Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

„Sólarlandaferð“ í íslenskri landhelgi í sumar?

Þegar er farið að draga mikið úr nýtingu íslenskra hótela og þurfa þau væntanlega að stóla á innlenda ferðamenn að mestu leyti þetta sumarið. Þótt það dugi skammt á landsvísu gætu einstök svæði fengið talsverðan búhnykk af aukinni innlendri ferðagleði í sumar.


Gistináttatölur bera þess skýrt merki hversu djúpstæð áhrif COVID-19 hefur á ferðaþjónustugeirann. Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar fækkaði gistinóttum á landinu um 55% í marsmánuði samanborið við sama mánuð 2019. Mest var fækkunin á gistinóttum sem miðlað var um Airbnb og svipaðar síður, 65%, en gistinóttum á hótelum fækkaði um 54% á gistiheimilum um 48%.

Gistinætur á hótelum voru alls ríflega 175 þúsund í marsmánuði og hafa þær ekki verið færri í rúmlega 5 ár. Mest var fækkunin hlutfallslega á Suðurnesjum (62%) en minnst á Austurlandi (29%).

Þessi þróun er þó einungis forsmekkurinn að því sem koma skal. Nær engir erlendir ferðamenn koma til landsins þessa dagana og ekki er útséð um hvenær þar verði breyting á. Því má ætla að gistináttatölur næstu mánaða endurspegli eingöngu ferðalög Íslendinga innanlands og því forvitnilegt að rýna í hvernig sú þróun gæti orðið.

10% hótelgesta Íslendingar

Eins og nærri má geta lækkaði hlutdeild Íslendinga í gistingu á hótelum umtalsvert eftir því sem ferðamönnum hingað til lands fjölgaði undanfarinn áratug. Á síðasta ári voru íslenskir ríkisborgarar rétt um tíundi hluti þeirra sem gistu á hérlendum hótelum. Hlutfallið var þó býsna mismunandi eftir landssvæðum. Lægst var það á höfuðborgarsvæðinu, tæp 7%. Á Vesturlandi og Vestfjörðum var nærri fjórðungur hótelgesta innlendur og á Norðurlandi var um fimmtungur hótelgesta af innlendu bergi brotinn. Alls voru gistinætur Íslendinga á hérlendum hótelum tæplega 440 þúsund talsins árið 2019.

Hlýðum við Þórólfi í sumar?

Ætla má að ferðahugur landsmanna innanlands muni verða með mesta móti í ár. Alls er óvíst um hvenær ferðalög milli landa færast í eðlilegt horf og væntanlega eru flest heimili farin að skipuleggja sumarfrí sitt út frá þeirri forsendu að sumarfríinu verði varið innan landsteinanna þetta árið. Stjórnvöld og ferðaþjónustan hyggja einnig á átak til að láta kné fylgja kviði í þeim efnum.

Vissulega mun aukinn ferðaáhugi landans innanlands vega skammt gegn því þunga höggi sem COVID-19 hefur reynst fyrir ferðaþjónustuna í heild. Hann gæti þó reynst töluverð búbót á einstökum landssvæðum.

Ef tekið er mið af gögnum um utanferðir Íslendinga undanfarin sumur og ferðalengd áætluð má lauslega áætla að landsmenn hafi að jafnaði keypt u.þ.b. 400 þúsund gistinætur á erlendum gististöðum síðustu sumrin. Alls er óvíst um hversu stór hluti þessa hóps muni kjósa að gista á innlendum hótelum og gistiheimilum þetta árið enda er ferðahegðun innanlands talsvert önnur en erlendis og vitaskuld meira um gistingu í eigin sumarhúsum, ferðavögnum á borð við hjólhýsi og tjöldum, svo ekki sé talað um gestaherbergi hjá vinum og ættingjum. Ef gert er ráð fyrir að á bilinu 20-40% af þeim gistinóttum sem keyptar voru erlendis undanfarin ár skili sér á innlenda gististaði gæti það þýtt 80 – 160 þúsund fleiri gistinætur en ella COVID-sumarið 2020. Til samanburðar voru gistinætur Íslendinga innanlands að jafnaði rétt um 100 þúsund undanfarin sumur.

Gangi þessi lauslega spá eftir felur það í sér að gistinætur á íslenskum hótelum og gistiheimilum gætu orðið á bilinu 180 – 260 þúsund yfir sumarmánuðina. Til samanburðar voru gistinætur í heild á tímabilinu júní-ágúst í fyrra 1,4 milljónir. Gistivilji Íslendinga mun því duga skammt til þess að vega gegn skorti á erlendum ferðamönnum í hótelgeiranum í heild þetta sumarið.

Stingum af...í spegilsléttan fjörð

Hins vegar eru líkur á að gisting Íslendinga muni dreifast með allt öðrum hætti en gisting erlendra ferðamanna hefur gert undanfarin ár. Ólíklegt er að íbúar á suðvesturhorninu muni sækja mikið í gistingu í eigin túnfæti, en 56% hótelherbergja á landinu er á höfuðborgarsvæði og Suðurnesjum og þar búa tæp 70% landsmanna. Því má segja að rétt tæpur þriðjungur landsmanna sé líklegur til að velja sér þennan hluta landsins til sumarfrísdvalar fjarri heimili sínu.

Á hinum enda þessa samanburðar er svo Austurland. Þar búa í kring um 4% landsmanna og svipað hlutfall hótelherbergja er á svæðinu. Því má segja að þorri landsmanna sé líklegur til að velta fyrir sér dvöl fyrir austan þetta sumarið á meðan ekki ýkja mörg hótelrými eru til skiptanna. Svipaða sögu má segja af Norðurlandi þar sem ríflega 10% hótelherbergja landsins eru staðsett en nærri 90% landsmanna eru líklegir ferðalangar. Það vinnur svo væntanlega með þessum tveimur svæðum ef veðráttan verður rysjótt sunnan- og vestan til a.m.k. hluta sumarsins því þá er tíðin gjarnan góð hinum megin á landinu eins og landsmenn þekkja af reynslunni.

Suðurland og Vesturland gætu svo einnig fengið töluverðan búhnykk af auknum ferðavilja landsmanna. Á fyrrnefnda svæðinu er raunar ríflega fimmtungur hótelherbergja á landsvísu en þar er líka prýðileg aðstaða víða og gríðarmargt í boði fyrir innlenda ferðamenn. Vesturland, að Vestfjörðum meðtöldum, býr svo yfir 8% hótelherbergja og nærri 93% landsmanna býr utan svæðisins samanborið við 90% þegar litið er til Suðurlands.

Það má því álykta sem svo að á ýmsum þeim svæðum á landsbyggðinni þar sem myndarleg gistiaðstaða hefur verið byggð upp og eftir nokkru er að slægjast varðandi afþreyingu og náttúru muni verða talsvert sóknarfæri í þeim landsmönnum sem nýta ferðasjóði sína til þess að skoða Ísland þetta sumarið. Hætt er hins vegar við að hótelin á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þurfi að hugsa út fyrir kassann til þess að laða að innlenda ferðamenn í miklum mæli. Svo er bara að vona að síðustu dagar gefi tóninn fyrir það sem koma skal í sumar og hægt verði að nýta sumarfríið í notalega sólarferð í íslenskri landhelgi þetta árið.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband