Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Spáum 0,6% hækkun neysluverðs í febrúar

Við spáum að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,6% í febrúar frá mánuðinum á undan.


Við spáum að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,6% í febrúar frá mánuðinum á undan. Miðað við þá spá verður 12 mánaða verðbólga óbreytt í 3,4%. Verðbólguhorfur til skamms tíma hafa lítið breyst frá síðustu spá. Útlit er fyrir að verðbólga verði 3,4% að jafnaði á fyrsta fjórðungi ársins og verði að meðaltali 3,6% á árinu 2019, en hjaðni í kjölfarið og verði að jafnaði 3,4% á árinu 2020. Hagstofan birtir VNV fyrir febrúar kl.9 þann 27. þessa mánaðar.

Útsölulok og íbúðaverð helstu hækkunarvaldar

Í febrúar spila útsölulok ávallt stórt hlutverk í hreyfingum VNV milli mánaða. Við gerum ráð fyrir að þau vegi alls til tæplega 0,4% hækkunar VNV að þessu sinni. Þar af eru 0,17% vegna fata- og skóliðar vísitölunnar, 0,19% vegna húsgagna og heimilisbúnaðar, og 0,02% vegna tölva, sjónvarpa og þess háttar tækja.

Að útsölulokunum slepptum hefur hækkun á reiknaðri húsaleigu mestu áhrifin í spá okkar (0,10% í VNV) enda bendir könnun okkar til þess að markaðsverð íbúðarhúsnæðis hafi hækkað um tæplega 0,5% milli mánaða. Hækkun á matvöru virðist hófleg að þessu sinni (0,03% áhrif í VNV).

Það eru einna helst flugfargjöld til útlanda sem vega til lækkunar í febrúarspánni (-0,04% í VNV).

Verðbólga lætur undan síga á endanum

Útlit er fyrir verðbólga muni áfram verða á svipuðu róli næstu mánuðina. Við spáum 0,5% hækkun VNV í mars, 0,2% hækkun í apríl og 0,2% hækkun VNV í maí. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 3,8% í maí 2019. Í mars ganga útsöluáhrif til baka með tilheyrandi hækkunarþrýstingi á VNV. Þá má búast við hækkun flugfargjalda í kring um páskana sem svo aftur gengur til baka í maímánuði. Jafnt og þétt mun draga úr hækkunartakti innfluttra vara þegar vorar að því gefnu að krónan veikist ekki á nýjan leik. Þá gerum við ráð fyrir að íbúðaverð muni hækka öllu hægar á komandi mánuðum en raunin var að jafnaði á síðasta ári.

Í kjölfarið teljum við að verðbólga muni aukast nokkuð fram eftir árinu 2019 og ná hámarki í 3,9% á 3. ársfjórðungi, en hjaðna síðan hægt og bítandi að nýju . Spáum við því að verðbólga mælist 3,4% í árslok 2019 en verði að jafnaði 3,4% á árinu 2020. Verðbólga mun samkvæmt þessu haldast rétt innan 4% þolmarka verðbólgumarkmiðs Seðlabankans en nokkuð virðist í að hún eigi afturkvæmt undir 2,5% markmiðið.

Kjarasamningar á komandi mánuðum eru líkt og fyrri daginn einn stærsti óvissuþáttur spárinnar. Við gerum ráð fyrir að laun muni að jafnaði hækka heldur meira á yfirstandandi ári og raunin var í fyrra, en talsverð hætta er þó á að hækkunin verði meiri en hér er spáð, eða að önnur skilyrði kjarasamninga sem snúa að hinu opinbera geti leitt til meiri verðbólguþrýstings þegar frá líður.

Þá gerum við sem fyrr ráð fyrir að íbúðaverð hækki hægar eftir því sem líður á spána, og að gengi krónu muni að jafnaði verða svipað næstu misserin og verið hefur síðustu vikurnar. Óvissan um gengisþróun krónu er að mati okkar tiltölulega samhverf, enda virðist núverandi gengi vera í grennd við jafnvægisgengi til skemmri tíma litið.

Verðbólguspá febrúar 2019