Á hinum enda þessa samanburðar er svo Austurland. Þar búa í kring um 4% landsmanna og svipað hlutfall hótelherbergja er á svæðinu. Því má segja að þorri landsmanna sé líklegur til að velta fyrir sér dvöl fyrir austan þetta sumarið á meðan ekki ýkja mörg hótelrými eru til skiptanna. Svipaða sögu má segja af Norðurlandi þar sem ríflega 10% hótelherbergja landsins eru staðsett en nærri 90% landsmanna eru líklegir ferðalangar. Það vinnur svo væntanlega með þessum tveimur svæðum ef veðráttan verður rysjótt sunnan- og vestan til a.m.k. hluta sumarsins því þá er tíðin gjarnan góð hinum megin á landinu eins og landsmenn þekkja af reynslunni.
Suðurland og Vesturland gætu svo einnig fengið töluverðan búhnykk af auknum ferðavilja landsmanna. Á fyrrnefnda svæðinu er raunar ríflega fimmtungur hótelherbergja á landsvísu en þar er líka prýðileg aðstaða víða og gríðarmargt í boði fyrir innlenda ferðamenn. Vesturland, að Vestfjörðum meðtöldum, býr svo yfir 8% hótelherbergja og nærri 93% landsmanna býr utan svæðisins samanborið við 90% þegar litið er til Suðurlands.
Það má því álykta sem svo að á ýmsum þeim svæðum á landsbyggðinni þar sem myndarleg gistiaðstaða hefur verið byggð upp og eftir nokkru er að slægjast varðandi afþreyingu og náttúru muni verða talsvert sóknarfæri í þeim landsmönnum sem nýta ferðasjóði sína til þess að skoða Ísland þetta sumarið. Hætt er hins vegar við að hótelin á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þurfi að hugsa út fyrir kassann til þess að laða að innlenda ferðamenn í miklum mæli. Svo er bara að vona að síðustu dagar gefi tóninn fyrir það sem koma skal í sumar og hægt verði að nýta sumarfríið í notalega sólarferð í íslenskri landhelgi þetta árið.