Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Sólin lækkar og verðbólgan með

Útlit er fyrir hjaðnandi verðbólgu á síðasta þriðjungi ársins.


Útlit er fyrir hjaðnandi verðbólgu á síðasta þriðjungi ársins.

Samantekt

  • Spáum 0,2% hækkun VNV í september

  • Verðbólga hjaðnar úr 3,2% í 3,1%

  • Útsölulok og árvissar hausthækkanir helstu hækkunarvaldar

  • Flugfargjöld, eldsneyti og hótelgisting lækkar

  • Útlit fyrir verðbólgu við markmið Seðlabankans í árslok

  • Allbjartar verðbólguhorfur næstu misserin

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,2% í september frá mánuðinum á undan. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga hjaðna frá fyrri mánuði úr 3,2% í 3,1%.

Verðbólguhorfur til næstu missera eru allgóðar vegna hægari hækkunar íbúðaverðs, tiltölulega stöðugrar krónu og væntinga um hóflegar launahækkanir. Við spáum því að verðbólga verði við markmið Seðlabankans í lok ársins og mælast 2,4% í desember. Hagstofan birtir VNV fyrir september kl. 09.00 þann 27. september næstkomandi.

Áhrif útsöluloka að stórum hluta komin fram

Í ágústmánuði voru áhrif útsöluloka talsvert sterkari en gengur og gerist og verða áhrifin sem því nemur vægari í september að okkar mati. Við spáum því að fata- og skóverð hækki um tæplega 3% í mánuðinum  (0,12% í VNV). Þá hækka húsgögn og heimilisbúnaður væntanlega í verði milli mánaða um tæp 2% (0,09% í VNV).

Af öðrum liðum sem vega til hækkunar VNV í september má nefna að árviss verðhækkun á námskeiðum og íþróttaiðkun ásamt útsölulokum í útivistar- og tómstundaverslunum hefur áhrif til 0,06% hækkunar vísitölunnar samkvæmt spá okkar. Þá gerum við ráð fyrir 0,3% hækkun matvæla- og drykkjarverðs (0,04% í VNV).

Haustlækkun flugfargjalda á sínum stað

Sá liður sem hefur afgerandi mest lækkunaráhrif á VNV í mánuðinum eru ferðir og flutningar. Við spáum því að liðurinn lækki í heild um 0,7% (-0,11 í VNV) í september. Þar ber helst að nefna árstíðarbundna lækkun á flugfargjöldum en við spáum því að flutningar í lofti lækki um tæp 6% (-0,11%). Einnig lækkar verð á eldsneyti í mánuðinum um 0,5% (-0,02% í VNV).

Að ferðaliðnum slepptum er það helst árstíðabundin verðlækkun á hótelgistingu (-0,02% í VNV) sem togar VNV niður að þessu sinni.

Haustlygna á íbúðamarkaði?

Við spáum því að húsnæðisliðurinn í heild verði nánast óbreyttur í ágúst (0,03% í VNV). Hækkunaráhrifin eru bundin við greidda húsaleigu, sem við gerum ráð fyrir að hækki um 0,3%.

Mæling okkar bendir til þess að lítilsháttar hækkun mælist á íbúðaverði milli mánaða. Á móti vegur hins vegar að vaxtaþáttur reiknaðrar húsaleigu, sem byggður er á vaxtaþróun íbúðalána, hefur farið lækkandi og gerum við ráð fyrir að reiknuð húsaleiga mælist óbreytt í septembermánuði á milli mánaða.

Framboð íbúða hefur verið að aukast jafnt og þétt og dregið hefur úr eftirspurn. Margt bendir til þess að ákveðið jafnvægi sé að myndast á íbúðamarkaði og mun sú þróun væntanlega einnig einkenna komandi mánuði.

Verðbólga líklega í markmiði um áramótin

Verðbólguhorfur eru allgóðar fyrir komandi mánuði og misseri. Við spáum 0,2% hækkun VNV í október, 0,1% hækkun í nóvember og 0,5% hækkun í desember. Samkvæmt því mun 12 mánaða verðbólga mælast 2,4% í árslok.

Í kjölfarið gerum við ráð fyrir því að verðbólga verði að jafnaði 2,6% árið 2020 og 2,8% árið 2021. Gangi það eftir má Seðlabankinn vel við una enda gera stöðugar verðbólguhorfur honum mun auðveldara fyrir að mýkja hagsveifluna með viðeigandi vaxtabreytingum. Stærstu óvissuþættir í spá okkar eru hugsanleg veiking krónu yfir vetrarmánuðina og launakröfur í kjarasamningum sem enn á eftir að ljúka. Á móti gæti þó þróun íbúðaverðs leitt til minni verðbólgu en hér er spáð.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband