Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Spáum 0,4% hækkun neysluverðs í mars

Útlit er fyrir að verðbólga aukist lítillega í mars. Hækkandi eldsneytisverð og útsölulok skýra stærstan hluta af hækkun neysluverðs í marsmánuði. Verðbólguhorfur eru hins vegar góðar og líklega verður verðbólga komin niður í 2,5% markmið Seðlabankans í árslok.


Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,4% í mars frá fyrri mánuði. Verðbólga mun samkvæmt því aukast úr 4,1% í 4,2% í marsmánuði. Útlit er þó fyrir að toppi verðbólgukúfsins hafi verið náð í þetta skiptið og horfur eru á að verðbólga hjaðni allhratt þegar lengra líður á þetta ár.

Eldsneytiverð er sá einstaki liður sem mest áhrif hefur til hækkunar VNV í mars. Verð á eldsneyti hefur hækkað gífurlega á heimsmarkaði undanfarna mánuði, að stórum hluta vegna væntinga um aukna eftirspurn eftir Kórónukreppuna en einnig vegna aðgerða OPEC í því skyni að halda aftur af framboði. Til að mynda er verð á Brent-olíu nú rétt tæpir 70 Bandaríkjadollarar á hverja tunnu. Er það 60% hærra verð en var að jafnaði á 3. fjórðungi síðasta árs. Frá nóvember sl. hefur eldsneytisverð hér á landi hækkað um 6,5% og bendir könnun okkar til þess að það muni hækka um tæplega 4% (0,13% áhrif á VNV).

Útsölulok hafa þó á heildina litið meiri áhrif á VNV í mars en eldsneytið, en þar er um að ræða uppsöfnuð áhrif á nokkra liði. Til að mynda gerum við ráð fyrir 3,0% verðhækkun á fötum og skóm (0,10% í VNV) og  0,9% hækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði (0,05%). Útsölur í upphafi árs voru grynnri en gengur og gerist í íslenskum verslunum. Sker mæling marsmánaðar að mati okkar úr um það hvort verslanirnar brugðust einfaldlega við líflegri eftirspurn og minni samkeppni frá erlendum verslunarferðum með rýrari útsölum eða hvort hér er á ferð verðhækkunaráhrif sem skila hærra verði á fatnaði, tækjum og heimilisbúnaði en raunin var fyrir útsölurnar.

Að útsölulokum og eldsneytisverði slepptu er fremur rólegt yfir mánaðarbreytingum á VNV. Þó má nefna að við áætlum að verðhækkun á bifreiðum og flugfargjöldum til útlanda leiðir til 0,06% hækkunar á VNV samanlagt. Þá ýtir viðhaldsliður húsnæðis VNV upp um 0,02% og greidd húsaleiga VNV upp um 0,01% til viðbótar. Við mældum raunar einnig  0,4% hækkun á markaðsverði íbúðarhúsnæðis í könnun okkar en útlit er fyrir að lækkunaráhrif vaxtaþáttar vegna hagstæðari kjara á íbúðalánum síðustu misserin vegi þá hækkun upp í útreikningi á reiknaðri húsaleigu. Ekki er útlit fyrir að neinn undirliður VNV hafi umtalsverð áhrif til lækkunar að þessu sinni.

Verðbólga líkleg til að hjaðna hratt á árinu 2021

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma eru lítið breyttar frá síðustu spá. Eldsneytisverð gerir okkur lítilsháttar skráveifu í verðlagsþróun næstu mánuðina en aðrar forsendur eru að mestu óbreyttar. Við spáum 0,2% hækkun VNV í apríl, 0,2% í maí og 0,3% hækkun í júní. Gangi spáin eftir fer verðbólgan niður fyrir 4% þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í maí og verður komin niður í 3,5% um mitt ár. Í kjölfarið gerum við áfram ráð fyrir að 12 mánaða verðbólgutakturinn hjaðni áfram allhratt út árið og að verðbólga standi í 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans um næstu áramót. Næstu tvö ár eru svo horfur á að verðbólga verði í grennd við verðbólgumarkmiðið.

Helsti drifkraftur í hjöðnun verðbólgunnar á komandi fjórðungum er styrking krónu í spáforsendum okkar. Krónan hefur haldið allvel sjó undanfarna mánuði og meiri líkur en minni eru á styrkingu hennar seinna á árinu þegar ferðamannagjaldeyrir byrjar vonandi aftur að streyma til landsins. Frekari styrking verði síðan á næstu árum með vaxandi viðskiptaafgangi og bjartari tíð í hagkerfinu. Krónuforsendan í spá okkar er að gengisvísitala krónu verði að jafnaði rétt um 197 í ár, 188 á næsta ári og 185 árið 2023. M.ö.o. verður krónan að meðaltali 8-9% sterkari á árinu 2023 en hún var í fyrra ef spá okkar gengur eftir. Vart þarf þó að tíunda að óvissan í þeirri forsendu er veruleg þótt líkurnar liggi að mati okkar mun meira í átt til styrkingar en veikingar krónunnar á spátímanum.

Á móti vegur að horfur eru á allhraðri hækkun launa á komandi misserum og eins virðist vera meiri gangur í íbúðamarkaði en margir væntu fyrst eftir að Kórónukreppan skall á. Innlendur kostnaðarþrýstingur verður því allnokkur á komandi misserum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband