölfarið teljum við að verðbólga muni áfram verða á svipuðum slóðum út árið 2019 og mælast 3,1% í árslok 2019. Þá spáum við því að verðbólga verði að jafnaði 3,3% á árinu 2020 en mælist 3,0% í lok næsta árs. Spáin byggir á þeim forsendum að gengi krónu haldist svipað því sem verið hefur undanfarið, hækkun launa verði heldur meiri að jafnaði á þessu ári en því síðasta og að raunverð íbúða hækki lítilsháttar á ári hverju. 

Niðurstaða kjarasamning er líkt og í undanförnum spám einn stærsti óvissuþáttur spárinnar. Við gerum ráð fyrir að laun muni að jafnaði hækka nokkru meira á yfirstandandi ári en raunin var í fyrra, en talsverð hætta er þó á að hækkunin verði meiri en hér er spáð, eða að önnur skilyrði kjarasamninga sem snúa að hinu opinbera geti leitt til meiri verðbólguþrýstings þegar frá líður.

Á móti eru skammtímahorfur i íslensku hagkerfi með óvissara móti nú um stundir í ljósi nýlegra frétta af mótvindi í rekstri flugfélaga, yfirvofandi verkföllum í ferðaþjónustu og ónýtrar loðnuvertíðar, svo nokkuð sé nefnt. Hagkerfið gæti því kólnað hraðar en við höfum gert ráð fyrir og innlend eftirspurn þar með valdið minni kostnaðarþrýstingi með tíð og tíma.

Verðbólguspá mars 2019