Lágt kostnaðarhlutfall
Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 13,5% á 4F22, samanborið við 4F21.
Hækkun á öðrum rekstrarkostnaði milli ára um 24,4% á 4F22 má rekja til ýmissa þátta. Helstu skýringar má rekja til aukinnar verðbólgu, dvínandi áhrif heimsfaraldurs COVID-19 á daglegt líf meðal annars með auknum ferðalögum, stefnumótunarvinnu og skuldbindingar vegna mögulegrar stjórnvaldssektar.
Fjöldi starfsmanna í móðurfélagi, að undanskildum árstíðabundnum starfsmönnum, var 700 í lok árs (702 í lok árs 2021) og 739 hjá samstæðu (735 í lok árs 2021).
Kostnaðarhlutfall var 42,5% á 4F22, samanborið við 45,3% á 4F21.
Skattar og gjöld
Virkur tekjuskattur á 4F22 var 26,7% samanborið við 19,1% á 4F21. Virkur tekjuskattur fyrir árið 2022 var 25,8% samanborið við 18,5% fyrir árið 2021. Hærri virkur tekjuskattur á 4F22 skýrist að mestu leyti af skattaáhrifum jákvæðra gangvirðisbreytinga á hlutabréfum á 4F21 samanborið við neikvæðar gangvirðisbreytingar á hlutabréfum á 4F22. Bankinn greiðir sérstakan fjársýsluskatt 6% á hagnað umfram einn milljarð króna. Einnig greiðir bankinn fjársýsluskatt og tryggingargjald vegna starfsfólks. Þá greiðir bankinn framlög til fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Umboðsmanns skuldara. Í samræmi við nýja löggjöf þarf bankinn ekki að greiða iðgjöld í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta eftir 1F22. Það getur þó breyst í framtíðinni og ræðst af stöðu sjóðsins og stærð innstæðukerfisins. Heildarskattar og gjöld voru 3,1 milljarður króna á 4F22, samanborið við 2,3 milljarða króna á 4F21.
Virðisbreyting fjáreigna á fjórða ársfjórðungi
Virðisbreyting fjáreigna var neikvæð um 0,6 milljarða króna á 4F22 (4F21: jákvæð virðisbreyting um 0,6 milljarða króna) vegna óhagstæðara efnahagsumhverfis. Horfur með tilliti til virðisrýrnunar eru tiltölulega góðar vegna lítils atvinnuleysis og góðra hagvaxtarhorfa.
Hrein virðisbreyting (e. Cost of risk) sem hlutfall af meðalstöðu útlána á ársgrundvelli, var +0,22% fyrir 4F22 samanborið við -0,23% fyrir 4F21 og var -0,14% fyrir árið 2022.
Tekjuvöxtur ástæða góðrar afkomu
Hagnaður eftir skatta á fjórða ársfjórðungi nam 6,0 milljörðum króna (4F21: 7,1 milljarður króna) og arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 11,1% á ársgrundvelli (4F21: 14,2%). Minni hagnaður sem nemur 1,1 milljarði króna skýrist einkum af auknum stjórnunarkostnaði, fjármunakostnaði og virðisrýrnun.