Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Síðasta stýrivaxtahækkunin í bili?

Við spáum því að stýrivextir Seðlabankans verði hækkaðir um 0,25 prósentur í næstu viku. Hjöðnun verðbólgunnar og minni spenna í hagkerfinu er ástæða þess að Seðlabankinn tekur minna vaxtahækkunarskref en áður. Ef áfram heldur sem horfir teljum við allgóðar líkur á að þetta verði síðasta vaxtahækkunin í bili og hægt vaxtalækkunarferli hefjist á næsta ári.


Við spáum því að stýrivextir Seðlabankans verði hækkaði um 0,25 prósentur við næstu ákvörðun bankans þann 23. ágúst næstkomandi. Gangi það eftir verða meginvextir bankans 9,0% og hafa ekki verið hærri síðan snemma árs 2010. Við teljum að nefndin muni einnig ræða það að halda vöxtum óbreyttum en muni kjósa að hækka um 25 punkta. Verði af vaxtahækkun í næstu viku teljum við allgóðar líkur á því að að nefndin láti þar við sitja og haldi vöxtum óbreyttum út árið.

Síðasta vaxtaákvörðun nefndarinnar var í lok maí og var þá ansi stórt skref stigið þegar vextir voru hækkaðir um 1,25 prósentur. Á fundinum var rætt um vaxtahækkun á bilinu 1,0 til 1,5 prósentur. Í fyrsta sinn síðan í október 2021 kaus nefndarmaður gegn tillögu Ásgeirs Jónssonar um 1,25 prósentu hækkun þegar Gunnar Jakobsson greiddi atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra og vildi frekar hækka vexti um 1 prósentu.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar var harður tónn sleginn og framsýna leiðsögnin hljóðaði svona: „horfur eru því á að hækka þurfi vexti enn meira til að tryggja betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og koma verðbólgu í markmið“. Miðað við framsýnu leiðsögnina var nefndin á þeim tíma harðákveðin að halda vaxtahækkunarferlinu áfram.

Áhrif vaxtahækkana komin fram

Við teljum að nefndin muni stíga talsvert minna hækkunarskref en í síðustu ákvörðunum vegna þess að frá vaxtaákvörðuninni í maí hafa flestar hagtölur þróast til betri vegar. Þar má helst nefna verðbólguna sem hefur hjaðnað nokkuð hratt og verðbólguhorfur hafa heldur skánað. Við síðustu vaxtaákvörðun var ársverðbólga 9,9% og hafði mælst yfir 9% í um það bil ár. Verðbólgan tók loksins að hjaðna fyrir alvöru í sumar og mælist nú 7,6% í júlímánuði að mestu vegna verðlækkana á íbúðamarkaði og minni innfluttrar verðbólgu. Útlit er fyrir enn frekari hjöðnun í ágúst samkvæmt nýrri verðbólguspá okkar í Greiningu. Einnig hefur kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda liði, hjaðnað á alla mælikvarða undanfarna mánuði. Það eru jákvæðar fréttir þar sem peningastefnunefndin horfir á þessa mælikvarða til að meta undirliggjandi verðbólguþrýsting.

Nýjasta verðbólguspá okkar er talsvert bjartsýnni en verðbólguspá Seðlabankans sem gefin var út samhliða ákvörðuninni í maí. Á fundinum sagði Ásgeir Jónsson að markmið nefndarinnar væri að koma í veg fyrir að sú verðbólguspá myndi rætast. Við teljum að það sé að takast og því sé ekki þörf á stærra skrefi en 25 punktum í næstu viku. Vissulega er langt þangað til verðbólga verður við markmið Seðlabankans en þó talsverður léttir fyrir nefndina að hún sé loksins tekin að hjaðna fyrir alvöru og ljóst að vaxtahækkanir undanfarinna missera eru farnar að hafa talsverð áhrif.

Verðbólguvæntingar til skemmri tíma skánað

Seðlabankinn horfir einnig til verðbólguvæntinga við ákvörðun vaxta og birti fyrr í vikunni niðurstöður úr væntingakönnun meðal markaðsaðila. Verðbólguvæntingar til skemmri tíma skána aðeins á milli kannana. Markaðsaðilar gera ráð fyrir að verðbólga verði 5,6% eftir eitt ár í stað 6,3% í síðustu könnun. Verðbólguvæntingar til næstu 2 og 5 ára taka engum breytingum á milli kannana en langtímaverðbólguvæntingar hækka lítillega og vænta markaðsaðilar að verðbólga verði um 3,6% að 10 árum liðnum. Væntingar um verðbólgu næstu árin eru því enn talsvert hærri en samrýmist 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans og vill peningastefnunefndin sjá langtímavæntingar þokast nær markmiðinu.

Dregið úr umsvifum

Ljóst er að á undanförnum mánuðum hefur dregið talsvert úr umsvifum í hagkerfinu og að vaxtahækkanir undanfarinna missera hafa áhrif á eftirspurnina. Ef litið er til kortaveltu dróst hún saman að raunvirði þrjá mánuði í röð en stóð svo í stað í júlí á milli ára.

Einkaneysla jókst um tæplega 5% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs eftir 9% vöxt í fyrra en flest bendir til þess að neysluvöxturinn verði mun hægari það sem eftir lifir árs. Þjóðhagsreikningar fyrir annan ársfjórðung birtast í lok mánaðarins og verða því ekki á borði nefndarinnar fyrir vaxtaákvörðun, en flest bendir til að það hafi dregið talsvert úr umsvifum sem er nefndinni líklega talsverður léttir.

Vaxtalækkunarferli hefst á næsta ári

Frá síðustu vaxtaákvörðun hefur flest þróast til betri vegar. Við teljum þó að peningastefnunefndin vilji stíga varlega til jarðar og taki mögulega síðasta vaxtahækkunarskrefið í bili með 25 punkta hækkun. Það yrði jafnframt fjórtánda vaxtahækkunin í röð. Ef horfur haldast óbreyttar teljum við allgóðar líkur á að vaxtahækkunarferlinu sé lokið, en reynslan undanfarið ár kennir okkur þó að þar er ekki á vísan að róa. Við teljum að hægfara vaxtalækkunarferli muni svo hefjast á fyrri hluta næsta árs eftir því sem verðbólga hjaðnar hraðar og hagkerfið sækir í betra jafnvægi.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.