Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Skammvinnur verðbólgutoppur í janúar

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni lækka um 0,2% í janúar frá fyrri mánuði. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 4,2% en var 3,6% í desember og 3,5% í nóvember. Ástæða þess að 12 mánaða taktur verðbólgunnar hækkar svo hressilega þennan mánuðinn, þrátt fyrir hjöðnun verðlags á milli mánaða, er sú að í janúar 2020 lækkaði VNV umtalsvert meira en í ár (-0,7%).


Samantekt

  • Spáum 0,2% lækkun VNV í janúar.

  • Eldsneytisverð hækkar áfram á milli mánaða.

  • Útsölur á ýmsum neysluvörum vega til lækkunar VNV í janúar.

  • Flugfargjöld hækka í janúar.

  • Breytingar á skattlagningu valda hóflegri hækkun ýmissa liða VNV.

Skráðu þig á póstlistann okkar

Undanfarin ár hefur VNV lækkað duglega í janúar en við reiknum með heldur hóflegri lækkun þetta árið. Á nýliðnu ári jókst verðbólgan töluvert sem má að stærstum hluta rekja til afleiðinga COVID-19 faraldursins. Þegar ferðamannastraumur til landsins lagðist að mestu leyti af minnkaði gjaldeyrisinnflæði gífurlega með þeim afleiðingum að íslenska krónan veiktist talsvert gagnvart helstu myntum heimsins. Sem dæmi má nefna að krónan veiktist um rúm 14% gagnvart evrunni, 4% gagnvart dollara og 7% gagnvart pundi. Veiking krónunnar varð til þess að innfluttar neysluvörur hækkuðu í verði og þar með fór verðbólgan á skrið. Þróun verðbólgunnar hér á landi veltur að hluta af framvindu faraldursins en því fyrr sem samfélög heimsins komast aftur nær eðlilegu horfi, því fyrr getum við reiknað með hjöðnun verðbólgu hér á landi. Spá Greiningar er að verðbólgan verði að meðaltali 3% á árinu og 2,2% á því næsta.

Útsölur á hinum ýmsu neysluvörum eins og húsgögnum, raftækjum og fatnaði hafa vegið þungt til lækkunar VNV á undanförnum árum í janúar. Þekkt er að verslanir nýta mánuðinn til þess losa sig við eldri vörur á útsölu til þess að rýma fyrir nýjum vörum. Liðurinn húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. lækkar um tæp 4% á milli mánaða í spá okkar (-0,23% áhrif í VNV). Liðurinn föt og skór lækkar talsvert meira eða um tæp 9% frá fyrri mánuði (-0,32% áhrif í VNV). Lyf og heilsuvörur lækka um 3,17% í verði á milli mánaða (-0,04% áhrif í VNV).

Mikið líf var á fasteignamarkaði á síðari hluta ársins 2020 í kjölfar talsverðra vaxtalækkana á árinu sem leiddi til hækkunar á markaðsverði fasteigna. Reiknuð húsleiga hækkar um 0,6% í janúar (0,1% áhrif í VNV) en liðurinn samanstendur af markaðsverði íbúðarhúsnæðis og áhrifum vaxta af íbúðarlánum. Áhrif fyrrnefnda liðarins vega þyngra til hækkunar þennan mánuðinn heldur en sá síðarnefndi til lækkunar.

Lækkandi verðbólga með hækkandi sól

Við spáum 0,6% hækkun VNV í febrúar, 0,3% hækkun í mars og 0,2% hækkun í apríl. Gangi spá okkar eftir mun verðbólgan áfram mælast mikil næsta kastið. Meðalverðbólga á 1F 2021 verður til að mynda 4% gangi spá okkar eftir. Horfur um framhaldið hafa hinsvegar skánað talsvert og eru ágætar líkur á því að verðbólgan verði nálægt markmiði Seðlabanka Íslands á seinni hluta ársins 2021.

Óvissa ríkir um hvenær efnahagur landsins réttir úr kútnum á komandi fjórðungum en líkt og fyrr var reifað á veltur það að stórum hluta á framvindu faraldursins. Bóluefni er komið á markað og bólusetning þegar hafin hér á landi. Takist Íslendingum að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar fyrir háönn ferðaþjónustunnar mætti ætla að Ísland verði ofarlega í huga útlendinga sem vilja svala ferðaþorsta sínum, sér í lagi ef faraldurinn sækir ekki umtalsvert í sig veðrið í vor. Slíkt gjaldeyrisinnflæði getur skipt sköpum fyrir lítið hagkerfi líkt og okkar enda aukast líkur á styrkingu krónu eftir því sem ferðamönnunum fjölgar á nýjan leik. Verðbólgan verður þó enn nokkuð mikil næsta kastið. Auk áhrifa af veikingu krónu koma þar til kostnaðarauki vegna myndarlegrar hækkunar á samningsbundnum launum og fremur þróttmikill íbúðamarkaður. Við reiknum þó með hún muni hjaðna með hækkandi sól og raunar eru horfur á að verðbólga verði að jafnaði rétt undir verðbólgumarkmiðinu á seinni hluta spátímans.

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.