Talsverð sveifla var í gengi krónunnar í marsmánuði. Í fyrstu viku mánaðarins veiktist krónan um ríflega 3% gagnvart helstu gjaldmiðlum. Gekk þar til baka bróðurparturinn af styrkingu krónunnar frá áramótum til febrúarloka. Hins vegar varð viðsnúningur í gengisþróuninni þegar lengra leið á mánuðinn og um síðustu mánaðamót var gengi krónunnar aftur komið á svipaðar slóðir og í byrjun mánaðarins.
Skammvinn veikingarhrina krónu í marsmánuði
Snörp veiking krónu í fyrstu viku marsmánaðar gekk til baka þegar lengra leið á mánuðinn. Líklega á aukin stöðutaka í framvirkum samningum talsverðan þátt í styrkingu krónu frá síðasta hausti ásamt sveiflum í gjaldeyrisviðskiptum lífeyrissjóðanna. Frekari styrking krónu virðist líkleg þegar frá líður þótt áhrif stríðsins í Úkraínu kunni að setja strik í reikninginn á komandi mánuðum.
Líkt og undanfarið leitaðist Seðlabankinn við að draga úr stærstu gengissveiflunum. Þannig seldi bankinn 60 m. evra inn á millibankamarkað þegar veikingin var sem hröðust í upphafi mánaðar. Bankinn lagðist svo á kauphliðina þegar hvað mestur gangur var í styrkingu krónu seinni í mánuðinum og keypti þá til baka tæplega helminginn af þeim evrum sem hann hafði selt fyrr í mánuðinum.
Seðlabankinn mýkir áfram gengissveiflur
Mars er fyrsti mánuðurinn frá september á síðasta ári þar sem Seðlabankinn selur úr gjaldeyrisforðanum fremur en kaupa gjaldeyri á markaði. Eins og sjá má af myndinni hefur bankinn almennt lagst gegn straumnum á gjaldeyrismarkaði frá því regluleg gjaldeyrissala Seðlabankans rann sitt skeið vorið 2021. Í styrkingarhrinum hefur bankinn keypt gjaldeyri í forðann og á veikingarskeiðum hefur hann selt gjaldeyri úr forðanum inn á markað. Með þessu hefur Seðlabankinn dregið talsvert úr skammtímasveiflum enda hefur gengi evru á móti krónu haldist á bilinu 140-151 undanfarið ár þrátt fyrir talsverðar sviptingar í efnahagsumhverfinu og ekki síður í fjárfestingartengdum fjármagnshreyfingum.
Aukin stöðutaka með krónu áhrifaþáttur í styrkingu
Styrking krónu frá síðasta hausti fram til febrúarloka hefur verið athyglisverð þar sem halli hefur líklega verið á utanríkisviðskiptum meira og minna samfellt frá lokum 3. ársfjórðungs 2021 og fram á þennan dag. Viðskiptahalli var rúmir 44 ma.kr. á lokafjórðungi síðasta árs. Vöruskiptahalli á fyrsta fjórðungi þessa árs var nærri 38 ma.kr. á fyrsta fjórðungi þessa árs samkvæmt tölum Hagstofunnar og fyrirliggjandi kortaveltutölur gefa vísbendingu um að ferðagleði Íslendinga á erlenda grundu hafi vegið drjúgt gegn þjónustutekjum af erlendum ferðamönnum hér á landi.
Líkleg skýring á a.m.k. hluta styrkingar krónu á tímabilinu liggur í auknum áhuga innlendra aðila á framvirkum samningum í því skyni að verja sig gegn, eða eftir atvikum veðja á, styrkingu krónu á komandi tíð. Fjallað er um þá þróun í nýlegri útgáfu af riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika. Þar kemur fram að hrein framvirk staða innlendra viðskiptabanka fór frá því að vera nálægt núlli í upphafi síðasta árs til þess að vera jákvæð um 139 ma.kr. í lok febrúar síðastliðins. Hækkun á þessari framvirku stöðu kallar að öðru jöfnu á samsvarandi stundarviðskipti á gjaldeyrismarkaði þar sem gjaldeyrir er seldur á móti krónum.
Eins og sjá má af myndinni hafa þau tvö tímabil þar sem framvirka staðan hefur aukist jafnt og þétt farið saman við styrkingarskeið krónu. Það er því nærtæk skýring að styrkinguna á fyrri helmingi síðasta árs og svo aftur frá september í fyrra fram til febrúarloka megi skýra að hluta með fyrrnefndri stöðutöku innlendra aðila. Eins og Seðlabankinn orðar það má segja „..að vænt framtíðargjaldeyrisflæði sé þegar búið að hafa áhrif á gengi krónunnar að einhverju leyti“. Það þýðir svo aftur að þegar viðsnúningur er orðinn á utanríkisviðskiptum eins og við gerum ráð fyrir seinna á árinu kann sú þróun að hafa minni styrkingaráhrif en ella. Að sama skapi gæti verið að rótina að veikingu krónunnar í byrjun marsmánaðar sé að hluta að finna í minnkun á framvirku stöðunni, eða með öðrum orðum að einhverjum hluta framvirku samninganna hafi verið lokað á þessu tímabili.
