Verðlaunin eru veitt þeim stjórnendum sem hafa sýnt framúrskarandi rekstrarárangur og lagt áherslu á helgun starfsfólks í starfi.
Verðlaunahafarnir hafa skarað fram úr í vinnustaðargreiningum Gallup á Íslandi, þar sem þúsundir stjórnenda eru metnir ár hvert. Til að koma til greina sem verðlaunahafi þarf stjórnandi að sýna fram á mælanlegan árangur yfir tveggja ára tímabil. Meðal þeirra þátta sem eru skoðaðir eru helgun starfsfólks, umbætur og nýsköpun, innleiðing breytinga og rekstrarárangur.
Sigurður Arnar segist afar ánægður og þakklátur fyrir þessa viðurkenningu. Hann nefnir að rík áhersla Íslandsbanka á leiðtogaþjálfun, reglulega endurgjöf, helgun starfsfólks og teymisnálgun hafi reynst afar vel. Að hans sögn er Íslandsbanki í forystuhlutverki í mannauðsmálum á Íslandi og hefur fjárfest í þjálfun starfsmanna og stjórnenda sem hefur skilað sér margfalt í betri upplifun viðskiptavina, sterkum og öflugum rekstri og einstakri fyrirtækjamenningu.