Árstíðarsveifla í gjaldeyriskaupum lífeyrissjóða
Seðlabankinn fjallar einnig um gjaldeyrisviðskipti lífeyrissjóða í riti sínu og varpar sú umfjöllun áhugaverðu ljósi á gjaldeyrisflæði undanfarinna missera. Gjaldeyriseignir sjóðanna námu 2.535 ma.kr. um síðustu áramót og höfðu þær vaxið um rúman fimmtung á síðasta ári. Voru slíkar eignir tæplega 38% af heildareignum sjóðanna. Eins og sjá má á myndinni hafa gjaldeyrisviðskipti lífeyrissjóða tekið talsverða sveiflu á lokafjórðungi síðustu tveggja ára og voru hrein gjaldeyriskaup þeirra nánast engin frá nóvemberbyrjun til desemberloka bæði árin. Endurspeglar þessi þróun viðleitni nokkurra sjóða til þess að stilla af hlutfall erlendra eigna til samræmis við viðmið þeirra um það hlutfall í aðdraganda áramóta. Krónan styrktist nokkuð á lokamánuðum beggja ára og er líklegt að þessi tímabundni viðsnúningur í gjaldeyrisflæði tengdu sjóðunum eigi einhvern þátt í því.
Lögbundið hámark á hlutfalli óvarinna gjaldeyriseigna lífeyrissjóða er 50% af heildareignum samkvæmt núgildandi lögum. Nýlega var lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að þetta hámark verði hækkað í skrefum á komandi árum upp í 65%. Forsvarsmenn sjóðanna hafa kallað eftir því að þessu ferli verði flýtt enda stækka sjóðirnir jafnt og þétt næstu árin og heppilegra væri að áhættudreifa í vaxandi mæli fjárfestingum þeirra út fyrir íslenskan fjármálamarkað.
Gjaldeyriskaup lífeyrissjóða hafa verið mun hóflegri undanfarin tvö ár en árin þar á undan. Námu þau ríflega 50 mö.kr. hvort áranna 2020 og 2021 en hefðu árið á undan verið tvöfalt hærri. Enn eru ekki vísbendingar í gögnum Seðlabankans um að sjóðirnir séu farnir að bæta á ný í taktinn á erlendum eignakaupum en vafalítið munu kaup þeirra á slíkum eignum aukast á komandi fjórðungum og gjaldeyrisviðskipti tengt þeim halda aftur af styrkingu krónu líkt og var stóran hluta síðasta áratugar.
Frekari styrking krónu líklega þegar frá líður
Gengi krónu er enn nokkru lægra en það var að jafnaði árið áður en COVID-19 faraldurinn skall á heimsbyggðinni með tilheyrandi áhrifum á útflutningstekjur landsins. Miðað við nýjasta gildi gengisvísitölu Seðlabankans er gengi krónu til að mynda enn ríflega 4% lægra en það var að jafnaði árið 2019.
Við gerum eftir sem áður ráð fyrir því að krónan styrkist nokkuð á komandi misserum. Óvissa um skammtímaþróunina hefur þó aukist eftir innrás Rússa í Úkraínu sem haft hefur í för með sér talsverða verðhækkun á ýmsum hrávörum og eldsneyti. Þótt hækkun á verði ýmissa útflutningsvara vegi nokkuð á móti hefur þessi þróun neikvæð áhrif á skemmri tíma útlit varðandi viðskiptajöfnuð og gjaldeyrisflæði tengt honum. Okkur þykir hins vegar áfram líklegt að viðskiptaafgangur taki við af halla þegar lengra líður á árið. Því til viðbótar gæti gjaldeyrisinnflæði vegna verðbréfafjárfestinga orðið talsvert á árinu. Eign erlendra aðila í íslenskum verðbréfum er með minnsta móti og útlit er fyrir að með flokkun íslenska hlutabréfamarkaðarins í flokk nýmarkaðsríkja hjá alþjóðlega vísitölufyritækinu FTSE Russell, sem tekur gildi í septembermánuði, geti fjárfestingar erlendra hlutabréfasjóða á íslenska markaðinum aukist talsvert. Það er því á endanum líklegt að meðvindur verði með krónunni þegar fram í sækir þótt eflaust eigi eftir að verða misvindasamt um hana hér eftir sem hingað til.